Marshall er stærsti bærinn í Lyon sýslu í Minnesota. Hann komst á kortið árið 1872 þegar járnbraut var lögð þangað. Sennilega var staðarvalið ekki tilviljun því Dakota Indjánaþjóðin hafði reglulega sett þar upp tjaldbúðir á ferðum sínum um sléttuna. Nafnið á bænum er til heiðurs ríkisstjóranum William R. Marshall en hann var ríkisstjóri Minnesota frá 1866 til 1870. Bær þessi óx hratt og segir í dagblaði bæjarins, Prairie Schooner 25. október, 1873 að fyrsta húsið í bænum hefði risið í byrjun ársins en í októberbyrjun væri tala þeirra komin í 79 og væru það íbúðarhús. Í apríl, 1874 segir sama blað að fjöldi íbúa sé kominn í 300 en við þetta má bæta að aldamótaárið 1900 var íbúafjöldinn orðinn 2.088. Sumir Íslendingar, sem settust að í Lyon sýslu eftir 1875, leituðu eftir annars konar framtíð en landbúnaði og því kusu þeir að setjast að í bæjum og þorpum. Þar var hægt að fá verkamannavinnu, afgreiðslustörf o.fl. Íslenska samfélagið í bænum gerði sitt til að efla samstöðu og var einn liður vikulegar samkomur á heimili einhvers þeirra þar sem lesinn var húslestur. Báðir prestarnir í Nýja Íslandi þessa tíma, séra Jón Bjarnason og séra Páll Þorláksson, heimsóttu íslensku byggðina á árunum 1877-1878, komu til Marshall og sungu messur. Fyrirkomulagið hélst næstu árin en þegar íslenskir prestar heimsóttu byggðina þá nutu íbúar í Marshall góðs af. Það var svo árið 1890 að íslensk kirkja sá dagsins ljós og var svo vígð af séra Steingrími Níels Þorlákssyni 15. nóvember, 1891. Mikinn þátt í kirkjubyggingunni átti íslenska kvenfélagið í bænum sem lagði mikið á sig við fjáröflun. Sumarið 1892 var erfitt íbúum sléttunnar í sýslunum í suðvesturhorni Minnesota. Klukkan 8, sunnudagskvöldið, 8. ágúst skall á ofsaveður, stormur með dimmum hagléljum. Eyðilegging á ökrum bænda var gríðarlega, sumir misstu alla uppskeru. En vont versnaði þegar leið á nóttina og í það sinn varð bærinn Marshall harðast úti. Eyðileggingin á íbúðarhúsum, verslunum og skrifstofubyggingum var óskapleg og íslenska kirkjan kubbaðist í sundur og nánast hvarf í veðrinu. Kirkjan var endurreist á sama stað ári seinna en á árunum 1910-1911 hafði sóknarbörnum fækkað mjög í bænum og var þá tekin ákvörðun að legga söfnuðinn niður.