Shawano

Vesturfarar

Kortið sýnir bæinn Shawano vestan við samnefnt vatn. Norðaustur af vatninu er lítið þorp, Underhill sem stendur við Ocontofljót. Annar bær, Pulcifer er nokkru sunnar, þar var pósthús Íslendinganna í nýlendunni. Hún var norður og vestur af Pulcifer.

Shawanosýsla:  Öldum saman nýttu frumbyggjaþjóðir ýmsa kosti svæðisins sem í dag er Shawano County. Um miðja 19. öld leita svo innflytjendur af ýmsum uppruna inn ásvæðið og stunduðu þar skógarhögg. Nafnið er úr frumbyggjamáli, sumir segja það úr máli Ojibwa og merki ,,suðrænn eða suður“ en sýslan er einmitt við syðstu mörk svæðis þessarar þjóðar. Einn höfðingi Menominee þjóðarinnar hét Sawanoh. Nafnið festist á vatninu og sýslunni en hún varð til árið 1853 og var stafsetningin þá Shawanaw County. Þessu var síðan breytt árið 1856 í núverandi nafn. Á þeim árum voru íbúar um 250 en árið 1870 hafði þeim fjölgað í rúm þrjú þúsund.

Stephan G. Stephansson og faðir hans tóku saman land. Myndin sýnir hluta þess. Mynd JÞ. Afbragðs lýsingu á landnámi í Shawano er að finna í bók Viðars Hreinssonar, Landneminn mikli

Íslenskt landnám: Páll Þorláksson (sjá hann) hafði tekið á móti hópi landa sinna í Quebec í Kanada árið 1873 og fór fyrir honum þaðan til Wisconsin. Hann hafði samið við norska bændur um að taka við íslenskum fjölskyldum og einstaklingum í vist einhvern tíma. Þetta gerði hann svo landar hans lærðu eitt og annað nauðsynlegt áður en þeir færu að nema lönd og hefja sjálfir búskap. Um vorið 1874 bar á nokkurri óþreyju hjá sumum þeirra, menn vildu ólmir fara að búa sjálfir og leituðu til Páls um lausn. Hann hafði verið í guðfræðinámi í St. Louis um veturinn en kom til Milwaukee þar sem bróðir hans Haraldur og faðir þeirra Þorlákur ákváðu að skoða lönd norðarlega í ríkinu. Þeir komu í Shawano og svipuðust þar um. Páll taldi nafn vatnsins merkja Ljósavatn, sem þeim þótti ekki verra enda allir úr Ljósavatnshreppi á Íslandi. Nafnið festist á byggð Íslendinga þar um slóðir. Páll leitað ráða hjá norskum og þýskum prestum en náin tengsl voru með norsku og þýsku kirkjufélögum í Bandaríkjunum. Á fundi með sýslunefnd í ágúst lánaðist Páli að fá það samþykkt að íslenskir innflytjendur sem setjast vildu að í sýslunni fengju lönd sín á hálfvirði. Ennfremur var samið um að einstaklingur mætti ekki nema meira land en 80 ekrur. Þá tókust samningar um aðgang að fremur lélegu, sendnu landi skyldi gefið Íslendingum til sauðfjárræktar en það þótti harla lélegt land til akuryrkju og því verðlítið.  Þegar samningar lágu fyrir þá fóru menn að tygja sig af stað úr ýmsum byggðum Norðmanna til fyrirheitna landsins í Shawanosýslu. Fjölskyldufeður kappkostuðu að nema land og reisa á því kofa en ungir menn og einhleypir leituðu í vinnu í sýslunni, margir við skógarhögg.

Söfnuður: Páll Þorláksson lauk guðfræðináminu í prestaskóla þýsku kirkjufélagsins Missouri Synod í St. Louis um vorið 1875 og var vígður prestur um sumarið og hóf störf við norska söfnuði í Shawano. Hann ákvað að stofna íslenskan söfnuð um haustið og hét hann ,,Hinn íslenzki lúterski Söfnuður í Shawano County,“    og voru 35 meðlimir skráðir við stofnun. (Sjá lista í Atvinna/Prestar og kirkjur) Þetta var fyrsti, íslenski söfnuðurinn stofnaður í Norður Ameríku.  Eitt fyrsta verk séra Páls í nýjum söfnuði var að skíra dóttur Haraldar bróður síns og konu hans, Maríu Stefaníu Sigurðardóttur, sem fæddist 21. september, 1875 og var hún fyrsta barnið sem fæddist í byggðinni íslensku í Shawanosýslu. Var henni gefið nafnið María Lovísa.