Muskoka

Vesturfarar

Muskokahérðið er litað.

Muskoka er hérað í Ontario í Kanada þar sem frumbyggjar höfðust við öldum saman. Héraðið var skógi vaxið með ótal stórum og smáum stöðuvötnum. Sannarlega ákjósanlegt svæði fyrir indjánaþjóðir sem lifðu nær eingöngu á veiðum. Nafnið er dregið af nafni eins höfðingja Ojibwa þjóðarinnar en sá hét Mesqua Ukie. Fljótlega eftir að Kanada varð til sem þjóðríki árið 1867 fór ríkisstjórn að huga að málefnum innflytjenda og fyrst og fremst skort af þeim. Bandaríkin réðu um þær mundir nánast öllum suðurhluta Norður Ameríku auk Alaska. Þangað lá þungur straumur innflytjenda víðs vegar að, einkum þó frá Evrópu. Til að freista innflytjenda voru sett sérstök innflytjendalög og ákvæði um ókeypis lönd og landnám litu dagsins ljós árið 1868. Fylkisstjórnin í Ontario nýtti sér þetta og reyndi að beina innflytjendum inn á Muskoka héraðið. Landnemi fékk ókeypis land svo framarlega sem hann hreinsaði 15 ekrur, um 6.1 hektara landsins og byggði á því 30 fermetra hús. Það voru einkum breskir og þýskir innflytjendur sem gáfu þessu gaum og settust að í Muskoka fyrir 1870. En landið sjálft reyndist illa fallið til akuryrkju, nógu erfitt var að hreina 15 ekrur, ekki aðeins tré, runna og rífa upp rætur heldur leyndist víða stórgrýti sem nánast útilokað var að losna við. Landnám í hefðbundnum skilningi þar sem akuryrkja og kvikfjárrækt átti að stunda gekk ekki upp og smám saman gáfust menn upp og sneru sér að skógarhöggi. Um 1870 lágu þangað hvorki járnbrautir né vegir, eina flutningaleiðin voru vötnin og árnar. Gufuskip og bátar gerðu skógarhögg að arðbærri atvinnugrein því auðvelt var að koma trjábolum í verð. Mikil eftispurn var í borgum og bæjum og jarnbrautarlagning vestur út á kanadísku sléttuna var að hefjast. Áætlanir yfirvalda með stórfellt landnám í Muskoka brugðust að mestu leyti og það er því undarlegt að kanadískir embættismenn hafi bent íslenskum innflytjendum á Muskoka árið 1873. Til að fá innflytjendur til að setjast að í Kanada samdi ríkisstjórnin við bresk skipafélög um að skuldbinda alla óákveðna vesturfara sem félögin fluttu vestur til að skrifa upp á skjal og samþykkja að þeir ætluðu að setjast að í Kanada. Þessu áttu íslenskir vesturfarar eftir að kynnast.

Íslendingarnir koma:  Páll Þorláksson sem vestur fór 1872 og settist að í Wisconsin varð nokkurs konar umboðsmaður þeirra landa sinna sem hug höfðu á landnámi í Bandaríkjunum. Honum bárust þær fregnir vorið 1873 að von væri á stórum hóp frá Íslandi þetta árið og hann beðinn um að aðstoða þá eftir bestu getu. Hann var þeirrar skoðunar að landar hans yrðu að tileinka sér ný vinnubrögð við landbúnað í Vesturheimi og besta leiðin væri að ráða sig í vist hjá heimamönnum. Hópurinn sem lagði af stað var innan við 200 manns, sumir höfðu ákveðið að setjast að í Ontario í Kanada en aðrir ætluðu suður til Wisconsin í Bandaríkjunum. Tók Páll á móti hópnum í Quebec seint í ágúst og lenti þá í nokkru stappi við kanadíska embættismenn sem sögðu allan hópinn hafa ákveðið að setjast að í Kanada. Páli tókst að sýna þeim fram á að farbréfin sem þeir sem ætluðu með honum suður til Wisconsin giltu til Milwaukee, hefðu þannig verið borguð á Akureyri. Saman stigu allir ferðalangar um borð í lest sem skilaði hópnum til Toronto. Þar urðu þeir eftir sem ætluðu að setjast að í Muskoka en hinir héldu áfram með Páli til Wisconsin. Fólkið, sem eftir varð, fékk húsnæði og mat til þriggja daga en síðan var öllum smalað í lest sem flutti hópinn norður eins langt og brautin náði. Þá var öllum komið fyrir á hestvögnum sem flutti hópinn til þorpsins Gravenhurst. Gisti hópurinn þar eina nótt en daginn eftir var farið með fólkið á gufubáti yfir vatnið til þorpsins Rosseau.

Kortið sýnir Muskokasýslu. Bærinn Gravenhurst er syðst í sýslunni en íslenska byggðin í norðurhluta hennar.

Landaleit: Íslendingarnir komust fljótt að því að öll lönd nærri Rosseau þorpinu voru frátekin svo ekki var um annað að ræða en kanna svæði lengra frá þorpinu. Eitt slíkt var um 25 km frá Rosseau og buðust Ólafur Ólafsson, Friðjón Friðriksson og Þorlákur Pétursson til að kanna það. Sneru þeir til baka að loknum þriggja daga leiðangri án þess að finna svæði sem þeim þótti henta Íslendingum. Það verður að teljast líklegt að þeir hafi frekar leitað eftir góðum engjum og graslendi þar sem hægt væri að heyja, þekking þeirra á akuryrkju var ekki mikil. Það kom nefnilega á daginn að ekki liðu mörg ár þar til norskir, sænskir og danskir landnemar höfðu numið þar öll lönd og stunduðu blómlega akuryrkju. Umboðsmaður stjórnvalda gafst ekki upp og benti á annað svæði öllu nær þorpinu, upp með svonefndri Rosseauá. Umrætt svæði var í Cardwell hreppi og fékk íslenska sveitin þar samnefnt nafn og var kölluð íslenska byggðin í Cardwell.  Enn voru menn kallaðir til skoðunarferðar og í þessa buðust þeir Baldvin Helgason, Davíð Davíðsson, Anton Kristjánsson og Jón Hjálmarsson. Með þeim í för fór kanadískur leiðsögumaður og þótti það mikill kostur því leiðangursmenn urðu að fara í gegnum mikinn skóg. Þegar á svæðið kom þá leist þeim bærilega á landið því víða voru allgóð engjadrög, sem reyndar voru engin happafengur því tíð flóð, vor og haust, gerði bændum erfitt fyrir. En ef stjórnvöld stæðu við loforð um að vegur yrði lagður frá Rosseau, gegnum Cardwell hrepp í norður þá gæti hér orðið blómleg sveit. Leiðangursmenn sneru aftur til Rosseau með tíðindin og var nú nokkur eftirvænting í hópnum á meðan beðið var svars. Það kom og var vegagerðin samþykkt. Það varð til þess að nokkrir festu sér jarðir í Cardwell en fleiri treystu sér ekki til þess vegna fátæktar. Það var nokkuð liðið á september, enn var þó veður gott og því fluttu tveir landnemar, þeir Baldvin Helgason og Davíð Davíðsson út í nýlenduna en þeir höfðu keypt saman 200 ekrur af landnema innlendum með bjálkakofa sem fylgdi. Kanadamaðurinn var orðinn þreyttur á baslinu og vildi vestur á slétturnar þar sem jörð væri auðunnarri. Baldvin og Davíð keyptu fáeina nautgripi sem þeir komu út á landið með miklum erfiðleikum. Þeir gátu heyjað nokkuð áður en vetur gekk í garð. Aðrir í Rosseau fengu vinnu við skógarhögg, illa launað og erfitt. Smám saman fækkaði í hópnum í Rosseau, sumir ákváðu að freista gæfunnar í Wisconsin og fóru þangað, aðrir reyndu fyrir sér í nærliggjandi bæjum m.a. Parry Sound. Þeir sem ákveðnir voru biðu styrks frá stjórnvöldum svo vegalagning gæti hafist.

Skógarhögg í Muskoka árið 1873

Landnám: Baldvin Helgason og Davíð Davíðsson, fyrstu landeigendur í byggðinni sóttu fjölskyldur sínar til Rosseau og fóru konur og börn, samtals níu saman, fótgangandi yfir klappir og gegnum skóginn ,,en víðast hvar voru þó fremur litlar tálmanir í skóginum, því ekkert kjarr óx þar og enginn gróður náði að festa rætur milli trjájötnanna, sem stóðu svo þétt saman, að enginn sólargeisli komst í gegn um hinar miklu krónur þeirra niður til moldarinnar, að verma hana lífsmagni sínu.“ (SÍV2 bls. 202-3). Búslóðir fluttu þeir á báti upp eftir ánni eins langt og þeir komust en víða urðu þeir að drösla bæði búslóð og báti í land vegna flúða og fossa. Þröngt var í húsinu yfir veturinn þar sem sjö börn og fjórir fullorðnir bjuggu. Þetta voru þó ekki einu Íslendingarnir í byggðinni þennan vetur því þeir Jakob Líndal og Bjarni Snæbjörnsson, tveir einhleypingar úr Húnavatnssýslu byggðu sér þar kofa og bjuggu í honum yfir vesturinn. Um veturinn unnu menn að vegagerðinni, karlmennirnir fjórir í byggðinni hjuggu skóginn í suður til móts við landa sem að sunnan unnu. Þessi vinna var mörgum um megn, einkum misstu þeir áhugann sem ekki höfðu fest sér jarðir í byggðinni. Fanst þeim þeir hafa lítið í aðra hönd þrátt fyrir mikla vinnu og þegar fregnir bárust frá öðrum stöðum hurfu menn frá Rosseau. Þegar langt var liðið á veturinn voru aðeins hálfbræðurnir Anton Kristjánsson og Brynjólfur Jónsson frá Arnarvatni og Flóvent Jónsson frá Skriðulandi eftir í bænum. Aðrir sem kusu að halda áfram fóru að vinna á sínum löndum í byggðinni, höggva skóg og hreinsa landið. Þorsteinn Þ. Þorsteinsson skrifar lýsingu á landinu og segir:,, Hérað það, sem Íslendingar voru komnir til, var flatt með smáum öldum. Ekkert fjall sýnilegt, en landið þakið þykkum skógi, sem ekki sást út úr, og varla upp í heiðan himininn, nema þar sem rjóður voru í deiglendinu, með háu grasi, sem náði manni oft undir hönd. Hefðu Íslendingar kosið. að þau væru fleiri og stærri, því í drögum þessum gat nýbýlingurinn heyjað handa kú sinni, á meðan ekkert var ræktað af landinu, þótt ekki þættu þau eftirsóknarverð þegar fram í sótti, því þau reyndust oftast of raklend til akuryrkju.“ (SÍV2 bls.205-6). Um vorið (1874) kom Sigtryggur Jónasson í heimsókn og fór víða þar sem landar hans höfðu komið sér fyrir. Hann tjáði mönnum að hann væri að leita landa fyrir allstóran hóp sem von væri frá Íslandi seinni part sumars. Hvergi fann hann þar ákjósanlegt svæði og leitaði annað. Lofaði hann þó að vera í sambandi varðandi myndun nýrrar, íslenskrar byggðar í Ontario þegar afráðið væri hvar hún yrði. Hópurinn sem Sigtryggur átti von á kom til Ontario síðla sumars og fór hann með hópinn til Kinmount en sá valkostur var engu betri en Cardwell hreppur í Muskoka. Sú saga er sögð á öðrum stað. Tveir einstaklingar úr hópi Sigtryggs skildu við þann hóp og fóri í Cardell hrepp. Þetta voru þeir Bæring Hallgrímsson, bróðir Þorsteins í Cardwell og Árni Jónsson systur sonur Baldvins Helgasonar. Sá dvaldi reyndar ekki lengi vestra því eftir að hann hafði búið hjá Baldvin í þrjú ár fluttihann til baka til Íslands.

Kirkjan í Cardwell hreepi var þarna reist árið 1896 Mynd JÞ

Mannlíf: Íslendingarnir sem settust að í byggðinni gerðu sér far um að byggja upp íslenskt samfélag og þar sem íslenska sveitin var flestum efst í huga þarna í Cardwell hreppi þá byggðist mannlíf allt á siðum og venjum að heiman. Helga Baldvinsdóttir skáldkona var 14 ára þegar hún fór vestur með foreldrum sínum, Baldvini Helgasyni og Soffíu Jósafatsdóttur, rifjaði upp upphafsárin í íslensku byggðinni í Muskoka í ritgerð sem hún skrifaði árið 1940 og ÞÞÞ nýtir sér í frásögn sinni í SÍV2 um fyrstu íslensku byggðina í Kanada. Helga skrifar :,,Oft hefi eg séð það útmálað í bókum og blöðum, hvað hóparnir að heiman hafi átt örðugt uppdráttar fyrsta sprettinn eftir að þeir komu vestur. Flestir þeirra áttu þó oftast einhverjum vinum að mæta, sem á undan voru komnir, nema við, fyrsti hópurinn, sem fór til Canada. Ómögulegt er að lýsa því hvað margar og miklar þrautir mættu okkur fyrsta áfangann, og hversu óendanlega þákklát við hefðum verið, ef einhver hefði getað leiðbeint okkur.“  Faðir Helgu varð nokkurs konar leiðtogi fólksins í upphafi. Hann nefndi bæ sinn Baldurshaga og hvatti alla til að velja íslensk bæjarnöfn á sína. Davíð Davíðsson kallaði sinn bæ Lund, Jakob Líndal bjó í Fagrahvammi,  Bjarni Sveinbjörnsson var bóndi á Bjarnastöðum, Þorsteinn Hallgrímsson í Laufási og Brynjólfur Jónsson í Hlíð svo dæmi séu tekin. Menn áttuði sig fljótlega áþví eftir fyrstu árin að byggðin íslenska í Cardwell hreppi yrði aldrei stór, myndun safnaðar var t.d. lítið eða ekkert rætt heldur tók Baldvin Helgason að almenn prestverk, skírði börn og jarðsöng þá látna. Þá annaðist hann húslestra og sálmasöng á Baldurshaga á sunnudögum en þar komu saman allir sem gátu úr sveitinni og aðrir Íslendingar sem bjuggu ekki langt frá. Vera má að dvöl hans á Melstað í Hrútafirði hjá séra Ólafi Pálssyni presti þar hafi gagnast honum við þessi verk. Íslendingar nutu þess að fólk af ólíkum uppruna settist að í nágrenninu, m.a.írskur maður með sína konu og börn nærri Baldurshaga sem kenndi Íslendingum margt. Lærði Soffía, kona Baldvins t.d. að gróðursetja í matjurtagarð, skera sundur kartöflur til útsæðis og vinna lög úr trjám sem sjóða mátti og breyta honum í sykur eða sýróp. Þá lærði Helga, dóttir Baldvins, af írsku húsmóðurinni að flétta stráhatta úr hálmstráum hveitis og hafra sem voru fisléttir og góð vörn í sólarhitanum og gegn bitvargnum þegar rökkva tók. Þá lærði helga sömuleiðis að búa til sápu úr öskulegi og fituafgangi. Með þessa þekkingu fór Helga með foreldrum sínum vestur til N. Dakota árið 1880, alfarin úr Cardwell hreppi. Bróðir hennar, Ásgeir, var sá eini sem sneri aftur til Muskaka frá N. Dakota en það mun hafa verið árið 1886. Hann sá fljótlega að margt mætti bæta og sótti t.a.m. um leyfi til að reka pósthús sem Hekla skyldi heita. Það var samþykkt með einni alvarlegri breytingu, nafnið Hekla var stafsett með tveimur k og þrátt fyrir mikil mótmæli og óskum um lagfæringu fékkst það aldrei lagfært. Það skýrir nafnið Hekkla sem íslenska byggðin er nú almennt kölluð!

 

Minnisvarðinn í kirkjugarðinum í íslensku byggðinni. Mynd JÞ