Öldin

Vesturfarar

Jón Ólafsson

Jón Ólafsson fór í annað sinn vestur um haf árið 1900 og nú til Winnipeg. Enn og aftur urðu skrif hans í blöð á Íslandi honum að falli. Í þetta sinn var það bæklingurinn ,,Eitt orð af viti um Vesturfarir“ sem gefinn var út í Reykjavík árið 1888. Jón lenti í málaferlum og var sektaður vegna sinna skrifa en vini átti hann í Vesturheimi því honum voru sendir $300.00 að gjöf og honum boðin staða aðstoðarritstjóra Lögbergs. Jón kom til Winnipeg 20. apríl, 1890 og hóf störf við blaðið. Hann varð aðalritstjóri blaðsins í stuttan tíma, átti ekki samleið með stofnendum og hætti störfum. Hann var ekki af baki dottinn, stofnaði annað blað ,,Öldina“ og kom fyrsta tölublað þess út 7. október, 1891 og þar útskýrði Jón tilganginn með útgáfunni. Tryggvi Oleson skrifar um blaðið og segir:,, Þykir hlýða að taka hér upp nokkrar setningar úr þeirri grein, því þær lýsa Jóni vel á þessum árum. ,, Hvað vill Öldin? Hvað er hún að erinda?…Hún vill þá fyrst og fremst sem fréttablað vera áreiðanlegt blað. …Þar næst vill Öldin reyna að segja almenn tíðindi skynsamlega… Að því er hérlenda pólitík snertir, þá er það ekkert launungamál, að ritstjóri þessa blaðs ann sem ýtrustu viðskiftafrelsi og sjálfsforræði inna sérstöku landshluta gagnvart öllu sambandsvaldi; og hann getr með engu móti haft tvær sannfæringar um sama hlutinn, aðra fyrir norðan, en hina fyrir sunnan landamærin. Hins vegar ætlar öldin sér ekki þá dul, að teyma landa sína til atkvæða af tómu flokksfylgi. En hún hyggr, að in beztu hérlend blöð muni bezt fær um að skýra skoðanir flokkanna, og hún vill reyna að gefa af og til ágrip af ýmsu því helzta, er blöðin hér af báðum flokkum færa til röksemda fyrir málstað sinn…Öldin er ekki trúarflokksblað. En hún mun gefa gætr að því sem gerist í kyrkjulífinu, og án nokkurs tillits til trúarskoðana berjast á móti öllum tilraunum til að innræta mönnum trúarofstæki, og rækilega setja allar tilraunir til trúarofsókna, sem hún verðr vör við, í gapastokkinn.“  (SÍV5 bls.9) Þessi skrif Jóns draga upp ágæta mynd af íslenska samfélaginu í Winnipeg um 1890. Það er greinilega klofið í stjórn- og trúmálum. Þá er annað afar athyglisvert dregið fram; Jón talar um tvær sannfæringar, aðra í Kanada (,,fyrir norðan“) og hina í Bandaríkjunum (,,fyrir sunnan“). Það var sérstakt að Lögberg fylgdi frjálslyndum í Kanada og íhaldsömum (Republican) í Bandaríkjunum. Á sama hátt var Heimskringla blað íhaldsmanna í Kanada en frjálslyndra (Demokrata) í Bandaríkjunum. Þá fór að örla á annars konar klofningi því Íslendingar í Kanada tóku undir með öðrum íbúum landsins þegar ágreiningur reis milli landanna tveggja. Sterkar taugar til nýs heimalands réði nú ferðinni, ekki íslenskur uppruni! Klofningurinn í Winnipeg náði líka til álfunnar allrar, brestir voru að koma í ljós í samskiptum kanadíska og bandarískra Íslendinga. Þegar árin liðu varð þessi þjóðerniskennd sterkari og bilið breikkaði. Í dag starfa t.d. tvö Þjóðræknisfélög í Norður Ameríku, hið eldra kanadískt en yngra er bandarískt.                                                                                                                                                                                                                                          Þetta metnaðarfulla blað Jóns átti erfitt uppdráttar þrátt fyrir að hann fylgdi þessari ritstjórnarstefnu, sennilega hefur hún ekki gengið í landa hans. Hann kom út 21 tölublaði, það síðasta sá dagsins ljós 24. febrúar, 1892 og var ákveðið með stjórnendum Heimskringlu að hún og Öldin skyldu sameinuð í eitt blað og kom fyrsta tölublað nýrrar Heimskringlu út 2. mars, 1902 og ritstýrði Jón. Hann var ritstjóri til ársins 24. mars, 1894. Öldin lifði áfram í öðru broti, kom út mánaðarlega árin 1893-1896. Jón Ólafsson ritstýrði fyrsta árgangi en Eggert Jóhannsson hinna. Ritinu var vel tekið, þótti vel skrifað, birti fræðandi greinar um ólík málefni, þýðingar og ljóð.