Baldvin L Baldvinsson var ritstjóri Heimskringlu frá 13. október, 1898 til 24. apríl, 1913. Um hann sem ritstjóra var þetta skrifað:,, Vafalaust má telja Baldvin L Baldvinsson einn merkasta ritstjóra Heimskringlu. Þegar hann tók við blaðinu, stóð það á mjög höllum fæti. Það var happ fyrir blaðið, að Baldvin var eins afkastamikill og raun varð á og hann lagði alla krafta sína fram til þess að gera blaðið sem bezt úr garði og fjárhagslega sjálfstætt. Þegar hann fór frá Heimskringlu, stóð hún á föstum fótum og sú leið mörkuð, er hún hefur síðan farið….Þótt hann teldi, að trúmál ,,ættu sízt að ræðast í fréttablöðum landsins“ , lenti hann sjálur í illdeilum um þau við lúterska menn, (m.a. séra Jón Bjarnason innsk. JÞ) og stóð blaðið á öndverðum meiði við þá; hann var manna fúsastur sð leyfa öllum aðgang að blaðinu og skirrðist ekki við að prenta skammir um það og sig sjálfan; hann vildi, að Íslendingar tækju virkan þátt í hérlendu þjóðlífi og Heimskringla styddi að því – hún ætti að ræða ,,öll stjórnmál, fjárhagsmál, landbúnaðarmál, samgöngumál og öll þau önnur mál, sem varða hagsmuni, heill og þroskun þjóðfélagsins.“ Hann var mjög mótfallinn þeim hugunarhætti, sem vildi slá svo ,,þéttri skjaldborg utan um íslenzkt þjóðerni, að enskur smáormur gæti ekki skriðið þar inn, hvað þá annað stærra.“ Með því móti væri hamlað gegn myndun canadisks þjóðernis, en myndun þess hugði hann eiga að vera aðaltilgang hinna mörgu þjóðflokka, er byggja þetta land. Hefur Baldvin því af sumum verið talinn óþjóðrækinn í garð Íslendinga. Þó mun það varla rétt ályktun. Hann vildi ekki glata íslenzkunni, en hann vildi fyrst og fremst skapa Íslendingunum hér skilyrði til þess að geta sem bezt notið sín hér og orðið þarfir þjóðfélagsþegnar. Hann hefur sjálfur bezt lýst þessari hugmynd: ,,Það er alls ekkert unnið með slíkri einangrun fólki voru til hagsældar; en svo miklu tapað, að sem þjóðflokkur fengjum vér ekki undir risið tjóninu – mentalegu, efnalegu, álitlegu -, sem vér myndum bíða við það.Framtíðartakmark það, sem vér höfum verið að reyna að stefna að í síðastliðin 40 ár hér vestra, að vera áhrifamikill hluti þess þjóðfélags, er vér dveljum með, – mundi þá algerlega glatast sjónum vorum og vér engan veginn ná því marki.“ (SÍV5 bls. 16-17)