Byggingarær

Jón Hjaltason

Byggingarær er hugtak sem ég rakst á fyrir ekki margt löngu og fékk engan botn í, svo það sé nú viðurkennt. Ég fór að grufla og leita og komst að því mér til nokkurs hugarléttis – lítið dregur jú vesælan – að óvíða er getið byggingaráa svo að mér reyndist fullerfitt að finna skýringu. Hún kom þó að lokum og er þessi:

Byggingarær stóðu ekki í neinu sambandi við leigujörð líkt og kúgildin sem voru eign leigusalans og varð ekki hnikað af jörðinni án hans samþykkis. Byggingarám mátti hins vegar skila eigendum sínum eftir því sem um samdist og skipti engu hvort leigjandi þeirra sat sömu jörðina lengur eða skemur eða var yfir höfuð bóndi. Þó má gera ráð fyrir að enginn hafi látið frá sér sauðfé nema gegn loforði leigutaka – hver sem hann var; bóndi, húsmaður eða annað – um að hann gæti tryggt viðunandi fóður handa skepnunum.