Það kom ekki allsjaldan fyrir á 19. öld að sýslumaður varð að skerast í leikinn þegar vafi lék á um faðerni hvítvoðungs. Manna á milli var þá talað um að sverja barnið upp á þennan eða hinn. Þannig var talsmátinn á þar síðustu öld. Villandi? Já, mjög.
Þegar til kastanna kom var ekki var spurt um skoðun þeirra sem í hlut áttu, enginn sór barn upp á annan. Það var hins vegar grafist fyrir um staðreyndir. Höfðu kynmök átt sér stað er féllu að fæðingarstund barnsins sem deilt var um?
Eiðurinn var karlsins og studdist við 13. kafla Norsku laga sem fjallaði um saurlifnað en þar er í tveimur greinum – lesa þarf 4. og 5. grein saman samhengis vegna – rætt um karl sem með óheiðarlegum hætti „liggur hjá“ konu. Þræti hann fyrir athæfið og svo fremi að konan hafi engar sannanir fyrir máli sínu þá er karlinum heimilt að staðfesta orð sín með eiði. Þar með voru vopnin slegin úr höndum konunnar – eða hvað?
Við verðum að hafa hugfast að eiður var ekkert sem 19. aldar maðurinn hafði í flimtingum. Rifjum upp söguna sem Bjarni Thorarensen amtmaður sagði Skúla bróður sínum vorið 1835.
Smiðurinn Baldvin Hinriksson á Akureyri fékk í heimsókn ónefnda konu.
– Hún staldraði ekki nema tvo tíma í húsi hans og því vildi hann ekki gangast við barni konunnar, skrifaði Bjarni.
Nokkru síðar dreymdi Baldvin að andskotinn sækti hann heim og hafði sá illi engar vöflur á en rak fjóra skrúfnagla í munn hins sofandi manns.
Morguninn eftir var Baldvini óneitanlega brugðið og ekki rofaði til þegar einhver benti honum á að draumurinn merkti að nú hygðist hann sverja rangan eið – „og hefir hann svo leyft Stelpunni að sverja barnid uppá sig“, endaði Bjarni amtmaður frásögnina af hremmingum Baldvins smiðs á Akureyri.
Þá var ekki heiglum hent að sitja undir áminningarræðunni sem dómarinn flutti yfir þeim sem hugðist leggja eið að framburði sínum.
Svardaginn var helgasta innsigli þess að eiðmaðurinn bæri sannleikanum vitni í einu og öllu. Og ekki aðeins fyrir hinum jarðbundna dómstóli heldur líka Drottni hinum alskyggna sem sér inn í hugskot manna. Og viðurlögin við röngum eiði voru yfirþyrmandi; úthýsing úr samfélagi kristinna á jörðu og guðsríki á himnum.
Meinsærismaður á sér ekki viðreisnarvon, ítrekaði dómarinn við konuna Ingibjörgu Sigurðardóttur, hvorki hérna megin grafar né í öðru lífi, „flutníngur náðarboðskapar drottins Jesu Krists er honum til engrar huggunar, syndir hans verða honum eigi fyrirgefnar, og hann á þess enga von, að rísa upp til þeirrar sælu, sem er fyrirhuguð kristnum mönnum, þeim er sanntrúaðir eru.“
Tíðarandinn kvað á um trú og guðsótta. Hvert bein í líkamanum, hjarta og sál, hlaut því að hrópa gegn fölskum svardaga eða hver vildi líða þær eilífu helvítis píslir sem fjallað er um í Vídalínspostillu Jóns Þorkelssonar sem var metsölubók á Íslandi í hundrað og fimmtíu ár?
Þannig hugsaði konan Sigurbjörg Kristjánsdóttir sig tvisvar um þegar henni var boðinn svardagi. Hún hafði þá nýlega eignast barn en áhöld voru um faðernið. Og svo einkennilega sem það kann að hljóma þá voru tildrög getnaðarins líka óljós. Konan hafði verið í Skjaldarvík (Eyjafirði) seint um haust. Þar var líka Árni Helgason til sjóróðra og svaf á flatsæng fyrir framan Sigurbjörgu. Svo var það nótt eina að hún vaknaði við að einhver skreið upp í rúmið til hennar og hafði við hana samræði.
– Þetta var Árni, fullyrti Sigurbjörg og hafði þá fætt stúlkubarn.
Árni stóð hins vegar á því fastar en fótunum að hann hefði aldrei sængað með Sigurbjörgu.
– Og ég reiðubúinn að leggja að því eið, sagði hann Stefáni Thorarensen sýslumanni.
Þegar sýslumaður gekk á konuna viðurkenndi hún að hafa aldrei séð manninn sem átti með hana. Það var mið nótt og svarta myrkur. Hann hafði heldur ekki gefið frá sér neitt hljóð.
– En ég veit að þetta var Árni, staðhæfði Sigurbjörg ítrekað sem kom fyrir lítið þegar Árni hikaði ekki við að sverja af sér holdlegt samræði við hana á þeim tíma sem barnið kom undir.
Sigurbjörg var þó ekki af baki dottin. Næst nefndi hún Jónas Jónathansson hreppstjóra sem föður að barni sínu.
Jónas viðurkenndi að vísu „samlag með stúlkunni“ en aðeins einu sinni. Og þar sem honum var ekki grunlaust um að fleiri hefðu notið hlýju Sigurbjargar óskaði hann eftir því við dómarann að hún legði eið fyrir samræði við aðra en hann á þeim tíma er barnið kom undir.
Við þetta óvænta mótspil hreppstjórans kom hik Sigurbjörgu. Hún þekkti ekki lögin og vissi ekki að forveri Stefáns sýslumanns í embætti, Eggert Briem, stóð á því fastar en fótunum að Norsku lög bönnuðu slíka lagakróka sem Jónas hreppstjóri setti á Sigurbjörgu með því að víkja eiðinum af sér yfir á hana. Í nóvember 1858 hafði Briem fengið sambærilegt mál inn á borð til sín. Konan Rósa Jónsdóttir í Kristnesi kenndi einum og síðan öðrum stúlkubarn sem hún hafði fætt fáeinum mánuðum fyrr. Seinni karlinn, Halldór Guðmundsson bóndi á Þverá, harðneitaði að eiga stúlkuna en bauð Rósu að sverja það upp á sig. Því hafnaði Rósa og „krafðist þess dóms, að hann skyldi álítast faðir að barninu nema hann synjaði þess með eiði.“
Þetta gat Halldór ekki fallist á og kom í hlut Eggerts Briem að höggva á hnútinn. Og hann var ekki í nokkrum vafa. Ef kona kenndi karli barn og vafi lék á faðerninu var það karlsins að synja fyrir barnið með heilögum eiðstaf. Ef hann hins vegar ekki treysti sér til að eiðfesta neitunina stóðu orð konunnar.
Briem hefði því sagt um málarekstur Sigurbjargar: – Ef Jónas fer ekki sjálfur með eiðstafinn er barnið hans, slík eru lögin að sú skylda verður aldrei lögð á móðurina.
Stefán Thorarensen var annarrar skoðunar.