Prestar voru í áhættuhóp

Jón Hjaltason

Ekki er ofsögum sagt að prestar á 19. öld voru límið í samfélaginu. Þeir voru fyrir sveitirnar eins og heilagur andi í sakramentinu, undir, yfir og allt í kring. Fyrir utan venjulegar kirkjuathafnir höfðu þeir almennt eftirlit með sóknarbörnum sínum, hvort þau væru skikkanleg, hvort húsbændur ræktuðu kristilegt hugarfar meðal barna sinna og hjúa, hvort heimilin skorti guðræknisbækur, þeir litu eftir uppeldi barna, hvort yfirsetukonur væru skikkanlegar og það var í verkahring presta að segja mönnum til syndanna þegar út af bar.

Öll hin venjulegu prestsverk, svo sem að skíra, ferma, gifta og jarðsyngja, varð að færa í bækur – ministerialbækur eða prestsþjónustubækur – en þar með var ekki öll sagan sögð. Prestum var líka gert að fylgjast með og skrá árlega alla nýja íbúa í sókninni og eins þá sem á brott fóru. Á hverju ári tóku þeir sóknarmanntal. Heimsóttu sem sagt öll heimili í sókninni og skráðu í sálnaregistursbók heimilismenn, stöðu þeirra í samfélaginu, aldur, lestrarkunnáttu og hvernig gengi með biblíulærdóminn – oft var þó látið nægja að tiltaka hvort viðkomandi væri fermdur eða ekki.

Og það var eins gott fyrir prestana að vera vel með á nótunum þegar kom að því að gefa saman karl og konu. Afleiðingarnar af því að gefa saman pör í ónáð löggjafans gátu orðið miklar. Tökum dæmi úr Eyjafirði.

Haustið 1873 gaf presturinn á Grund í Eyjafirði, séra Sigurgeir Jakobsson, saman í hjónaband ekkjuna á Stekkjarflötum í Saurbæjarhreppi, Guðlaugu Gísladóttur, og ekkilinn Ingjald Halldórsson. Þetta hugnaðist hreppstjóranum Sigfúsi Bergmann í Arnarneshreppi ekki og þegar sáttatilraunir runnu út í sandinn kærði hann prest fyrir ólöglega giftingu. Skal ekki fjölyrt frekar um allt málavafstrið en augljóslega voru yfirvöld í Saurbæjarhreppi grunuð um græsku. Guðlaug var í skuld við hreppinn en Ingjaldur átti sveitfesti í Arnarneshreppi.

Hér var því mögulega um „hrekkjagiftingu“ að ræða.

Þessu mótmælti presturinn en allt kom fyrir ekki. Dómarinn var ekki í vafa: Séra Sigurgeir hafði viðurkennt að honum var ljós erfið staða ekkjunnar, að hún „hafði árlega þegið sveitarstyrk og var í mikilli hreppsskuld“. Engu að síður hafði hann vanrækt að fá samþykki hreppstjórans í Arnarneshreppi fyrir giftingunni en látið duga vafasamt vottorð hreppstjórans í Saurbæjarhreppi um að skuld konunnar við hreppinn væri eftirgefin. Fleira flækti málið en dómarinn greindi hismið frá kjarnanum og dæmdi prestinn til að greiða fátækrasjóði Arnarneshrepps það sem hreppurinn hafði neyðst til að leggja með hjónunum strax þetta eina ár sem þau höfðu verið gift. Og ekki nóg með það, séra Sigurgeir skyldi eftirleiðis sjá þeim farborða ef þau þyrftu á fátækrahjálp að halda.

Þannig var eins gott fyrir presta 19. aldar að rasa ekki um ráð fram þegar þeir voru beðnir að framkvæma hjónavígslur. Séra Þórður Jónassen á Hofi í Möðruvallaklausturssókn hafði þetta á bak við eyrað þegar vinnumaður á Kamphóli, Jón Sigurðsson, færði í tal við hann að sig langaði til að ganga í hjónaband og að konan sem hann hefði augastað á væri sama sinnis.

Séra Þórður færðist undan að gifta parið.

– Þið eruð fátæk, ég vil ekki vígja saman svona snauðar manneskjur eins og þið eruð, svaraði prestur.

Skömmu seinna frétti klerkur að Jón vinnumaður væri búinn að útvega sér svaramenn og greip þá annað hálmstrá. Sá kvittur hafði komist á kreik að Jón væri holdsveikur. Og nú fann presturinn stein að standa á.

– Ég gifti ykkur ekki nema þú útvegir þér læknisattest um að þú sért heilbrigður, tilkynnti hann Jóni.

Þar með var allur vindur úr hinum vonglaða brúðguma og heyrði prestur ekki frá honum framar. Fáeinum árum síðar var Jón enn á biðilsbuxum. Að þessu sinni gekk honum allt í haginn. Séra Jón B. Thorarensen, á Tjörn í Svarfaðardal, gifti en mátti fljótlega sæta yfirheyrslum fyrir að hafa vígt limafallssjúkan mann í hjónaband. Hann komst að vísu klakklaust frá rekistefnunni. Þó ekki fyrr en eftir vitnaleiðslur og ítarlega skoðun sem Jón Sigurðsson varð að sætta sig við. Engin merki um hinn skelfilega sjúkdóm fundust á líkama vinnumannsins, hvað þá að útlit hans væri þannig „að nokkrum manni geti dottið í hug að hann hafi holdsveiki“, var niðurstaða Stefáns Thorarensen sýslumanns í Eyjafirði.