Sáttanefndir, til að spara fé og fyrirhöfn

Jón Hjaltason

Sáttanefndir voru merkilegt fyrirbæri í samfélagi 19. aldar og er vert að gefa þeim nokkurn gaum.

Danskir stjórnarherrar leituðu leiða til að einfalda réttarkerfið og gera það ódýrara fyrir almenning. Þetta var kveikjan og „landsföðurlegt augnamið“ Kristjáns sjöunda sem leiddi til stofnunar sáttanefnda hvarvetna í ríki hans. Í júlí 1795 undirritaði konungur ítarlegan lagabálk í fimm köflum og fimmtíu og níu liðum þar sem útlistað var hvernig standa ætti að stofnun sáttanefnda, starfssvið þeirra og hagræði fyrir þegna konungs.

Áskilið var að öll deilumál – með örfáum undantekningum þó sem tíundaðar eru í lögunum – skyldu fyrst koma fyrir sáttanefnd. Engar vitnaleiðslur voru fyrir nefndinni. Þar mættu deiluaðilar einir, ágreiningsefni voru rædd fyrir luktum dyrum og allt bókhald um gang viðræðna stranglega bannað nema hvað niðurstaða sáttaumleitana var skjalfærð Með öðrum orðum, það sem talað var á sáttanefndarfundum skyldi aldrei koma í bakið á deilendum ef svo færi að sáttanefndarmönnum tækist ekki að tjónka við þá og dómstólaleiðin blasti við. Þannig átti hver og einn að geta rætt opinskátt og frjálst sem löggjafinn sagði forsendu þess að sáttanefndir kæmu að tilætluðum notum.

Það átti líka að hraða málum. Kæmi upp misklíðarefni í kaupstað fékk nefndin sjö daga til að útkljá það, annars þrettán; „inden 8 Dage“ og „inden 14 Dage“, sagði í lögunum.

Nefndarmenn þáðu laun sín frá deiluaðilum, þó aðeins ef þeim tókst að koma á sáttum, annars fengu þeir ekkert greitt fyrir ómak sitt.

Eitthvað vafðist stofnun sáttanefnda fyrir ráðamönnum heima á Íslandi. Meðal annars var spurt hvort sýslumenn mættu taka sæti í slíkum nefndum sem ekki kemur á óvart þegar haft er í huga að sýslumenn voru í senn lögreglustjórar og dómarar. Það var því ekki fyrr en í ágúst 1798 að tekið var af skarið um þetta vafaatriði.

– Jú, þeir mega það, tilkynntu danskir stjórnarherrar og bættu við: – Það leikur heldur enginn vafi á því að í sáttanefndum eiga sómakærir og raungóðir prestar heima, auk þess sem þar eiga alltaf að vera hinir fremstu og virtustu góðbændur.