Tukthús og böðlar

Jón Hjaltason

Tukthúsið í Búðargili á Akureyri snýr sex rúðu glugga upp gilið. Neðan undir glugganum er fangagarður og há plankagirðing umhverfis.

Árið 1874 var byggt tukthús á Akureyri og var nokkurs konar ríkisfangelsi. Það var í umsjá sýslumanns og átti að taka við brotamönnum úr þremur sýslum Norðanlands; Húnavatns, Skagafjarðar og Eyjafjarðar. Meginmarkmiðið með byggingu þess var þó ekki fyrst og fremst að verja þegnana fyrir ágangi glæpahyskis heldur að tryggja mannréttindi hinna dæmdu. Og var ekki í lítið ráðist.

Fangelsin voru mannúðlegri

Fangelsið á Akureyri var eitt sjö slíkra sem Kristján IX fyrirskipaði að reist skyldu á Íslandi og höfuðmarkmiðið? Jú, að útrýma flengingum sem íslenskir þingmenn jafnt og danskir ráðamenn voru sammála um að væru með öllu óhafandi í siðuðu samfélagi. Það kom þó ekki virkilega í ljós fyrr en sumarið 1867 hversu mikils þessi hugmynd mátti sín. Þá ræddu karlar á Alþingi Íslendinga um frumvarp að nýjum hegningarlögum, mikinn lagabálk, alls 313 lagagreinar í þrjátíu og tveimur köflum sem konungur hafði ákveðið að yrðu lög á Íslandi. Og kom fyrir lítið þótt að þingmenn vildu meiri tíma til að íhuga frumvarpið. Konungur gat ekki beðið næsta þings – en Alþingi Íslendinga var háð annað hvert ár og var aðeins ráðgefandi – Íslendingar skyldu fá að njóta hegningarlaga sem væru mun mannúðlegri og „samkvæmari aldarháttum þessa tíma“ en eldri lög, tilkynnti konungur Alþingi þegar það loks kom saman að nýju sumarið 1869 en þá var frumvarpið að almennum hegningarlögum handa Íslandi þegar orðið að lögum.

Það sem stóð hvað verst í þingheimi var einmitt hin mikla réttarbót sem konungur vildi koma á fót og fólst í því að fullorðnu fólki skyldi ekki lengur refsað með flengingu. Hýðingin hafði hins vegar mun minni kostnað í för með sér en fangelsisvist. Því var þeirri reglu komið á 1838 að þrisvar sinnum tuttugu og sjö vandarhögg skyldu jafngilda tveimur árum í hegningarvinnu sem var gagngert til að draga úr kostnaði við réttarkerfið.

Hengjum þá!

Á 18. öld þóttust sýslumenn hafa fundið ráð við þessum kostnaðarauka sem hlaust af varðhaldi afbrotamanna. Ráðið var einfalt: Hengjum alla stórþjófa, þá sem rupla ítrekað – markið var sett við fjórða brot og skipti engu hversu smávægileg þau voru ­– einnig þá sem brjótast inn í sölubúðir og geymsluhús kaupmanna að vetrarlagi og þá sem fara á fjöll og taka þar ófrjálsi hendi annarra manna kvikfénað, nautgripi, hesta eða sauðfé.

– Og þessu viljum við fá að ráða svo taka megi menn af lífi þegar í stað, var krafa íslenskra sýslumanna sem danskir stjórnarherrar tóku andköf yfir sumarið 1757 og voru þó ýmsu vanir. Íslenskir embættismenn komnir á flugstig með að hengja almúgamenn og var ekki ábætandi í landi þar sem hungur og vesöld lagði um 11% þjóðarinnar í gröfina á þessum árum 1756 til 1757 og enn áttu bágindi aldarinnar eftir að aukast og tók þó fyrst steininn úr með Móðuharðindum og bólusótt.

– Nei, þetta vald skyldu íslenskir sýslumenn aldrei fá, var svarað frá Kaupmannahöfn og var fært í lög að enginn Íslendingur skyldi tekinn af lífi án samþykkis konungs.

Alþingi 1867

Öld síðar stóðu íslenskir alþingismenn frammi fyrir þessum sama sparnaðar-vanda þegar þeir fjölluðu um framangreint frumvarp konungs til almennra hegningarlaga. Eina alvöru tukthúsið sem landið gat státað af, betrunarhúsið á Arnarhóli, hafði verið lagt niður 1813. Aldarfjórðungi síðar var að vísu annað fangelsi reist í Reykjavík. Eftir það var Reykvíkingum refsað með fangavist upp á vatn og brauð þegar aðrir landsmenn voru hýddir fyrir sömu sakir.

Þetta fangelsi kaupstaðarbúa við Sundin varð þó aldrei nema svipur hjá sjón við hliðina á betrunarhúsinu á Arnarhóli sem þá var orðið heimili æðsta fulltrúa konungs á Íslandi, sjálfs stiftamtmannsins. Löggjafinn hafði raunar strax 1838 einsett sér að útrýma flengingum úr íslensku réttarkerfi. Hin líkamlega refsing með vendi átti aðeins að líðast uns „tilhlýðileg fángelsi og ströffunarhús

Stjórnarráðshúsið á Arnarhóli reis á árabilinu 1761 til 1771 og var tukthús þjóðarinnar. Seinna varð það bústaður stiftamtmanns, æðsta embættismanns landsins, og þar svaf Kristján 9. Danakonungur þegar hann 1874 færði þjóðinni stjórnarskrá. Þar er nú á öndverðri 21. öld að finna skrifstofu forsætisráðherra Íslands. Mynd: Nationalmuseet

geta þar innréttuð orðið“, var skýrt tekið fram í tilskipuninni um misgjörningamál á Íslandi. Raunin varð hins vegar sú að næstu áratugi breyttist lítið sem ekkert í þessum efnum og þar stóð hnífurinn í kúnni þegar Alþingi 1867 fjallaði um hin nýju hegningarlög sem konungur vildi veita Íslendingum.

– Það felst í þeim mikill ávinningur, viðurkenndi meirihluti þingnefndar sem fjallaði um frumvarpið, lagatextinn ber sannarlega „vott þeirrar mildi og mannúðar, sem er svo eðlileg og samvaxin þessa tíma menntun, framför og frjálsa skoðunarhætti.“

Ekki verður betur séð en að alger einhugur hafi verið um þessa skoðun meðal hinna tuttugu og sjö þingmanna er þá sátu á Alþingi Íslendinga. En þar með var ekki sagan öll. Nefndarmenn vildu nefnilega fá að vita hvernig það mætti gerast að Íslendingar gætu „orðið aðnjótandi þeirrar réttarbótar, sem lögin annars veita, fyrr en hegningarhúsin eru fullgjörð“. Stjórnvöld í Kaupmannahöfn hefðu sjálf lagt höfuðáherslu á þýðingu tukthúsa á Íslandi sem „ytra skilyrði fyrir lagagildi frumvarpsins“.

– Auk þess sem þetta atriði, bætti nefndin við, stæði í „innra óslítanlegu sambandi við grundvallarreglur og aðalsetningu laganna sjálfra um það, á hvern hátt hegnt skuli fyrir þá glæpi, sem lögin sjálf hljóða um.“

Konungur svaraði tveimur árum síðar með frumvarpi um byggingu fangelsa á Íslandi sem í endanlegri mynd – tilskipun dagsett 4. mars 1871 – sem eins og fyrr segir kvað á um byggingu sjö fangelsa.

 

Sá auðvirðilegasti

Um leið var grundvöllurinn lagður að hvarfi fyrirlitnasta embættis Íslandssögunnar. Í þjóðsögum Jóns Árnasonar segir frá konu sem ber sig upp við mann nokkurn. Sá svarar: „Það eru ekki margir sem vilja vingast við mig og er illt ég sýni ekki lit á þessu.“

Maðurinn var böðull en eins og lesa má á milli lína í tilsvarinu þótti „nálega eins mikil skömm að hýða, eins og að vera hýddur“, svo vitnað sé í orð sýslumannssonarins, Sigurðar Briem, sem fæddist 1860 á Espihóli í Eyjafirði. Á þetta benti einnig nefnd sú sem danska dómsmálastjórnin setti á laggirnar 1866 til að yfirfara frumvarpið að hinum nýju hegningarlögum handa Íslendingum.

– Það er orðið erfiðleikum bundið að fá böðul til starfa, upplýsti nefndin, því sá hugsunarháttur er orðinn ríkjandi hér á landi „að það sé minnkun fyrir mann að hýða dæmdan mann“.

Og afleiðingarnar?

Því er fljótsvarað, sagði nefndin, „þeir, sem til þess fást, eru opt lélegustu mennirnir í sýslunni, og verða miklu fremur álitnir jafningjar hins dómfellda en hæfileg verkfæri réttvísinnar til þess að halda henni uppi.“

En það kostaði skildinginn að útrýma böðlum á Íslandi eins og Ole Worm Smith, settur amtmaður í norður og austur amtinu, benti á í svari til dómsmálastjórnarinnar í Kaupmannahöfn veturinn 1871.

–Það væri vissulega æskilegt að hver sýsla landsins eignaðist fangelsi út af fyrir sig, féllst amtmaðurinn á en hitt sé rétt að hafa í huga að landsmenn eru örsnauðir og þola trauðla meiri skattaálögur.

– Og það hefur margfalt meiri útgjöld í för með sér að setja einstakling í til dæmis 6×5 daga fangelsi, þó aðeins sé upp á vatn og brauð, en að borga böðlinum tvo ríkisdali fyrir að straffa Deliqventen með vendi, benti Smith amtmaður á. Engu að síður vildi hann fangelsi en taldi tvö duga Norður- og Austurlandi, eitt í Múlasýslum og annað á Akureyri.