Bara húsbændur og hjú?

Jón Hjaltason

Veltum fyrir okkur stéttaskiptingu í íslenskum sveitum á 19. öld sem var næsta einföld, er skoðun ýmissa fræðimanna. Aðeins var um að ræða húsbændur og hjú, er fullyrt, eða með öðrum orðum; bændur og vinnufólk.

– Að minnsta kosti ef lagabókstafnum hefði verið hlýtt út í æsar, bæta hinir varkárari við og er ekkert við það að athuga.

Ég ætla hins vegar að draga þessa staðhæfingu í efa. Nefnilega þá að löggjafinn hafi beinlínis bannað öðrum en bændum og vistráðnum hjúum sveitavist um daga Markúsar Ívarssonar. Höfum alla 19. öldina undir.

 

Er ég á hálum ís?

 

Hér er þá fyrst til að taka tilskipun um lausamenn frá 19. febrúar 1783 sem í fljótu bragði virðist setja mig á hálan ís. Þar er nefnilega tekið fram strax í fyrstu grein að lausamennska sé með öllu forboðin á Íslandi og að lausamennskuleyfi, í skjóli þokkalegrar eignastöðu (sem studdist við eldri lagaboð), heyri sögunni til. En viti menn. Varla hefur löggjafinn fyrr dregið þessa skýru línu en hann slær varnagla. Húsmönnum – Husmænden í danska lagatextanum – konum þeirra og börnum skal þó leyft að vinna bændum fyrir daglaun, segir í 6. grein.

– Þetta fólk má leigja sig bændum dögum, vikum eða mánuðum saman, hnýtti lögfróðasti maður Íslands, Magnús Stephensen, við þegar hann þýddi lögin úr dönsku.

Og enn slær löggjafinn úr og í þegar hann í 9. grein lausamennskulaganna beinir athygli sinni að þeim sem búa við sjávarsíðuna. Þar dragi þeir fram lífið á sjávarafla – „under Navn af Hjaleiemænd og Tomthusmænd eller Bodemænd“ – þessir (og aðstoðarfólk þeirra) megi einnig þegar vertíðin er úti ráða sig til bænda upp á daglaun.

Og svo ekki fari á milli mála að með hugtakinu daglaun er vísað til fólks í lausamennsku – sem lögin þó banna – þá er í 9. grein talað um handverksmenn til sveita og einnig að þeim leyfist að fara á milli bæja og vinna fyrir „Dag- og Ugelön“. Allir framan nefndir verða þó að hafa leyfi sýslumanns til lausamennskunnar en slakinn á banninu er augljós.

 

Fordæmalausir tímar

 

Fáeinum árum síðar, þegar Napóleon Bonaparte var búinn að hleypa Evrópu í bál og brand og saklausir Íslendingar liðu fyrir, sendi Magnús Stephensen hjálparbeiðni til konungs, dagsett 31. maí 1808. Í sautján liðum taldi justitsráðið upp það sem brýnast væri að gera landsmönnum til bjargar. Númer eitt væri að banna framvegis alla húsmenn sem ekki ættu vísan aðgang að kálgarði og jörð – „men at for Eftertiden ingen Husmand uden Jord der tillades – sem væri ekki rýrari en svo að hún gæfi af sér eitt kýrfóður.

Þrátt fyrir að þetta væru fordæmalausir tímar – sem við ættum að skilja flestum betur sem lifað höfum bankahrun og alheimsfaraldur kórónuveirunnar – vildi danska nefndin sem ráða átti fram úr hjálparbeiðni Stephensen ekki stíga þetta skref fulls. Nefndarmenn hefðu þó sem hægast getað vísað í lausamennskulögin frá 1783 – hefðu þeir lagt sama skilning í þau og ýmsir, kannski flestir, félagar mínir í sagnfræðinni – en það gerðu þeir ekki.

Þeir byrjuðu þó á því að samsinna Stephensen: – Hús og jörð, sem ber eina kú eða sex sauðkindur, skal framvegis vera forsenda þess að menn megi „nedsætte sig som Strandsidder“ – megi gerast strandbúar.

En þrátt fyrir hinar dæmalausu aðstæður, sársvanga þjóð og svo bjargarlausa að hið forboðna hrossakjöt varð mannamatur, fékk nefndin ekki af sér að gera bújörð að fortakslausu skilyrði þess að menn mættu setjast að við sjávarsíðuna. Það mætti ekki daufheyrast fyrir fortölum manna sem sæju annan útveg en skepnuhald til að öðlast lífsviðurværi, var skoðun nefndarinnar. – En vitaskuld verður hver sá sem ekki vill gerast bóndi að fá til þess leyfi yfirvalda á hverjum stað, áréttuðu hinir dönsku nefndarmenn sem sumir sátu í kansellíinu, þaðan sem málefnum Íslands var stýrt og raunar alls danska ríkisins, en aðrir í rentukammeri sem var þáverandi fjármálaráðuneyti Danmerkur og heyrði undir kansellíið.

Um allt þetta geta menn gengið úr skugga með því að fletta upp á fyrirmælum konungs í Lovsamling for Island (sem er á netinu) varðandi ýmsar ráðstafanir í Íslands þágu (Kongelig Resolution ang. nogle Foranstaltninger vedkommmend Islands Tarv), dagsett 21. júlí 1808.

Færum okkur nær í tíma og skoðum sem snöggvast fátækrareglugerðina frá 1834. Óneitanlega virðist mér fatast flugið þegar við lesum í 20. grein reglugerðarinnar að hreppstjórar eigi skilyrðislaust að „vísa þeim í fasta vist“ sem teljast vinnufærir og „ekki eru húsfeður og iðka löglegt bjargræði“. (Er hér átt við að húsfeður iðki „löglegt bjargræði“ eða er vísað til annarra stétta? Ef sú er meiningin hefði verið mun skýrara að nota samtenginguna eða.) En lesum áfram og viti menn. Strax í 21. greininni er gert ráð fyrir að „þurrabúðarfólk eður tómthúsmenn“ fái sem endranær stað í tilverunni en þó aðeins þannig að „samsvari réttri tiltölu bjargræðisveganna og þeirra vanalega afla við sjáfarsíðuna“.

 

Víst var lausamennska heimil

 

Mín niðurstaða er því sú að löggjafinn einblíndi sig aldrei sjónlausan á að íslenskar sveitir skyldu ekki byggðar öðrum en bændum og vinnufólki. Þvert á móti var ákveðin lausung heimiluð alla 19. öldina, þeir sem ekki réðu við eða vildu verða bændur né heldur ráðast í vist áttu útgönguleið. Og hvort slíkir einstaklingar kölluðust þurrabúðarmenn, tómthúsmenn eða voru í húsmennsku þá lutu þeir augljóslega ekki húsbóndavaldi og gátu farið sem hverjir aðrir lausamenn – eða daglaunamenn – ­ um sveit sína. Þó ætíð með sömu skilyrðum og áréttuð voru í lögunum 1863 um lausamenn og húsmenn á Íslandi – sem sé með leyfi yfirvalda – en þá loks voru málefni lausafólks sett í tiltölulega fastar skorður. Meðal annars var körlum og konum eftirleiðis gefinn kostur á að kaupa sig frá vistarskyldu.

 

Alþingi vissi ekki hverjum það setti lög

 

Að vísu var einn stór hængur á þessum lögum um lausamenn og húsmenn. Enginn vissi nákvæmlega hvað hugtakið húsmaður þýddi. Alþingismaðurinn Þórarinn Böðvarsson, prestur í Görðum á Álftanesi, vakti máls á þessari staðreynd þegar hann tæplega aldarfjórðungi síðar, eða 1887, gerði athugasemd við frumvarp til laga um húsmenn eða þurrabúðarmenn.

– Og er einkennilegt, sagði séra Þórarinn, að fyrir vikið „verður eigi með fullum sanni sagt, að vjer vitum, hverjum vjer hjer setjum lög.“

Grímur Thomsen var snöggur upp á lagið og kvað upp þann Salomonsdóm að húsmenn væru ekki sama stéttin og þurrabúðarmenn. Enginn gerði athugasemd við þessa fullyrðingu skáldsins þótt höfundar frumvarpsins væru augljóslega annarrar skoðunar.

– Nú skulum við fella þetta heiti húsmaður úr frumvarpinu, lagði skáldið til og tóku lögin um þurrabúðarmenn gildi árið eftir og voru nánast samhljóða frumvarpinu sem hafði áður heitið „um húsmenn eða þurrabúðarmenn.“

Séra Þórarni þótti þetta heimskulegt athæfi.

– Setjum í lög, lagði hann til, að sá sé þurrabúðarmaður eða húsmaður „sem eigi er kaupstaðarborgari, og eigi hefur 1 hndr. [hundrað] af jörð eða meira til ábýlis, en hefur matreiðslu út af fyrir sig, hvort sem hann lifir af iðnaði, sjávarafla eða grasnyt eða er daglaunamaður.“

Tillagan var kolfelld. Þó höfðu menn brennt sig á þessu sama soði – en ekkert lært – þegar títtnefnd tilskipun um lausamenn og húsmenn var lögfest 1863. Líka þá lét löggjafinn undir höfuð leggjast að skilgreina hugtökin og þegar eftir henni var leitað komu vöflur á embættismenn í Kaupmannahöfn.

– Þessi heiti hafa ekki sömu merkingu yfir allt landið, svöruðu þeir en neituðu að fara nánar út í þá sálma.

 

Sýslumaður gengur á lagið

 

Þetta færði Stefán Thorarensen, sýslumaður í Eyjafirði, sér í nyt þegar honum bauð svo við að horfa. Hann hefur eflaust vitað að nefndin sem lagði drögin að frumvarpinu – sem þá tók að vísu einnig til vinnuhjúa – hafði tekið þá afstöðu að sá væri húsmaður „en ekki lausamaður, sem á heimili forstöðu að veita.“ Í endanlegum lagatextanum var þessi skilgreining felld burtu en Stefán sýslumaður kaus að halda sig við hana en ekki hina sem kvað á um jarðarskika og kálgarð sem forsendu húsmennskuleyfis. En hvenær hafði maður stofnað heimili?

– Það dugar að hafa leigt herbergiskytru eða jafnvel bara rúmpláss, var svarið sem Stefán gaf. Hann gat því með góðri samvisku neitað að staðfesta úrskurð bæjarstjórnar þegar hún vildi vísa þessum eða hinum burt úr kaupstaðnum. En löggjafinn hafði eftirlátið sveitarstjórnum að útdeila húsmennskuleyfum þrátt fyrir ábendingu um að íslenskir sveitarstjórnarmenn væru ekki ýkja frjálslyndir í slíkum leyfisveitingum. Það mátti þó alltaf kæra niðurstöðu nefndarinnar og átti þá sýslumaður seinasta orðið. Þar með hafði opnast leið fyrir fátæka verkamenn sveitarinnar að spara sér kýrverðið sem lausamennskuleyfið kostaði – konur greiddu hálft – að minnsta kosti ef þeir áttu við sýslumanninn í Eyjafjarðarsýslu.

Stefán Thorarensen lagði, eins og við höfum séð, afar víðtækan skilning í hugtakið húsmaður og þegar bæjarfulltrúar Akureyrarkaupstaðar atyrtu hann fyrir tiltækið svaraði Stefán: – Þið skammið mig fyrir að leyfa fátæku fólki að setjast hér að. Ykkur finnst best að hér búi aðeins efnafólk en það er „gagnstætt náttúrulegu eðli fjelagslífsins“ og „ekki einusinni æskilegt fyrir bæjarbúa, því þá feingist ekki maður ef álægi til svo mikils sem taka í ár.“