Borgararéttindi

Vesturfarar

Ólafur Þorgeirsson birti í Almanakinu sínu árið 1919 upplýsingar um ný lög varðandi borgararéttindi í Kanada:

,,Borgararéttindi útlendinga í Canada. Árið 1914 öðluðust ný lög, viðvíkjandi borgararéttindum útlendinga í Canada, gildi. Þau eru yfirleitt strangari en eldri lögin voru. Samkvæmt þeim verður hver útlendingur, sem vill gerasr brezkur þegn í Canada, að hafa verið búsettur einhversstaðar í brezka ríkinu í fimm ár, eða hann verður að hafa verið fimm ár í þjónustu brezku krúnunnar. Einnig verður hann að kunna annaðhvort ensku eða frönsku. Vanalega eru lög þessi nefnd ,,The Imperial Naturalization Act“ . Undir gömlu lögunum gátu menn orðið brezkir þegnar í Canada eftir þriggja ára dvöl, og án þess að kunna ensku eða frönsku; menn þurftu ekki eða gefa sig fram fyrir dómara, til að geta fengið borgaralegt skýrteini, nema að það skilyrði væri sett af einhverjum héraðsdómara. Undir þeim lögum voru borgararéttindin viðurkend að eins í kurteisisskyni annarsstaðar en í Canada, sen samkbæmt nýju lögunum nýtur sá, sem borgararéttindi fær, sömu réttinda og hlunninda og þeir, sem fæddir eru brezkir borgarar hvar sem er.“

Nýju lögin:,,Nýju lögin eru að ýmsu leyti frábrugðin þeim gömlu. Útlendingur, sem vill gera greinarmun á borgararéttindum og skyldum í Canada og í brezka veldinu yfir höfuð, á þess ekki kost framar; hann verður að berast brezkur þegn að fullu og öllu, ef hann á annað borð óskar að fá þegnréttindi; og til þess að geta orðið það verður hann að uppfylla eftirfarandi skilyrði.  1. Að hafa verið búsettur fimm ár í löndum Bretakonungs, eða hafa verið fimm ár í þjónustu brezku krúnunnar. 2. Að hafa óflekkað mannorð, og kunna sæmilega annaðhvort ensku eða frönsku. 3. Að lýsa yfir að hann ætli sér, ef hann fái þegnréttindi, annaðhvort að búa framvegis í löndum Bretakonungs, eða ganga í og halda áfram að vera í þjónustu krúnunnar. Viðvíkjandi dvöl í brezkum löndum er það tekið fram, að þau fimm ár, sem til eru tekin, verði að vera innan takmarka næsta átta ára tímabils; áður en um borgararéttindin er sótt; síðasta árið af þessum fimm verður samt að vera dvalarár í Canada, og skal það vera næsta ár áður en um borgararéttindi er beðið. Hin fjögur mega vera dvalarár í öðrum löndum hins brezka ríkis“

Skilyrði og skírteini: ,,Ríkisritari Canada hefir fullan rétt til að veita eða neita um borgararéttinda skírteini; og ekki verður hann krafinn um ástæður fyrir synjaninni. Umsækjandi verður að vinna hollustueið áður en honum er veitt skírteini. Hann verður sjálfur að mæta fyrir dómara til yfirheyrnar, nema dómarinn taki ástæður hans fyrir fjarveru gildar. Ef vafi leikur á um borgararéttindi einhvers manns, má gefa honum sérstakt skírteini um að hann sé brezkur þegn; en ekki verður það skoðað sem viðurkenning þess, að hann hafi ekki áður verið brezkur þegn. Maður, sem á börn, og biður um borgararéttindi fyrir sig, getur látið þau ná til barna sinna; en börnin geta, ef þau æskja, afsalað sér þeim borgararéttindum innan eins árs eftir að þau verða lögaldra.“