Haraldur Sigurðsson

Vesturfarar

Haraldur “Harold” Sigurdson (1843-1935) - Find A Grave Memorial Eyfirðingurinn Haraldur Sigurðsson lifði sannarlega ævintýralegu lífi miðað við flesta jafnaldra hans á Íslandi á seinni hluta 19. aldar. Hann var rétt um tvítugt þegar hann sigldi frá Akureyri á dönsku skipi og næstu 28 ár ævinnar var hann í siglingum um heimsins höf. Hann settist að í Keewatin (seinna Kenora) í Ontario árið 1888 og bjó þar til æviloka. Árið 1936 birtist grein í Almanaki Ólafs Þorgerissonar í Winnipeg sem ritstjórinn nefndi Æfintýramaðurinn Haraldur Sigurðsson. Þar segir:,, Árið 1888 brá Haraldur sér til Englands og gekk þar að eiga konu af skoskum ættum. Sneri síðan aftur til Kenora með konu sína og þar hafa þau hafist við í 46 ár…Á þessum 46 árum sem Haraldur dvaldi í Kenora, bygði hann yfir 30 stórskip auk fjölda smærri báta. Þar að auki tók hann mikinn þátt í kappsiglingum á stórvötnunum í austurfylkjunum og vann nokkur verðlaun fyrir þá frammistöðu sína. Árið 1897 bygði hann snekkju eina er hann nefndi „Antelope“ og færði það skip honum þrisvar sinnum fyrstu verðlaun í kappsiglingum, sem varð honum til frama og fjár. Auk þess að byggja skip og báta, sem flutu á vötnunum, sníðaði hann mikið af eftirlíkingum (models) með rá og reiða og rak það starf all-mikið um æfina, meðal annars. Þegar Haraldur Sigurðsson varð 90 ára, 1933, héldu Kenora-búar honum samfagnað og sýndu honum á ýmsan hátt virðing og vinahót. Við það tækifæri gat hann um það að það væri tvent, sem hann væri stoltur af. Það fyrra hefði skeð 1863, var hann þá háseti á dönsku freygátunni „Schelland“, sem flutti hina yndisfögru prinsessu, Alexöndru, dóttir Kristjáns IX til Lundúna til að ganga að eiga Edward konungVII og því fært Bretum þá elskuverðustu drottningu, sem þar hefði nokkuru sinni setið í drottningarsessi. Aftur var það ári síðar, að Haraldur var á sama skipinu „Schelland“ í sjóbardaganum, sem Danir áttu við Prússa og Austurríkis herskipaflotana sameinaða við Heligoland 1864, og sem Danir unnu með miklum heiðri. „Schelland“ hafði 28 fallbyssur innanborðs og var eitt af 22 herskipum, sem Danir höfði í þeirri eftirminnilegu sjóorustu. Blaðið „Kenora Miner and News“ getur Haraldar Sigurðssonar, sem eins virðingarverðasta borgara og segir hans sé alment saknað, hann hafi verið athafnamaður mikill um æfina, sífeldlega starfandi og gæddur listamanns hæfileikum í ríkum mæli“.