Sigurður Baldvinsson

Vesturfarar

Jón Jónsson frá Sleðabrjót skrifaði kafla í Almanak Ólafs Þorgeirssonar í Winnipeg um íslenskar byggðir við norðanvert Manitobavatn. Árið 1914 var grein eftir hann um Siglunes, Narrows, Dog Lake og Moose Horn Bay. Kafla þessa byggði hann yfirleitt á samtölum við landnámsmenn eða stuttar ritgerðir þeirra. Einn þeirra sem skrifaði Jóni var Sigurður Baldvinsson frá Gunnólfsvík í N. Múlasýslu. Þótti Jóni bréfið gott frá Sigurði svo hann birti það í heild. Um þetta skrifaði Jón: ,,Sigurður Baldvinsson býr fyrir norðvestan Narrows. Frá honum hefi eg fengið ættartölu og æfiágrip, er eg set hér orðrétt, því það lýsir manningum betur en eg fæ gjört með mínum orðum:

Uppruni

Gunnólfsvíkurfjall

„Eg flutti til Vesturheims árið 1902, þá 25 ára gamall, frá Gunnólfsvík í Norður-Múlasýslu. Faðir minn er Baldvin Guðmundsson, Sigvaldasonar, Eiríkssonar, Styrbjörnssonar bónda á Ketilsstöðum í Jökulsárhlíð í N.-Múlasýslu. Var sú jörð fátækraeign (Kristfjárjörð). Eitt sinn rak þar hval á land og skifti Styrbjörn honum milli Héraðsbúa ókeypis. Skömmu síðar rak annan hval, og fór Styrbjörn með hann á sama hátt. En er sýslumaður frétti af rekanum, reið hann heim til Styrbjarnar og gjörði kröfu til að eiga ítök í hvalrekanum, og kvaðst eigi löglega meðferð Styrbjarnar á hvalnum. Styrbjörn brást reiður við, greið járnkarl og reiddi hann að sýslumanni, og kvaðst mundi stytta honum aldur, nema hann lofaði því að gjöra aldrei tilkall til hvalsins, því guð hefði sent hann fátækum, og sá sýslumaður sinn kost beztan að lofa því.“ -(Hér kemur innskot frá Jóni:,,Milli sviga skal þess getið, að sá er þetta ritar, hefir heyrt að Styrbjörn hefði átt fjögra potta kút fullan af brennivíni í skemmu sinni og hefðu þeir sezt að honum sýslumaður og hann er rimmunni var lokið og tæmt kútinn“) „Föðurmóðir mín var Soffía Sigurðardóttir frá Skógum í Axarfirði; var hún föðursystir Sigurðar prófasts Gunnarssonar á Hallormsstað, og er ættbálkur talinn frá Jóni bónda á Mýlaugsstöðum í Reykjadal í Þingeyjarsýslu; var Jón faðir séra Ingjalds í Múla og séra Þórarins, er lengi var prestur í Skagafirði og var ættfaðir „Bólstaðarhlíðarsystra“. Ein dóttir Jóns á Mýlaugsstöðum var móðir Þórðar sýslumanns í Sandhólum á Tjörnesi í Þingeyjarsýslu.“

Fjölskyldan -Vesturheimur

Þessi teikning af Sigurði fygldi grein Jóns í Almanakinu. Höf. ókunnur.

Hér sér út á Manitobavatnið frá Hjartareyju.

„Eg giftist árið 1898 Maríu Björnsdóttur Þorleifssonar kaupmanns á Bíldudal í Arnarfirði. Móðir Björns var Ingibjörg systir Gróu konu Ólafs bónda á Sveinsstöðum, bróður séra Halldórs á Hofi í Vopnafirði. En móðir konu minnar var Anna Bergsteinsdóttir, ættuð úr Keflavík í Gullbringusýslu. Konan mín hefir reynst mér bæði ágætir og myndarkona. Við eigum mörg börn og efnileg, komum fátæk í þessa byggð og nam eg þá land í Hjartareyju (Red Deer Island) norðan við Narrows og hefir mér liðið þar fremur vel; eg á nú 300 fjár og 30 nautgripi. Fyrstu 3 árin eftir að eg kom hingað dvaldi eg í bænum Gladstone í Manitoba, og vann þar ýmsa „“akkorðs“-vinnu. Átti eg þar oft kapp að etja við ýmsa bæjarbúa og bar sjaldan lægri hlut. Eg fór víst stundum „í kringum“ bæjarlögin og lenti oft í kasti við lögregluþjóna; beitt eg þá stundum víkings aðferð Styrbjarnar forföður míns; en oftast voru lögregluþjónar mér góðir. Eg flutti í þessa bygð 1906. Eg hef skrifað þér þetta svona hreinskilningslega til að sýna, hvernig ættareinkennin haldast í beinan karllegg öld eftir öld. Við höfum ágæta heilsu og þrek, svo eg ætla ekki sé mikil afturför í ættinni. Víkingslund mín fellur ekki sem bezt saman við aldarhátt nútímans. Eg hef látið sonu mína heita Björn og Kára. Mér hefði verið það skapfelt að fara heim til Íslands og endurreisa óðal Styrbjarnar forföður míns, en til þess skortir mig fé og frama“ 

Jón lýkur greininni svo:,,Eg hefi litlu að bæta við umsögn Sigurðar. Hann er  greindur og ramíslenzkur og les um Ísland alt er hann nær í. Skapar sér sínar skoðanir sjálfur og heldur þeim einarðlega fram. Hann er talinn nær tveggja maki að burðum og harðgjör og fylginn sér.“