Magnús Sigurðsson á Storð skrifaði kafla í Almanak Ólafs Þorgeirssonar í Winnipeg árið 1932, sem kallast Landnemar Geysisbygðar í Nýja Íslandi. Þar segir hann eftirfarandi um Jóhann:
Ættir og uppruni
,,Jóhann Sæmundsson. – Faðir hans var Sæmundur bóndi á Grjóti í Þverárhlíð, Jónsson. Sæmundur var bróðir Helga í Neðra – Nesi og Guðrúnar, móður Helga Jakobssonar. Móðir Jóhanns var Guðrún Jónsdóttir, Arasonar af Akranesi. – Til Vesturheims flutti Jóhann 1899. Var þá fyrst í Cavalier, N. D. Til Nýja Íslands flutti hann 1901 og settist á landið..- Kona Jóhanns er Þóra Guðmundsdóttir. Þau giftust haustið 1907. Þóra var þá komin vestur með Sigmundi bróður sínum er tók land í Árdalsbygð norðaustur af Árborg(N.V.36). Faðir þeirra var guðmundur bóndi á Galtastöðum (fram) í Hróarstungu, Arngrímssonar bónda í Blöndugerði, Sigurðssonar á Gautlöndum, Jónssonar bónda á Mýri í Bárðardal, Halldórssonar bónda á Lundarbrekku, Ingjaldssonar bónda á Kálfaströnd við Mývatn. Áfram má rekja ættina í beinan karllegg óslitið í gegnum aldirnar til Bjarna bunu, Grímssonar hersis í Sogni. Hálfbræður, samfeðra, voru þeir Arngrímur í Blöndugerði og Jón alþingismaður á Gautlöndum. Fyrri kona Sigurðar á Gautlöndum var móðir Arngríms, en seinni kona hans var móðir Jóns. Sigríður hét móðir Þóru konu Jóhanns. Hún var Eyjólfsdóttir bónda á Grímsstöðum á Meðallandi, Þorvarðarsonar“.
Mannkostir
,,Jóhann Sæmundsson er einn meðal hinna beztu bænda bygðarinnar. Hann varð einna fyrstur manna í sinni bygð til að byggja á steinsteyptum grunni. Er þannig gengið frá öllum hans byggingum. Steinsteypukjallari er undir íbúðarhúsinu, sem er mjög vandað að allri gerð. Búhöldur er Jóhann með bezta hætti. Stendur þar og á traustum stólpum búskapur sem byggingar. Og traustari drengskaparmann getur vart að finna en Jóhann Sæmundsson – þéttan á velli og þéttan í lund, ákveðinn og einlægann. Viðbrugðið er og eðallyndi beggja þeirra hjóna, gestrisni og greiðvirkni. Þóra er ein meðal þeirra góðu kvenna, sem ekki má sjá aðra líða, án þess að rétta hönd til hjálpar, þar sem hún til nær. – Börn þeirra eru Gunnar og Aðalbjörg. Prýðilega greind eru þau og vel gefin.“