Winnipeg

Vesturfarar

Málverkið er frá 1821 og sýnir fiskveiðar niður um ís á ármótunum. Á hæðinni stendur Fort Gibraltar sem reist var árið 1809.

Kane Encampment.jpg

Listaverkið sýnir ármótin í Winnipeg sem í dag kallast ,,The Forks“.

   Winnipeg er höfuðborg Manitobafylkis í Kanada. Nafnið er úr máli frumbyggja og merkir ,,leirugt vatn“. Borgin, stundum kölluð ,,hliðið til vesturs“, er við ármót Rauðár sem rennur norður í Winnipegvatn og Assiniboine ár sem rennur úr vestri. Borgin er þannig við krossgötur, annars vegar norður-suður leiðina og hins vegar austur-vestur. Öldum saman voru árnar mikilvægustu samgönguleiðir frumbyggjaþjóða á kanadísku sléttunni allt vestur að Klettafjöllum og í suðri tengdist Rauðáin Missouri og Mississippi stórfljótum. Hingað streymdi fólk á eintrjáningum sínum, slógu upp búðum og dvöldu sumarlangt við berjatínslu, dýra- og fiskveiðar og vöruskipti. Norðan við ármótin var svo akuryrkja stunduð. Að því kom að menn settust hér að, vísbendingar eru um að elsta byggðin rétt sunnan við borgina sé 11.500 ára gömul en við sjálf ármótin myndaðist byggð fyrir 6.000 árum. Árið 1805 fóru kanadískir landkönnuðir um svæðið og sáu frumbyggja við akuryrkjustörf við Rauðá. Á næstu árum óx eftirspurn eftir vistum þarna í lítilli frumbyggja-byggð því fjöldi veiðimanna og skinnakaupmanna óx hratt.  Franskur landkönnuður og skinnakaupmaður La Vérendrye fór frá Quebec vestur og reisti fyrstu skinnaverslun í Rauðárdal árið 1738. Náðu Frakkar þar með undirtökunum næstu áratugina áður en breska stórfyrirtækið Hudson’s Bay Company kom til sögunnar eftir Sjö ára stríðið um miðja 18. öld. Fjölmargir franskir karlmenn kvæntust konum af frumþjóðaættum, þeirra börn fylgdu hefðum frumþjóða,stunduðu veiðar og vöruskipti. Þegar árin liðu varð til sérstakt þjóðabrot kynblendinga, ,,Métis“ sem setti mikinn svip á samfélagið ekki aðeins í borginni heldur líka fylkinu öllu.

  Bresk áhrif: Skoskur maður, Thomas Douglas erfði jarlstign í Selkirk héraði í suðaustur Skotlandi. Hann sá aumur á heimilislausum Skotum og snemma á 19. öld beindi hann sjónum sínum vestur um haf. Hann keypti lönd í Austur Kanada og flutti fólk vestur. Hann hélt landakaupum áfram og var fyrstur Evrópubúa til að stofna nýlendu í Rauðardal sem kallaðist Red River Colony. Landið sem honum var úthlutað  var stórt, náði langt suður í núverandi N. Dakota og Minnesota og vestur að fylkjamörkum Manitoba og Saskatchewan. Svo kallað Millivatnasvæði í Manitoba (Interlake) tilheyrði líka umræddu landsvæði Lord Selkirk. Landið fékk hann frá Hudson´s Bay félaginu sem sá mikinn kost við að efla landbúnað á sléttunni í stað þess að þurfa að flytja vistir þangað frá Bretlandi. Skilyrði félagsins á þessari úthlutun var að 200 menn yrðu til staðar í nýlendunni og að Lord Selkirk legði ekki fyrir sig skinnakaupmennsku. Hudson’s Bay félagið var ekki eina félagið á sléttunni, árið 1779 var svo kallað Norðvestur félag (North West Compnay) stofnað í Montreal. Bæði félögin komu sér fyrir í Rauðárdalnum, Norðvestur félagið byggði verslunarstað (virki) Fort Gibraltar árið 1809 og Hudson’s Bay félgið Fort Douglas árið 1912. Samkeppnin var hörð en svo fór að árið 1821 tók Hudson´s Bay félagið yfir Norðvestur félagið, Fort Gibraltar var gefið nafnið Fort Garry sem í dag er mikið hverfi í Winnipeg.  Árið 1870 varð Manitoba fimmta fylkið í þriggja ára gömlu þjóðríki, Kanada og Winnipeg höfuðborg sléttunnar.

Myndin sýnir hverfi sem risið var í Point Douglas í Winnipeg árið 1875. Margir Íslendingar settust að í svipuðum hverfum í svonefndum Hudson´s Bay Flats og voru þess háttar kofahverfi nefnd Shanty Towns.

Íslendingar setjast að: Fyrstu Íslendingarnir sem settust að í Winnipeg komu þangað í október, 1875. Þeir voru í fyrsta hópnum sem ætlað var að setjast að í óbyggðum á vesturbakka Winnipegvatns. Að ætla að setjast að úti í óbyggðum Manitoba svo síðla hausts þótti mörgum í borginni hið mesta óráð. Það varð til þess að fararstjórar hópsins hvöttu ungar stúlkur og einhleypa menn til að kanna möguleikana á vistun í borginni, fjölskyldufólk skyldi halda áfram. ÞÞÞ segir í SÍV2 bls. 321 að eftir í Winnipeg hafi orðið 50-65 einstaklingar, flest ungar konur enda voru atvinnumöguleikar þeirra miklu betri en ungra manna. Ekki ber heimildum saman um fjölskyldur því ÞÞÞ segir aðeins Björn K. Skagfjörð hafa orðið eftir í borginni með konu sína og þrjá syni. Í bréfi frá landnema í Nýja Íslandi sem Winnipeg Free Press birti 17. janúar, 1876 segir að um 50 fjölskyldur hafi sest að í nýlendunni við vatnið en alls komu 60 eða þar um bil til borgarinnar í október. Stúlkurnar og ungu konurnar fengu vist nánast fyrirhafnalaust á heimilum heldri manna í borginni en piltar og ungir menn unnu við uppskipun eða söguðu við til húshitunar. Í ágúst ári síðar kom annar stór hópur til Winnipeg beint frá Íslandi og fór þorri manna til Nýja Íslands en sumir urðu eftir í borginni. Á tæpu ári voru nokkuð á annað þúsund Íslendingar sestir að á sléttunni í samfélagi sem tók örum breytingum. Á árunum 1877-1801 bættust fáeinir árlega við íslenska samfélagið í Winnipeg. Sumir komu þangað austan úr Marklandi í Nova Scotia, Ontario eða frá ýmsum stöðum í Bandaríkjunum. Þá komu líka árlega einhverjir beint frá Íslandi. Loks ber að geta þairra sem gáfust upp á baslinu í Nýja Íslandi, fluttu til Winnipeg og bjuggu þar einhvern tíma á meðan annarra staða var leitað. Margir fluttu aldrei úr borginni.

Járnbrautarstöðin í Winnipeg var tekin í notkun árið 1884. Hingað lá leið þúsunda Íslendinga á næstu áratugum, nánast út allt Vesturfara-tímabilið árið 1914. Hér biðu menn ættingja að heiman eða komu bara til að heilsa upp á landa nýkomna frá gamla landinu.

Járnbraut-Winnipeg blómstrar: Ríkisstjórn samþykkti að leggja járnbraut þvert yfir Kanada vestur yfir og um Klettafjöllin til vesturstrandarinnar. Árið 1880 styttist í að járnbraut CPR félagsins næði til Winnipeg en við þau merku tímamót opnaðist kanadíska sléttan til vesturs. Öllum var ljóst að á næstu árum flykktust innflytjendur vestur þangað því segja má að þetta mikla svæði væri það eina í allri Norður Ameríku sem ekki var numið. Winnipeg varð á næstu árum miðstöð mann-og vöruflutninga. Viðskiptalífið tók mikinn fjörkipp, uppbygging og fjölgun íbúa var ævintýri líkast. Skoðum hvað Tryggvi J. Oleson skrifaði um Íslendingabrask í borginni: ,, Menn trúðu, að borgin mundi eiga mikla og glæsilega framtíð, og þá fýsti mikið til þess að kaupa lóðir, sem þeir gætu svo selt með ágóða eftir nokkurn tíma. Íslendingar tóku strax allvirkan þátt í þessu gróðabralli, og græddist mörgum þeirra fé. Þá var og nóg um vinnu, því hús þutu upp á hverju strái, og var auðvelt að fá nóg að gera. Kaup var ágætt – þetta $3.25-$3.75 á dag.“(SÍV4, bls.347) Hér er rétt að staldra við og hugleiða aðeins vesturfarir Íslendinga fram til ársins 1880, hugmyndir þeirra og væntingar. Draumur flestra þennan fyrsta áratug var að taka þátt í myndun íslenskrar nýlendu þar sem menn ættu kost á landbúnaðarstörfum og jafnvel fiskveiðum. Þetta hafði verið lifibrauð íslenska vesturfarans frá blautu barnsbeini, hann bjó hvorki yfir mikilli þekkingu eða reynslu á sviði flókins viðskiptalífs á framandi grundu. Það er hins vegar athyglisvert að meðal vesturfaranna í Winnipeg árið 1880 hafi verið einstaklingar sem höfðu þetta í blóðinu. Menn settust ekki að í Winnipeg til að grafa skurði, saga við eða leggja járnbrautir ævilangt, þarna á meðal voru ungir menn sem vestur fóru ákveðnir að skapa sér og sínum betra líf en kostur var á heima. Það kom líka snemma í ljós á Vesturfaratímabilinu að landbúnaðarstörf hentuðu ekki öllum.

Taflan sýnir íbúafjöldann í Winnipeg frá 1871-1911

Aftur skulum við skoða hvað Trggvi sagði frekar:,, Fyrsti Íslendingur til þess að kaupa lóð eftir þessi fjörkippur hófst var Helgi Jónsson, síðar ritstjóri Leifs. Svo hefur hann víst keypt og selt hverja lóðina á fætur annarri. Hann er og talinn hafa verið fyrstur Íslendingur, sem varð til að smíða hús í Winnipeg….Jón J. Júlíus hét annar Íslendingur, sem tók þátt í þessum kaupum og sölum. Hann keypti tvær lóðir á Jeminastræti fyrir $400.00 og byggði á þeim hús fyrir $250.00. Hann seldi svo alla eignina með $500.00 ágóða.“ Konur létu sitt ekki eftir liggja, Tryggvi skrifar:,, Guðrún Jónsdóttir tók líka þátt í þessu gróðabralli. Hún byrjaði með $20.00, keypti sér lóð og lét reisa hús. Þetta hús leigði hún í tvo mánuði fyrir $12.00 á mánuði og seldi það nokkru seinna fyrir $1000.00. Henni græddist á þessu fyrirtæki $400.00.“(SÍV4 bls 348). Þessi árangur nokkurra leiddi til stofnunar félags 1. nóvember, 1881 sem nefnt var ,,Gróðafélagið“ og gekk það bærilega framan af en gríðarleg flóð í Rauðá um alla borg fylgdu snjóþungum vetri, skyndilega urðu framtíðarhorfur Winnipeg allt annað en glæsilegar. Verð á fasteignum hrundi og Gróðafélagið sat uppi með lóðir sem enginn leit við. Í ársbyrjun árið 1883 endaði þetta ævintýri Íslendinga í Winnipeg.

Aðlögun í Winnipeg -Íslenskur félagsskapur: Þegar Íslendingar fótuðu sig í fjölþjóðasamfélaginu í Winnipeg upp úr 1880 og tóku virkan þátt í samfélagsgerðinni var ljóst að þeir höfðu valið aðra leið í Vesturheimi en frændur þeirra, bræður eða landar gerðu í sveitunum í Minnesota, N. Dakota og Nýja Íslandi. Sagt er að heyra hefði mátt mælt á 14-17 ólíkum tungumálum á götum Winnipeg um 1880, þar með eru taldar ýmsar málýskur frumbyggja. Þetta er vísbending um það samfélagsmynstur sem var í borginni um þær mundir. Öllum innflytjendum, sama hvaðan þeir komu, varð ljóst að til þess að ná settu marki og skapa sér og sínum betra líf en kostur var á í heimalandinu urðu þeir að aðlagast þeim lögum og reglum sem stjórnvöld, bæði kanadísk og eins fylkisstjórn settu. Einn mikilvægasti liður í þessari aðlögun var tungumálið, tunga forfeðranna í heimalandinu var sett til hliðar í daglegu amstri borgarlífsins þar sem enska hlaut að verða ríkjandi tungumál. Heima notuðu foreldrar feðratungu sín á milli en gættu þess að börnin næðu góðum tökum á ensku. Lykillinn að framtíð æskunnar var gott vald á enskri tungu. Karlmenn í vegavinnu, járnbrautalagningu eða skurðgreftri lærðu fljótt að yfirmenn þeirra notuðu enskar venjur og ávörpuðu einstaklinga með föðurnafni þeirra.  Sú saga var sögð í Winnipeg  að þar hefðu eitt sinn, fyrir aldamót, unnið saman í vegavinnu 11 Íslendingar og af þeim voru 8 Jónssynir. Þegar verkstjóri átti eitthvað vantalað við einn þeirra þá kallaði hann ,,Jónsson“ og þá spruttu 8 Jónssynir á fætur og svöruðu kallinu.                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                          Íslendingar í Winnipeg fóru fljótlega að setjast að á ýmsum stöðum í borginni en samastaður þeirra voru tvö gistiheimili á Main St. sem bæði voru kölluð Íslendingahús. Þar varð til vottur að félagsskap sem sennilega á rætur að reka til húslestra Jóns Þórðarsonar úr Eyjafirði. Hann ásamt konu sinni, Rósu, rak annað gistiheimilið og matsölu. Enginn íslenskur söfnuður hafði verið myndaður á þessum árum (1876-1877), menn leituðu eftir að heyra guðsorð, sumir í kirkjum annarra þjóðabrota en margir komu til Jóns á sunnudagsmorgnum í þeim tilgangi. Þar var stofnað fyrsta félag Íslendinga í Winnipeg 6. september, 1877 og var því gefið nafnið ,,Íslendingafélag“  Séra Friðrik Bergmann skrifar um félagið í Almanak Ólafs Þorgeirssonar árið 1903 og segir:,, Í lögum félagsins er það tekið fram, að tilgangur þess sé ,,að efla og varðveita sóma hinnar íslensku þjóðar í heimsálfu þessari, viðhalda og lífga meðal Íslendinga hinn frjálsa framfara og mentunar anda, sem á öllum öldum sögunnar hefir einkent hina íslensku þjóð“.Vel er hægt að taka undir með presti þegar hann segir: ,,Ætlunarverkið virðist vera nokkuð umfangsmikið og óákveðið og er auðséð að hugmyndir manna um félagsskap hafa verið fremur bernskulegar um þessar mundir. En þess er að gæta, að svo var því varið með allar félagshugmyndir með þjóð vorri um þetta leyti.“ Félagið átti nokkuð farsæla bernsku og unglingsár en svo fór að halla undan fæti. Árið 1881 var nafni félagsins breitt í ,,Framfarafélagið“ og starfaði það óslitið til ársloka 1884 en þá lagði óeining innan félagsins það nánast að velli. Margt ágætt afrekaði það um sína lífsdaga, það kappkostaði að halda utan um alla Íslendinga sem til borgarinnar komu, skipulögðu hvers konar samkomur og ráku skóla sem kenndi ungum sem öldnum ensku. Annað athyglisvert félag var stofnað í Winnipeg sumarið 1881, það var kvenfélag. Nokkrar konur komu þá saman og skipulögðu hlutaveltu sem gekk vel og ríkti almenn ánægja með framtakið. Það var svo 1. október að formlegt kvenfélag var stofnað í Winnipeg og fyrsta verk félagsins var að setja á svið leikritið ,,Sigríður Eyjafjarðarsól“ og með ágóðanum mynduðu þær félagssjóð. Séra Rögnvaldur Pétursson heyrði á sínum tíma frásögn frá stofnun félagsins og segir svo:,, Það var upphaf þessa félags, eftir því sem ein af stofnendum hefur skýrt oss frá, að konur nokkrar og stúlkur gengu dag einn seint um sumarið vestur úr bænum, sér til gamans, vestur á grassléttuna miklu, er breiðir sig svo langt sem augað eygir norður og vestur af Winnipeg….Þegar út á sléttuna kom, settust þær niður og fóru að tala um ásigkomulag innflytjendanna og annarra í bænum. Kom þeim þá saman um, að þær skyldu stofna félag meðal íslenzkra kvenna í Winnipeg, og skyldi félagið leggja fram krafta sína til liðsinnis allslausu fólki og þeim fyrirtækjum, er verndað gæti yngri sem eldri frá því að lenda hér í sorpinu. Konur þessar voru Rebekka Guðmundsdóttir og dóttir hennar Guðrún Jónsdóttir, Kristrún Sveinungadóttir og dóttir hennar, Svava Björnsdóttir, Þorbjörg Björnsdóttir, Signý Pálsdóttir, Helga Jónsdóttir og Hildur Halldórsdóttir.“ Rebekka var kosin forseti félagsins, Svava ritari og Signý gjaldkeri.  Félagið vann ötullega að velgerðarmálum, einkum er kom að liðsinni við nýkomna frá Íslandi í ein 5-6 ár.

Séra Jón Bjarnason í Winnipeg 1878

Íslenskur söfnuður: Séra Jón Bjarnason kom mikið við sögu í Vesturheimi, bæði 1873-1880 og svo 1885-1914. Hann varð prestur í Nýja Íslandi og söng sína fyrstu messu í Winnipeg, 28. október, 1877. Séra Páll Þorláksson vann þar sömuleiðis ýmis prestverk t.a.m. gaf hann saman fyrstu, íslensku hjónaefni í Winnipeg 6. september, 1876 en hann þjónaði líka söfnuðum í Nýja Íslandi. Báðir sungu þeir messur af og til í Winnipeg meðan á dvöl þeirra stóð í Nýja Íslandi en séra Páll hvarf þaðan með sína söfnuði 1878 og séra Jón flutti til Íslands árið 1880. Séra Jón hvatti til þess að íslenskur söfnuður yrði myndaður í Winnipeg og var það gert 11. ágúst, 1878 og kallaður Þrenningarsöfnuður. Séra Halldór Briem flutti til Winnipeg úr Nýja Íslandi og messaði en hvarf svo heim til Íslands árið 1881. Var því starfsemi safnaðarins með minnsta móti þar til sér Jón sneri aftur til Vesturheims og kom til Winnipeg snemma árs árið 1884. Hófst hann þegar handa við að byggja upp safnaðarstarf og höfðu tæplega 183 sálir skráð sig í söfnuðinn haustið 1884.  Í manntali sem Íslendingar unnu sjálfir í mars, 1884 segir að fjöldi þeirra í borginni sé 857. Þar er nokkur sundurliðun og fjöldi í ýmsum atvinnugreinum tiltekinn: 12 eru þá verslunarmenn, 10 trésmiðir, 1 stundar járnsmíði, 3 eru málarar, 4 prentarar, 3 skósmiðir, 5 eru tónlistarmenn og 12 stúlkur stunda saumaskap. (SÍV4, bls 355)

Fréttablað í Winnipeg:

Vangaveltur um íslenskt fréttablað hófust í Winnipeg fljótlega eftir að útgáfu Framfara var hætt í Nýja Íslandi árið 1880. Ýmsir athafnamenn í borginni, t.a.m. Jón Júlíus, Magnús Pálsson og Helgi Jónsson funduðu um málið og könnuðu ýmsa kosti. Þeir skrifuði íslenskum námsmanni, stúdent frá háskóla í Iowa og leituðust eftir vilja hans að gerast ritstjóri íslensks fréttablaðs í Winnipeg. Séra Friðrik J. Bergmann skrifaði í Almanak Ólafs Þorgeirssonar árið 1903 grein um fréttablaðið ,,Leif“ sem hóf göngu sína vorið 1883. Þar segir prestur:,, Boðuðu þeir hann (námsmanninn frá Iowa) á fund sinn og áttu saman mikið tal og langt um íslenskt blaðfyrirtæki. En niðurstaðan varð sú, að ekki væri unt að hafa saman fjármagn svo mikið, að út í slíkt væri leggjandi, svo að líkur væru til að bæri sig, og um leið væri hægt að borga sómasamlega fyrir ritstjórn og aðra vinnu við blaðið. Var því mál þetta látið niður falla að sinni.“ Mun Helgi Jónssona hafa verið sá eini sem taldi að útgáfa blaðs í Winnipeg gæti gengið og hóf hann útgáfu árið 5. maí, 1883 og ritstýrði blaðinu sjálfur. Heyrum hvað hann segir í ávarpi til lesenda í fyrsta tölublaði:,, Eg vil leiða athygli yðar að því, að verði eg látinn falla á þessu fyrirtæki, þá er það undir von, að það sjáist nokkurntíma íslenskt vikublað prentað hér megin Atlantshaf og hljóti eg að hætta, mun valla verða árennilegt fyrir neinn að byrja, því það eru eigi margir meðal vor hér, sem geta lagt jafn mikið fé og þarf til þess að gefa út blað, út fyrir ekkert. Þess vegna vil eg biðja menn, ef þeim þykir eitthvað að blaðinu, að sýna mér fram á gallana svo eg geti bætt úr þeim, og eins senda í það góðar ritgjörðir í staðinn fyrir að hætta að kaupa það. Til þess að blaðið geti borið sig og þeir haft sæmilegt kaup, sem að því vinna veitir eigi af að það hafi 15.00 (sic) (svona skrifað í blaðið, á að vera 1.500. Innskot JÞ) kaupendur. Þetta mun nú þykja býsna há tala, og ólíklegt að hún fáist, þar sem ,,Framfari“ hafði aldrei nema 600 kaupendur í allt og það voru aðeins 300 af þeim hér megin Atlandshafs: en eg vil segja að eins og það voru 300 Íslendingar færir að kaupa Framfara á dögum hans, hjer megin hafs, eins sjeu 3,000 færir til að kaupa þetta blað nú á dögum, og það sýnir glögglega að verði fyrirtækið látið stranda, þá er það einungis fyrir skeitingar- og alvöruleysi manna. Að endingu vil eg láta yður vita, kæru landar! Það eru ekki mínir eigin peningar sem jeg er sár út af þó jeg tapi, því þó jeg missi $1 til 2.000 á fyrirtækinu, þá stend eg jafnrjettur eptir sem áður, og jeg er miklu glaðari að tapa þeim á þessu fyrirtæki, heldur en þó einhver gæfi mér þá fyrir ekkert. Það er þjóðin íslenska, sem jeg er að hugsa um; það er hún, sem tapar meir en jeg með því að geta ekki haft gott dagblað á sínu eigin tungumáli.“  Séra Friðrik skrifar í niðurlagi sinnar greinar:,,Þótt nú bæði stíl og réttritun sé nokkuð ábótavant, er það hrein furða, að það skyldi ekki vera enn lakara. En fátæklega mun mönnum hafa fundist blaðið fara af stað og tóku margir fremur dauflega undir að kaupa það eður styrkja á annan hátt. En ekki kom ritstjóranum til hugar að gefast upp fyrir það.“ Fljótlega kom í ljós að ýmsum þótti Helgi fara glannalega og fundu allt að útgáfunni. Helga tókst um haustið 1883 að sannfæra stjórnvöld í Ottawa um að kaupa 2000 eintök af blaðinu til dreifingar á Íslandi og þótti ýmsum of langt gengið. Fundir voru haldnir um veturinn og næsta sumar (1884) þar sem andstæðingar Helga söfnuðu undirskriftum á skjal til Kanadastjórnar um að hún hætti að kaupa blaðið ef ritstjóri breyti ekki um stefnu. Helgi varðist vel, safnaði sjálfur undirskriftum á skjal þar sem einstaklingar lýstu yfir ánægju með blaðið og stefnu þess. Fékk Helgi ýmsa öfluga menn til að skrifa upp á m.a. séra Jón Bjarnason, Árna Friðriksson, Friðjón Friðriksson og Sigtrygg Jónasson. Gekk á ýmsu næstu misseri en stöðugt hallaði undan fæti og kom síðasta tölublað Leifs út 4. júní, 1886. Helgi var alltaf með mörg járn í eldinum og smám saman beindist öll athygli hans að nýju landnámssvæði í vestri þar sem hann sá tækifæri fyrir nýja, íslenska nýlendu. Hann flutti frá Winnipeg og settist að í Langenburg sem í dag er bær í Saskatchewan. Þar lést hann haustið 1887, 35 ára gamall.

Frá vígvellinum 1885.

Aðlögun og íslensk gildi: Þessar deilur um Leif sýna ágætlega þann klofning sem orðinn var í tiltölulega litlu samfélagi Íslendinga í borginni. Í Winnipeg tóku Íslendingar virkan þátt ekki aðeins í málefnum borgarinnar heldur og fylkisins alls. Hér var kærkomið frelsi til að tjá skoðanir sínar, berjast fyrir hugsjónum. Áður en þessum áratug lauk höfðu tvö, ný íslensk vikublöð séð dagsins ljós, Heimskringla hóf göngu 9. september, 1886 og Lögberg 14. janúar, 1888. Klofningur varð í trúmálum, sumir héldu tryggð við séra Jón Bjarnason og söfnuði hans, aðrir gengu í Únitarasöfnuð Björns Péturssonar sem stofnaður var í Winnipeg 1. febrúar, árið 1891. Í Winnipeg voru fyrstu og stærstu skref stigin í aðlöguninni að kanadísku samfélagi. Gott dæmi er þátttaka íslenskra manna í uppreisn kynblendinga og indjána árið 1885. Til að útskýra nánar verður að hverfa aftur til ársins 1870 en þá gerðu kynblendingar undir forystu Louis Riel uppreisn gegn stjórnvöldum þegar verið var að mæla landið og skipuleggja landnám á sléttunni. Sú deila leystist án blóðsúthellinga og var samningur gerður við kynblendinga. Árið 1885 endurtók sagan sig þegar verið var að mæla og skipuleggja sléttuna þar sem nú er fylkið Saskatchewan vestur af Manitoba. Nú gripu uppreisnarmenn, kynblendingar, til vopna og ýmsir ættbálkar indjána stuttu þá. Ungir íslenskir menn í Winnipeg gengu þá í herinn og börðust í fyrsta sinn með kanadískum bræðrum sínum í kanadískum her. Enginn Íslendingur féll en einn særðist, fékk kúlu í handlegg og var sendur af vígvelli. Íslendingar í Winnipeg tóku löndum sínum fagnandi þegar þeir sneru aftur, samkomur þeim til heiðurs voru haldnar og 1. júní, 1885 skrifar Sigurður J. Jóhannesson í Leif, vill að Íslendingar allir votti:,, þessum vorum ungu köppum verðugt þakklæti á opinberan hátt, sjerstaklega fyrir hvað drengilega þeir hafa haldið uppi áliti og virðing þjóðar vorrar, og eins og endurreist hennar fornu herfrægð.“  Aðlögunin að kanadísku samfélagi í Winnipeg birtist í ýmsum öðrum myndum t.d. þegar flett er íslensku vikublöðum á árunum 1882-1890 sést vel hvernig menn kvitta fyrir greinar sínar og ljóð; S. Sigurðsson í stað Sigurður Sigurðsson og K. Stefánsdóttir í stað Kristín Stefánsdóttir. Einar Hjörleifsson var fyrsti ritstjóri Lögbergs og segir svo í einni af sínum fyrstu ritstjórnar-greinum:,,Flestir hafa tvenn nöfn, íslenzk og óíslenzk. Íslenzku nöfnin nota þeir auðvitað, þegar þeir eru innan um landa sína, en leggja þau niður jafnskjótt og þeir standa framni fyrir hjerlendum manni, eða einhverjum öðrum en löndum sínum. Þá grípa þeir til þess, sem þeir ,,heita á ensku“ . Þó er það alls ekki svo að skilja, sem allir láti sér nægja með tvenn nöfn. Sumir kalla sig ótal nöfnum. Einn heitir t.d. Sveinn Grímsson, þegar hann kemur hingað heiman af Íslandi. Hann kallar sig svo Svein Grímsson svona hversdagslega, þegar hann er innan um Íslendinga. En hann hefur svo annað spari-nafn, t.d. Sveinn Vestmann og það notar hann t.d. þegar hann þarf að skrifa nafn sitt, eða við önnur sjerlega hátíðleg tækifæri. En meðal hjerlendra manna heitir hann hvorki Sveinn nje Grímsson eða Vestmann. Til að byrja með lætur hann að öllum líkindum Englendinga kalla sig John Anderson. Svo verður hann leiður á því nafni, og þegar hann flytur sig eitthvað til og kemur til ókunnugra manna, þá notar hann tækifærið, og fer að kalla sig Thomas Edison eða George Brown.“

img.discogs.com/bBXfh9ytcNoaSbTMr_Gez7XJUtw=/fi...

Einar Hjörleifsson 

Einar vill að menn haldi skírnarnafni sínu hvað sem það kostar en öðru megi breyta. Hann segir á öðrum stað:,, Vjer eigum í höggi við voldugasta þjóðernið, sem til er í heiminum. Sjalfir erum vjer fámennir og fátækir, og það er því ekki furða, þí vjer verðum að einhverju leyti að slaka til. Þegar menn eiga í stríði, er mönnum það oft ávinningur að semja frið í tíma. Með því fá menn oft haldið því, sem þeir mundu missa af öðrum kosti. Allt er undir því komið, að menn geri sér í tíma ljóst, hvað menn hljóta að missa og hverju menn geti haldið. Vjer hljótum að hætta við dóttur-nafnið. Vjer hljótum að hætta að kenna oss við skírnarnöfn feðra vorra, ef ekki í þessari kynslóðinni, þá í þeirri næstu. En íslenzkum nöfnum getum vjer haldið og eigum vjer að halda.’‘ Við skulum að lokum heyra í Einari, hann sagði þetta í ræðu í Winnipeg 8. febrúar, 1889 og nefndi fyrirlesturinn: Hverfum við í sjóinn? :,, Að hinu leytinu held ég því líka fram, að það væri tjón fyrir þjóðlíf vorrar nýju ættjarðar, ef vjer ekki veittum neitt viðnám og látum það gleypa okkur, rjett eins og við stöndum. Ef við hverfum inn í það sem fátækir, fákunnandi útlendingar, þá leggjum við engan skerf til þess, nema líkama okkar. Okkar andlegu öfl umskapast eptir höfði hjerlendra manna, steypast í sama mótinu og þeir sjálfir. En ef vjer hofum þrek og þol til að veita viðnám, þangað til frelsið og öll hin dýrðlegu gæði þessa lands hafa gert oss að nýjum og betri mönnum, án þess að svipta oss neinu því, sem ekki mátti úr okkur týnast og oss var eiginlegast– þá fer líka svo, að þar sem Englendingurinn og Íslendingurinn mætast í þjóðlífi þessa lands, þar mætast tveir jafn-dugandi drengir. Það hneigir sig þá ekki annar fyrir hinum, heldur hneigja þeir sig hvor fyrir öðrum. Það verður þá ekki annar, sem tekur hinn og stingur honum í deigluna og bræðir hann upp, heldur verka þar tveir jafn-frjálsbornir menn hvor á annan. Við hverfum þá ekki inn í hjerlent þjóðlíf að neinu leyti fremur en hjerlendir menn inn í okkar þjóðlíf – öðru en því að þeir verða fleiri. Og fari svo, að við hverfum inn í hjerlent þjóðlíf – ef menn endilega vilja kalla það svo – á þann hátt, að við leggjum til þess það bezta, sem er og verður í okkur sjálfum, og fáum aptur í staðinn það bezta, sem er og verður í hjerlendum mönnum, þá höfum við ekki heldur horfið eins og dropi í sjóinn, nema er eitthvað er skilið við það allt annað en það, sem jeg skil við það“ (SÍV4 422-423)