Guðni Júlíus Eyjólfsson betur þekktur í Vesturheimi sem G. J. Oleson var duglegur sagnaritari í Manitoba, skrifaði m.a. sögu íslensku byggðarinnar í Argyle í Manitoba. Þá birtust eftir hann fjölmargar greinar í blöðum og tímaritum Vestur-Íslendinga m.a. í Almanaki Ólafs S Þorgeirssonar í Winnipeg. Árið 1940 má finna þar grein eftir hann um móðurbróður hans Sigbjörn Sigurðsson (sjá Íslensk arfleifð) þar sem hann fjallar m.a. um börn hans og barnabörn. Um dótturdóttur sína, dóttur Kristjönu Solveigar og Sigurðar Gunnlaugssonar segir hann: ,,Christine dóttir þeirra er nafnkunn söngkona, var um hríð á Ítalíu og vann mikinn orðstýr (operunafn hennar er „Leonita Lanzoni“). Hún kennir nú við kvennaskóla, (Ladies´Seminary) í Staunton, Virgina, fæðingarstað hins fræga og heimskunna hugsjónamanns og Bandaríkja foresta, Woodrow Wilson. Hún syngur einnig opinberlega við ýmis tækifæri“. Allmörgum árum áður eða 11. október, 1928 birti Morgunblaðið grein um söngkonuna, vesturíslensku:
Íslensk söngmær
Í norska blaðinu ,,Morgenavisen“ stendur eftirfarandi grein nýlega.
– Hin unga íslenzka stúlka, Kristín Gunnlaugson frá Montevideo Minn,
virðist eiga glæsilega framtíð fyrir höndum sem söngmær. Hún hefir
lært að syngja í Evrópu, og á Ítalíu hefir hún vakið á sér mikla athygli
fyrir söng sinn. Þegar hún kom heim til Montevideo í sumar, lágu þar
fyrir henni tvö freistandi tilboð um að syngja opinberlega, annað frá
Ítalíu, en hitt frá Syndicate Opera Company ú Philadelphia og New
York. Hún tók hinu síðarnefnda tilboði, enda þótt henni langaði meira
til Ítalíu. Vinir hennar og aðdáendur í Ítalíu sendu henni nýlega fallega
brúðu, sem á að vera minjagripur hennar, og þegar hún fór alfarin frá
Montevideo til New York, var hún með þessa fallegu brúðu í fanginu. –
Þegar hún er orðin heimsfræg söngkona þá þekkist hún því miður ekki
undir nafninu Kristín Gunnlaugson. Ítalir skýrðu hana Leonita Lanzoni
og undir því nafni gengur hún sem söngkona.
Og svo spyr blaðið: Getur engin söngkona orðið fræg nema því aðeins að
hún beri ítalskt nafn?