Friðrik H Fljózdal

Vesturfarar

Friðrik Hermann Árnason fór vestur um haf tíu ára gamall með fósturforeldrum sínum, Eiríki Jónssyni og Vilborgu Stefánsdóttur í Rangá í Hróarstungu árið 1878. Hann fór ungur að vinna fyrir sér í Minnesota og þá hentaði betur að breyta nafni og úr varð Frederick H. Fljozdal, sennilega Fljótsdal upphaflega. Árið 1936 birti Almanak Ólafs Þorgeirssonar athygliverða grein um þennan merkilega, íslenska vesturfara. Höfundur var Richard Beck.

FRIÐRIK H. FLJÓZDAL

Vestur-íslenskur verklýðsforingi

Friðrik Hermann Árnason

,,Það hefir löngum verið einkenni góðra Íslendinga, að una illa því hlutskifti, að af þeim færu engar sögur. Frá norrænum forfeðrum sínum, er töldu frægðarorð unninna dáða eftirsóknarverðast lífsins gæða, hafa þeir erft þann hugsunarhátt, að vilja skipa rúm sitt, að þess sæust nokkur merki að þar hefðu atkvæðamenn að verki verið. Rauplaust má segja það, að Íslendingar vestan hafs hafa margir kverjir, drengilega sýnt þann hugsunarhátt í athöfnum sínum á ýmsum sviðum. Er það bæði glæsilegasti þátturinn í örlagaríkri sögu þeirra, og niðjum þeirra verðug fyrirmynd. Hér verður í nokkrum dráttum rakin saga eins þeirra Íslendinga hérlendis, sem varpað hafa bjarma verðskuldaðs frægðarorðs á ættjörð vora og ættstofn, þó ekki hafi verið hátt um hann látið vor á meðal. Það er verklýðsforinginn Friðrik H. Fljózdal, foresti Bandalags Járnbrautarmanna (Brotherhood of Maintenance of Way Employes) í Norður Ameríku. Flestum mun þá í fersku minni, að hann var einn af fulltrúunum fimm, sem Bandaríkjastjórn sendi á Alþingishátíðina 1930, og var hans vitnalega minnst í íslenzkum blöðum beggja megin hafsins í því sambandi. Annars veit eg ekki til, að neitt hafi verið ritað um hann á íslensku, nema einkar vinsamleg frein eftir hr. G Eyford í Lögbergi í september 1929. Er Fljózdal þess þó meir en maklegur, að saga hans sé í letur færð á móðurmáli hans, jafn ágætlega og hann hefir rutt sér braut til mannvirðinga í öflugum félagsskap, og með starfsferli sínum aukið hróður heimalands síns“.

Uppruni og æska

,,Friðrik Hermann (Frederick Herman) Fljózdal, en svo heitir hann fullu nafni, er fæddur 19. desember, 1868 að Aðalbóli í Hrafnkelsdal í Norður-Múlasýslu, sonur hjónanna Árna Brynjólfssonar, frá Hólum á Fjöllum og Kristrúnar Jónsdóttur úr Mývatnssveit. Nær tíu ára að aldri, 1878, fluttist Fljózdal vestur um haf með fósturforeldrum sínum, merkishjónunum Eiríki Jónssyni og Vilborgu Stefánsdóttur, er búið höfðu að Rangá í Hróarstungu. Námu þau land í Yellow Medicine County, nálægt Minneota, Minnesota. Ellefu ára gamall varð Fljózdal að fara að hafa ofan af fyrir sér. Er því lítt að kynja, þó hann hafi um dagana látið sig skifta kjör verkamanna, þar sem hann þekkir ofur vel af eigin reynd harða baráttu þeirra fyrir lífinu. Skólaganga hans varð að vonum af skornum skamti; samt gekk hann á barnaskóla á vetrum jafnframt því sem hann vann hjá bændum. Síðar á æfinni stundaði hann bréflega nám í almennum lögum og ræðuhöldum. Hefir honum hvorutveggja að góðu haldi komið í víðtækum opinberum störfum og ábyrgðarmiklum“.

Járnbrautir – framtíðarstarf

,,Fljózdal hóf járnbrautarstarf sitt í Duluth, Minnesota 1889; vann hann þar í tvö ár að lagningu strætisvagnabrautar. Því næst var hann allmörg ár bóndi í Warren, Minnesota. En 1898 hvarf hann aftur að járnbrautarvinnu, að þessu sinni hjá Canadian Northern félaginu. Þrem árum síðar varð hann verkstjóri þess (section foreman) í Warroad, Minnesota, og gengdi eftir það verkstjórastarfi hjá járnbrautarfélagi þessu fram til ársins 1907. En þá gerðist hann starfsmaður Bandalags Járnbrautarmanna, þar sem hann skipar nú æðsta sessinn; var félagsskapurinn þá í byrjun. Árin 1907-1918 var Fljózdal fulltrúi verkamanna á Canadian Northern járnbrautinni, forseti deildar þeirra í Bandalaginu. Auk þess hafði hann með höndum á þeim árum umfangs- og ábyrgðarmikil nefndarstörf í þágu þess, og var löggjafar-fulltrúi þess (national legislative representative) í Washington 1918. Að þeim tíma liðnum var hann kosinn vara-forseti Bandalagsins, og fluttist þá til Minneapolis, Minnesota. Þrem árum síðar, 1922, hlaut hann kosningu sem forseti þess, og settist þá að í Detroit, Michigan, þar sem það hefir aðal-skrifstofur sínar“.

Ameríka – Fjölskylda – Íslenska

Christina Nygren fæddist í Svíþjóð 23. mars, 1876.

,,En Fljózdal lætur sér fleira við koma heldur en verkamannamálin, þó þau séu eðlilega aðal-áhugaefni hans. Hann er kirkjumaður ágætur, og á sæti í fulltrúaráði kirkju sinnar í Detroit. Ber hann einkum fyrir brjósti hag sunnudagsskólans og hin ýmsu félög karlmanna innan kirkjunnar. Hann er einnig áhugasamur félagi í Reglu Frímúrara, hefir tekið hin hæstu stig innan reglunnar, og skipað þar virðingarstöður. Hann er góður ræðumaður og skemtilegur, að dómi kunnugra; enda er sótt eftir honum til ræðuhalda bæði í félagsdeildum verkamanna og margskonar öðrum félögum víðsvegar um Michigan-ríki. Fljózdal kvæntist 1893 í Warren, Minnesota, myndar og ágætiskonu af sænskum ættum. Eiga þau fimm börn á lífi. Dætur þeirra eru Mrs. Madelin Pagel, Minneapolis, Minnesota; Mrs Edna Wagner, Detroit, Michigan; Mrs Olive Sweet, St. Paul, Minnesota; og Mrs. Myrtle Frary, Marshall, Minnesota. Sonur þeirra, Leonard Frederick, er framkvæmdarstjóri (district manager) Pontiac-deildar General Motors félagsins í Grand Forks, N.D. Öll eru börn þeirra Fljózdals-hjóna hin mannvænlegustu. Yngsta barn þeirra, efnispiltur, dó nær hálf-þrítugur. Síðan hann flutti frá Minneota 1889 hefir Fljózdal að mestu verið fráskilinn löndum sínum, að undanteknu árinu 1917-1918 (talið frá hausti til hausts), er hann og fjölskylda hans áttu heima í Winnipeg. Heyrði hann því eigi íslenska tungu talaða árum saman. Fer þó fjarri, að hann hafi týnt henni niður, og varð eg þess var þegar við áttum tal saman nokkrum sinnum í Reykjavík sumarið 1930. Enda hefir hann jafnan fylgst með íslenskum málum, bæði með því að lesa íslenzk blöð og með heimsóknum á æskustöðvarnar í Minnesota-nýlendunni íslenzku. Kunnugt er mér einnig um, að Fljózdal átti um eitt skeið verðmætt íslenskt bókasafn; en það eyðilagðist þegar hús hans brann með öllu innanstokks árið 1915; tjáir hann mér, að hann sakni mjög bólasafns þessa, og er það vel skiljanlegt um jafn bókelskan mann og hann er að eðlisfari.

Íslensk þjóðrækni

Fljózdal er Íslendingur góður og fer aldrei í felur með þjóðerni sitt, enda gera það aðeins lítilsigldir menn og ósjálfstæðir. Hann tók sér ættarnafnið „Fljózdal“ einmitt með það fyrir augum, að eitthvert sérkenni íslensks uppruna hans héldist í ættinni á komandi tíð. Slíka rækt ber hann til átthaga sinna. Samfara þjóðrækninni ber hann í brjósti hollan metnað fyrir hönd þjóðsystkina sinna; honum er það ánægjuefni hvenær sem einhver landa hans skarar fram úr á starfssviði sínu; enda er honum full-ljóst, að eigi Íslendingar, jafn fámennir og þeir eru, ekki að hverfa í hringiðu þjóðblöndunarinnar hér í Vesturheimi, verða þeir að láta meir að sér kveða heldur en gengur og gerist. Fljózdal er hinn geðþekkasti maður ásýndum og í viðkynningu. Hann er eins og Eyford lýsir honum í fyrrnefndri grein sinni, „vel meðalmaður á hæð, herðabreiður og þrekvaxinn“. Starfsferill hans ber því einnig vitni, að hann muni vera „þéttur í lund“ eigi síður en að vallarsýn. Væri hann svo skapi farinn, að hann sveigði frá settu marki við hvern mótblástur skoðana-andstæðinga, eða þegar úr vandkvæðum verður að ráða, myndi hann fráleitt hafa reynst jafn fastur í virðingarsessi sínum og raun ber vitni“.

Bandalag Járnbrautarmanna

Merki Bandalags járnbrautarmanna

,,Skal nú farið nokkrum fleiri orðum um hið fjölmenna og útbreidda verkamannafélag – Bandalag Járnbrautarmanna – sem Fljózdal er forseti í, og um hlutdeild hans í vexti og viðgangi þeirra víðtæku samtaka samverkamanna hans, þeim til bættra lífskjara og aukinnar menningar. En í félagsskap þessum eru þeir járnbrautarmenn, sem vinna á verkstæðum, að viðgerð og umsjón brautanna, verkstjórar og stöðvagæslumenn. Gerðist Fljózdal áhrifamaður í Bandalaginu einmitt á fyrstu árum þess, þegar ærin var þörf slíkra samtaka, því að verkamenn á járnbrautum áttu þá við bág kjör að búa, og stóð í tilbót samtakaleysi sín á meðal fyrir þrifum. Beitti hann sér strax í byrjun ótrauðlega fyrir umbótum á launakjörum og starfsskilyrðum járnbrautarmanna og aukinni samvinnu þeirra innbyrðis. Átti sú viðleitni hans framan af ekki upp á pallborðið hjá sumum; því að bæði var það, að hann flutti djarflega málstað starfsbræðra sinna, og kvað jafn einarðlega upp úr um það, sem honum þótti miður fara innan félagsskapar þeirra. En á sínum tíma uppskar hann laun ósérplægni sinnar og stefnufestu. Traust hans og viðurkenning fór vaxandi, og fólu starfsbræður hans honum, eins og að framan hefir verið vikið að, ýmsar trúnaðarstöður. Og þegar hópur áhrifamanna innan Bandalagsins, sem óánægðir voru með þáverandi stjórn þess, fóru að svipast um eftir forsetaefni árið 1922, útnefndu þeir Fljózdal; og hlaut hann, sem fyr greinir, kosningu á ársþingi félagsins í Detroit þá um haustið, er 700 fulltrúar sóttu úr öllum landshlutum Bandaríkjanna og Canada.Hefir hann verið endurkosinn gagnsóknarlaust jafnan síðan, og er það út af fyrir sig hin mesta traustsyfirlýsing á embættisrekstur þessa mikilsvirta landa vors. Þeir, sem til þekkja, munu einnig fúslega játa, að hannsé vel að þeim heiðri kominn, þar sem hann hefir lagt mikið í sölurnar fyrir bætta hagsmuni samverkamanna sinna og félagsbræðra“.

Markmið félagsins

,,Mark og mið Bandalags Járnbrautarmanna er það, eins og þegar hefir verið gefið í skyn, að bæta launakjör og í heild sinni lífsskilyrði félagsmanna og efla starfshæfni þeirra og manndóm, með samtökum og samningum (collective bargaining). Hefir félagsdkapur þessi margfaldlega réttlætt tilveru sína. Árangur þrjátíu ára starfsemi hans er sá, að laun félagsmanna hafa hækkað um helming, og meira að segja þrefaldast hvað snertir suma þeirra. Vinnutíminn hefir verið styttur úr tólf niður í átta klukkustundir, og starfsskilyrði hlutaðeigandi verkamanna ery yfirleitt stórum betri en áður var. Eins og mörg önnur bræðrafélög, er Bandalagið einnig lífsábyrgðarfélag að öðrum þræði. Kringum fimm hundruð þúsund járnbrautarmanna teljast félagar í Bandalaginu, beinlínis eða óbeinlínis, og vinna þeir á járnbrautum í Bandaríkjunum, Canada, Newfoundland, Alaska, og Canal Zone, landsvæðinu umhverfis Panamaskurðinn. Stendur félagið í sambandi við úms önnur verkamannafélög, svo sem hið volduga Samband Amerískra Verklýðsfélaga (The American Federation of Labor), ennfremur „The Dominion Trades and Labor Congress“ og „The Railway Labor Executives´Association“. Samanstendur hið síðastnefnda af forsetum tuttugu og einsverkamannafélaga járnbrautarmanna; eiga félög þessi og gefa út vikublaðið „Labor“ í Washington, sem kunnugir segja, að útbreiddast sé allra vikublaða í Norður-Ameríku. Er Fljózdal einn af ábyrgðarmönnum blaðsins og á sæti í ritstjórn þess, sem fulltrúi félags síns. Hefir blað þetta, eins og vænta má, einkum á stefnuskrá sinni umbætur í atvinnumálum, en fjallar jafnhliða um þjóðfélagsmál almennt. Bandalag Járnbrautarmanna gefur Einnig út myndarlegt mánaðarrit, „Railway Maintenance of Way Employes Journal“, sem vitanlega ræðir frems og helst áhugamál félagsmanna, og flytur fréttir frá hinum fjölmörgu og dreifðu deildum þess. Skrifar Fljózdal ritstjórnargreinar fyrir tímarit þetta; og hefir samið margt ritgerða um þjóðfélagsmál, þjóðareign járnbrauta, launa- og starfskjör verkamanna, bæði fyrir það og önnur málgögn járnbrautar starfsmanna; meðal annars ritstjórnargrein þess efnis, að velferð verkamanna eigi að ganga fyrir gróða vinnuveitenda („Humanity should come before Profits“), sem mikla athygli vakti og mjöghefir verið vitnað í. Vikið var að því, að Bandalagið leitaðist við að ná takmarki sínu með samtökum af hálfu járnbrautarmanna og samningum við vinnuveitendur þeirra, eigendur járnbrautanna. Hefir það komið ár sinni svo vel fyrir borð, að nú eru í gildi atvinnu-samningar milli nefndra málsaðilja á öllum járnbrautum í Canada og 85% járnbrauta í Bandaríkjunum, og er félagið stöðugt að færa út kvíarnar.

Stefna Fljózdals

William Green

Annars kemur stefna Fljózdals í atvinnumálum, og þar með ráðandi stefna félagsskapar hans, ágætlega í ljós í ræðu, sem hann hélt á fundi vinnuveitenda og verkamanna-fulltrúa í Montreal, 24. apríl í ár. Sýnir hann þar með rökum fram á, að gagnkvæm samvinna milli þessara aðilja hafa orðið hvorumtveggja hin farsælasta; að aukin samvinna hafi þar, sem ávalt, leitt til aukins skilnings á báðar hliðar og meiri vinsemdar.Fljózdal er því auðsjáanlega þeirrar skoðunar, að greiðar ráðist fram úr ágreiningsmálum vinnuveitenda og verkamanna með friðsamlegri samvinnu og samningum en með blindu ofstæki. Fylgir hann þó, eins og fyrri, eindregið fram málstað félagsbræðra sinna. Þannig var hann einn af tveim málsvörum þeirra, og annara verkamanna á járnbrautum, á söguríkri ráðstefnu í Chicago veturinn 1932, er rætt var um launakjör þeirra. Sýnir það hvers trausts hann nýtur innan félagsskapar síns og utan. Hann stendur einnig framarlega í fylkingarbrjósti þeirra verklýðsforingja, sem ótrauðir vinna að því, að samþykt verði alþjóðar slysa- og líftryggingarlög í þágu verkamanna (Workmen’s Federal Compensation Law); álítur hann slík lög allt í senn, réttlátari, mannúðlegri og öruggari í garð hlutaðeigenda, heldur en gildandi löggjöf í þá átt. Traus það og vinsældir, sem Fljózdal á að fagna meðal flokksbræðra sinna og annara samherja í hóp verkamanna og velunnara þeirra, kom ágætlega fram í miklu samsæti, er haldið var honum til heiðurs í Chicago vorið 1930, stuttu áður en hann lagði á haf sem einn af fulltrúum Bandaríkjanna á Alþingishátíðina. Meðal aðal ræðumanna við það tækifæri var hvorki meiri né minni maður en William Green, forseti áðurnefnds Sambands Amerískra Verklýðsfélaga, og að auki leiðtogar og fulltrúar fjölda verkamannafélaga járnbrautarmanna. Hlóðust samfagnaðarskeyti að heiðursgestinumúr mörgum áttum; meðal annars bárust honum kveðjur frá atvinnumálaráðherrum Bandaríkjanna og Canada, og frá ekki færri en níu 0ldungaráðsmönnum Bandaríkja. Luku ræðumenn miklu lofsorði á starfsemi Fljózdals í þágu félagsskapar hans og verkalýðshreyfingarinnar amerísku í heild sinni, og fóru jafnframt fögrum orðum um hann persónulega. Einkum var til þess tekið, hversu vel og fagurlega Green forseta Verklýðssambandsins hafi mælst í garð heiðursgestsins. (Smbr. blaðið „Labor“, 6. maí, 1930). Starfsferill Flózdals er því að sama skapi glæsilegur og störf hans hafa orðið ávaxtarík í þarfir stéttarbræðra hans. Ekki er heldur langt að leita skýringarinnar á því, hversvegna hann hefir hafist úr réttri og sléttri verkamannastöðu í mestan virðingarsess meðal samverkamanna sinna. Hann hefir verið trúr sjálfum sér og umbótahugsjónum þeim, sem hann gekk á hönd snemma ævinnar. Og sú trúfesti hefir gjört sögu hans ævintýrið um fátæka sveitapiltinn íslenska, sem varð hæfur og virtur málsvari hundruð þúsunda starfsbræðra hans, járnbrautarmanna í Norður-Ameríku, og enn víðar um lönd“.