Leifur Sigfússon

Vesturfarar

Landið sem Sigfús nam í Nebraska var öldótt, grasi vaxið og tilvalið fyrir mjólkurkýr. Mynd JÞ

Leifur Sigfússon flutti til Nebraska árið 1886 með foreldrum sínum 4 ára gamall og bjó hjá þeim í sveit skammt frá þorpinu Long Pine. Þarna ólst hann upp, hefur hugsanlega gengið einn vetur í skóla og hefði mögulega orðið kúabóndi sem voru örlög flestra drengja sem urðu þarna að manni. En Sigfús, faðir hans, var ekki ánægður, hann hafði reyndar farið um þetta svæði áður, en hann fór vestur árið 1873 til Wisconsin og var í leiðangrinum sem Íslendingar í Milwaukee sendu til að kanna lönd í Nebraska árið 1874. Frá Minnesota bárust Sigfúsi fregnir frá vinum í Duluth, sem hvöttu hann til að koma þangað og setja upp kúabú og það gerði hann. Þessi breyting varð Leifi til happs því úr sveitasælunni í Nebraska fór hann á vit tækifæranna í örtvaxandi bænum Duluth. Þar lauk hann grunn- og miðskólanámi og frekari menntun átti hug hans allan.

Kennsla, langskólanám, atvinna

Bók Leifs, Housing by Employers in the United States, kom út 1920.

Leifur lagði stund á fornmálin, grísku og latínu í Duluth, innritaðist í Minnesota háskólann og lauk þaðan B. A. prófi árið 1905. Hann ákvað að kenna næstu árin og kenndi latínu og grísku í miðskólum víðs vegar í Minnesota m.a. Fergus Falls High School á árunum 1906-1909. Hann hugði svo á frekara nám, flutti austur í höfuðborgina Washington þar sem hann las lög við Georgetown Law School og lauk þaðan prófi í lögum árið 1915. Atvinnumál, hvers konar, heilluðu Leif um þær mundir og fagnaði því tækifæri sem honum bauðst sem bókavörður hjá Vinnumálaskrifstofu Bandaríkjanna og seinna sem aðstoðarritari Vinnumáladeildarinnar. Hann var ráðinn deildarstjóri og ritstjóri tímaritsins International Labor Review á Alþjóðavinnumála-skrifstofunni í Genf í Sviss á árunum 1921-23. Það starf leiddi til stöðu forstjóra Washingtondeildar Alþjóðavinnumála-skrifstofunnar árin 1924- 1938. Á árunum sem eftir fylgdu ferðaðist hann vítt og breitt um Bandaríkin og hélt ótal fyrirlestra um atvinnumal í háskólum, hjá ýmsum stofnunum og félögum. Hann var talinn einn fremsti sérfræðingur Bandaríkjanna á sviði atvinnumála. Hann skrifaði og gaf út ótal bækur og greinar um efnið allt frá 1920.