Spy Hill

Vesturfarar

Spy Hill í Saskatchewan Mynd villageofspyhill.ca

Sagnir frumbyggja um ástæðu nafnsins Spy Hill í Saskatchewan eru nokkrar en eftirfarandi þrjár hafa lifað lengst. Sú fyrsta segir að hæðin hafi verið notuð til að njósna um ferðir óvinveittra ættbálka og einnig vísunda. Önnur er fræg þjóðsaga frumbyggja: Hefnigjörn eiginkona, sem hafði yfirgefið ættbálk sinn, lánaðist að hefna sín á eiginmanninum, höfðingja ættbálksins. Hún safnaði liði og stráfelldi ættmenn sína en komst svo að því að eiginmaðurinn hafði forðað sér upp á hæðina. Þar kom hún honum á óvart og rak hann á hol. Sú þriðja segir sögu hóps Cree frumbyggja sem slógu upp búðum við hæðina. Einn úr ættbálki Sioux var sendur til að stela hestum þeirra. Einn úr hópi Cree manna sá hann og gekk frá honum. Hann kom til hinna sem sátu við varðeld og sagði: ,,Kapakamaou“ sem merkir :,,Ég drap njósnara“ og eftirleiðis var hæðin kölluð Spy Hill.

Kortið sýnir þrjár byggðir í suðausturhluta Saskatchewan. Syðst er Hólarbyggð og þar þorpið Tantallon, þá Spy Hill og loks svokölluð Vallarbyggð sem stundum var kölluð Geraldbyggð.

Landnám: Íslendingar voru með þeim fyrstu til að kanna svæði nærri hæðinni og voru svokallaðir Olson bræður fyrstir en þetta voru þeir Ólafur og Einar, synir Einars Ólafssonar og Guðbjargar Ólafsdóttur úr Leirársveit. Þeir fluttu vestur til Winnipeg með foreldrum sínum árið 1887 og tók fjölskyldan lestina til Langenburg í Saskatchewan. Þaðan var svo haldið áfram á hestvögnum í Þingvallabyggð. Þar voru fyrir hjónin Ólafur Guðmundsson og Sigþrúður, kona hans en hún var náskyld Guðbjörgu.  Einar og Guðbjörg fóru til baka, til Manitoba og námu land í Russell. Þar lést Einar árið 1900 en Guðbjörg fór þá í Þingvallabyggð og með sonum sínum suður á land nærri Spy Hill árið 1903. Báðir námu lönd og bjuggu þar alla tíð með konum sínum og börnum. Ólafur tók virkan þátt í uppbyggingu samfélagsins, sat m.a. í skólaráði um árabil. Önnur íslensk fjölskylda settist að við Spy Hill árið 1903, það var Ólafur Árnason (Austmann) frá Mjóafirði eystri og kona hans Geirlaug Jónsdóttir. Þau fluttu vestur sama ár, fóru í Þingvallabyggð þar sem þau bjuggu þar til þurrkaskeiðið hófst, þá settust þau að í Russell, líkt og Einar og Guðbjörg. Sýnir Ólafs, þeir Filippus og Olgeir námu báðir lönd við Spy Hill, eignuðust þar fjölskyldur og bjuggu í buggðinni alla tíð.  Árið 1910 var byggðin orðin nokkuð stór og þá var stofnað sveitarfélag. Lítið þorp varð til sem líka heitir Spy Hill varð til um líkt leyti og fékk full þorpsréttindi árið 1913. Þar var skóli rekinn um hríð.