Jónas Þór stofnaði fyrirtækið Ísbjarma ehf. árið 2017 og sama ár hófst vinna við www.vesturfarar.is
Jónas lauk prófi frá Háskóla Íslands árið 1977 og hélt áfram námi í Manitobaháskóla sama ár. Lauk þar MA námi í sagnfræði árið 1980. Lokaritgerð hans fjallaði um trúardeilur séra Jóns Bjarnasonar og séra Páls Þorlákssonar í Nýja Íslandi. Hann var ráðinn ritstjóri Lögbergs-Heimskringlu og kenndi jafnframt í hlutastarfi við íslenskudeild Manitobaháskóla. Var svo lánsamur að kynnast og starfa með Haraldi Bessasyni um árabil en fáir þekktu íslenska samfélagið í Norður Ameríku betur en hann.
Saga Íslendinga í Vesturheimi varð honum strax afar hugleikin og fjallaði hann um ýmsa kafla hennar í ræðu og riti á þessum árum. Ferðaðist vítt og breitt um kanadísku sléttuna til funda við heimafólk, tók þátt í árlegum viðburðum Íslendinga svo sem þjóðræknisþingum, þorrablótum, 17. júní hátíðum og Íslendingadögum.
Jónas rannsakaði og skrifaði sögu Íslendingadagsins á Gimli og gaf Íslendingadagsnefndin bókina út á ensku árið 1989. ISLENDINGADAGURINN -Saga Islendingadagsins.
Árið 1998 hlaut hann ríkistyrk til að skrifa á ensku bók um landnám Íslendinga í Vesturheimi. Bókin Icelanders in North America: The First Settlers var gefin út af Háskólaútgáfu Manitobaháskóla vorið 2002 og árið 2010 kom annar styrkur og þá var efnið stytta Jóns Sigurðssonar í Winnipeg. Varðinn í vestri kom út hjá Ormstungu í Reykjavík vorið 2011. Monument in Manitoba var ensku titill þessarar sögu og kom út hjá forlagi í Winnipeg sama ár.
Aðrir höfundar:
Jón Hjaltason, sagnfræðingur á Akureyri skrifar um Ísland á 19. öld og upphafsár 20.aldar. Hann hefur skrifað sögu Akureyrar og nýverið bókina Káinn – Fæddur til að fækka tárum
Harvey Thorleifson er íslenskrar ættar, fæddur í Baldur í Manitoba. Hann lauk prófi í landafræði og líffræði frá Winnipegháskóla, M.A. prófi frá Manitobaháskóla árið 1983 og loks doktorsprófi í jarðfræði frá Coloradoháskóla. Hann kennir við Minnesotaháskólann í Minneapolis. Harvey skrifar um jarðsögu svæða í Norður Ameríku er varða íslensk landnám í álfunni.
Um vefinn:
Undanfarin ár hefur hópur áhugafólks um íslenska vesturfara unnið að mótun og undirbúningi gríðarlega umfangsmikils verkefnis, sem ætlað er að varðveita merkan menningararf vesturferðanna og stórefla áhuga Íslendinga og afkomenda vesturfaranna á þessari sameiginlegu sögu og arfleifð.
Verkefnið byggir á mótun umfangsmesta gagnagrunns um vesturfara og Íslandstengsl afkomenda þeirra sem ráðist hefur verið í. Hann verður öllum aðgengilegur á netinu. Vefsíðan, sem hýsir grunninn, verður miðstöð fróðleiks, upplýsinga og fræðslustarfs. Hún sinnir öllum þáttum er varða tengslin við Ísland og sameiginlega, sögulega arfleifð beggja vegna Atlantsála.
Eitt það dýrmætasta sem vesturfarar fóru með vestur um haf var íslenskur menningararfur. Öldum saman dró lítil þjóð fram lífið í sveitum landsins. Í einangrun og fámenni varðveitti hún og efldi íslenska tungu, geymdi sögur fortíðar og skráði.
Þegar vesturfarar, einhvers staðar í Vesturheimi , reyndu að fóstra með börnum sínum sömu ást, sömu tilfinningar og þeir sjálfir báru til ættlandsins og íslensku þjóðarinnar, höfðu þeir fá önnur úrræði en að segja og lesa sögur sem lýstu mannlífinu á Fróni.
Mannlífið á 19. öld í sveitinni heima, lífsbaráttan sem þar hafði verið háð öldum saman, var það helsta frá Íslandi sem vesturfarinn hafði að segja börnum sínum. Ísland varðveitti bernskuna, hin órjúfanlegu tengsl sérhvers manns við fæðingarstað sinn. Rætur vesturfarans og afkomenda hans liggja þar, í sveitum landsins.
Ást Vestur – Íslendinga á landi og þjóð er sérstaks eðlis. Hana skortir suma þá þætti sem mynda ættjarðarást á vorum dögum hér á landi. Praktísku þættirnir hurfu smám saman úr þessari tilfinningu vestanhafs en rómantísku þættirnir urðu þeim mun sterkari. Tilfinningin er því nær eingöngu rómantísks eðlis sem sést t.a.m. á því að fögnuður þeirra yfir öllum sóma, allri virðingu, allri frægð lands og þjóðar margfaldast. Einar Hjörleifsson Kvaran lýsti þessu svo : ,,Ættjarðarást Vestur Íslendinga er planta, sem á rætur innst í sál mannanna, á því sviði sálarlífsins, þar sem flest það grær, sem mönnum er bezt gefið, indælast og elskulegast.‘‘
Þessum einstaka kafla Íslandssögunnar verður gerð rækileg skil á vefsíðunni þar sem hann varðveitist um ókomna tíð fyrir komandi kynslóðir.
Helstu markmið:
- Grunnur vefsins hýsir tæplega 20 þúsund nöfn vesturfara og afkomenda þeirra á tímabilinu 1854-1920.
- Grunnur vefsíðunnar tengir vesturfara við byggðir Íslendinga í Norður Ameríku, þ.e. hvert fóru íslenskir vesturfarar.
- Vefsíðan fjallar ítarlega um íslenskt þjóðlíf 19. aldar og orsakir vesturferða.
- Vefsíðan segir sögu íslenskra vesturfara og landnáms þeirra vestanhafs. Hvers vegna var tiltekinn staður valinn og hvernig vegnaði landnámsmönnum.
- Vefsíðan lýsir mannlífi og menningu hverrar íslenskrar byggðar í N. Ameríku.
- Vefsíðan lýsir atvinnuháttum í bæjum, borgum og sveitum vestra.
- Vefsíðan varðveitir alls kyns upplýsingar er varða vesturferðir frá 1854 til 1914, svo sem ljóð, myndir, frásagnir, annála o.fl.
- Einn þáttur vefsins , Ritgerðir og fræðigreinar hýsir verk fræðimanna, rannsóknir þeirra og greinar.