Halldóra Guðjónsdóttir flutti vestur um haf árið 1890 með manni sínum, Jóhanni Óla Björnssyni. Bróðir hennar, Ásgeir, hafði farið vestur árið 1883 og var hann sestur að í Vatnabyggð 1907 árið sem Halldóra og Jóhann flytja þangað frá Winnipegosis. Hún nefnir hann í frásögninni hér að neðan, sem hún skrifaði á ensku árið 1955, þremur árum fyrir andlát sitt. Hér fylgir lýsing hennar á íslensku:,, Ég kom hingað í Norðra hérað 1. júní, 1907 með manni mínuum, J. Óla Björnssyni og fjórum börnum okkar, Edward, Siggu, Kristínu og Sigrúnu sem voru á aldrinum sex til sextán ára. Við komum frá Winnipegosis í Manitoba. Þrjú yngstu börnin komu með mér í lest til Wadena, eins langt og teinarnir náðu þá. Eiginmaður minn og sonur okkar Edward, komu degi seinna með gripaflutningalestinni sem flutti skepnurnar okkar. Þeir urðu að hafa þennan hátt á flutningunum, bóndinn varð að gefa skepnum hey og vatn meðan á ferðinni stóð. Þegar við komum til Wadena, tók Ásgeir bróðir minn á móti okkur sem sest hafði að í Vatnabyggð fyrir rúmu ári. Farartæki hans var vagn sem hestar hans drógu og ferðuðumst við á þennan máta þær þrjátíu og fimm mílur (56 km) á land hans í byggðinni. Maður minn og sonur komu svo með gripina gangandi nokkrum dögum síðar. Við gistum fyrst um sinn hjá Ólafi Hall (Innsk. Ólafur Hallgrímsson frá Fremstafell í Kinn) í litlum bjálkakofa þar sem við borðuðum og dvöldum á daginn en sváfum í tjaldi við hliðina. Um haustið fluttum við í tveggja herbergja bjálkakofa sem Bergur Davíðsson (Innsk. sonur Davíðs Guðmundssonar og Margrétar Ingjaldsdóttur sem fluttu úr Skagafirði til Nýja Íslands árið 1876) hafði byggt þegar hann fyrst kom í byggðina. Um veturinn hjuggu maður minn og eldri sonur tré og unnu bjálka í okkar kofa. Hann reistu þeir um vorið á okkar landi og við fluttum þangað en sváfum áfram í tjaldinu á meðan nýtt íbúðarhús okkar var smíðað. Við fluttum í það um haustið í tæka tíð fyrir fyrstu frost. Við þurftum að glíma við margs konar erfiðleika, vinnu var aldrei lokið. Tæki og tól voru fá ef nokkur og þægindi ekki til. Landið varð að hreinsa og brjóta, girðingar reistar, brunnar grafnir og mikið hey unnið til að fæða gripina um veturinn. Áður en girt var fóru gripirnir víða, iðulega þurfti lengi að leita þeirra. Sléttu- og kjarreldar voru tíðir á haustin þegar óskorið gras varð að sinu, oft barðist öll fjölskyldan við elda til að bjarga heimilinu, heyi, fjósi og gripum. Fyrstu tvo veturna voru engir skólar, ein eða tvær verslanir í héraðinu voru fátæklegar svo oft varð að ferðast til Wadena eftir vistum. Slíkar ferðir voru á hestvögnum og mjög erfiðar einkum á veturna. Þrátt fyrir fátækt, erfiðleika hvers konar, voru frumbýlingsárin ánægjuleg. Nágrannar allir hjálpsamir vinátta meðal landnemanna góð og varanleg. Þegar tími gafst frá vinnu söfnuðust landnemar saman í lautarferðir á sumrin, á dansleiki á veturna eða sleðaferðir. Góður andi og von voru ætíð til staðar, allir höfðu óbilandi trú á byggðinni og okkar góða landi.“