Flestir Íslendingar sem vestur fluttu til Ameríku á Vesturfaratímabilinu 1870-1914 lögðu kapp á að halda sambandi við ættingja og vini á Íslandi. Þeirra eina leið var að skrifa sendibréf og á tímbilinu umrædda skiptu þau þúsundum sem send voru heim. Menn voru misjafnlega duglegir að skrifa af ýmsum ástæðum en nokkrir voru sérstaklega iðnir við skriftir og má fremstan telja Stephan G. Stephansson og án þess að geta fullyrt nokkuð þá eru vísbendingar um að Jón Jónsson frá Mýri í Bárðadal hafi ekki staðið honum langt að baki. Árið 2006 var gefin út einstaklega vönduð bók, Leitin að landinu góða, hér er um að ræða safn bréfa Jóns sem hann sendi heim frá Kanada á árunum 1903-1934. Ritnefnina skipuðu Heimir Pálsson, Jón Aðalsteinn Hermannsson og Jón Erlendsson. Bréfin eru flest til Aðalbjargar, dóttur Jóns, sem eftir varð á Mýri. Þau eru sérstaklega fróðleg, augljóst að Jón reynir að draga upp eins skýra mynd af daglegu lífi hans sjálfs, systkina Aðalbjargar, sem fóru með honum vestur svo og afabörnum sem voru fjölmörg. Þá er í bréfum hans góð lýsing að staðháttum, atvinnu manna og kvenna, námi barnanna hans svo og barnabarna. Brotið úr bréfi sem birt er hér að neðan hefur eflaust verið eitt erfiðasta viðfangsefni Jóns, því ekki aðeins þarf hann að greina frá andláti Guðnýjar, dóttur sinnar, heldur og segir hann frá örlögum barnanna hennar og Indriða í kjölfarið.
Box 98, Wynyard, Saskatchewan, Canada
15.- 22. maí, 1924
,,Elsku dóttir.
Síðasta bréf sent 23. apríl. Ekki er ég vonlaus um að fleiri séu bréfin mín til barnanna minna gleiðiefni á einhvern hátt. En og mörg eru hin, sem hyggðarefni hafa flutt, þó dálítil bót að í lengstu lög hefi ég sýnt að ég reyni að leita að sólskinsblettum, jafnvel í skæðustu skrugguveðrum. Og finn þá oft mörgum framar. Af því ég hefi í strangara strítt en fjöldinn. Og enn hefi ég þurft á þessu að halda. Þann 29. apr. tók Guðný systir þín léttasótt. Og klukkan 10. f.m. kom Sólveig ljósmóðir og 10 1/2 dr. Jacobson. Klukkan nálega 5 e.m. tók hann barnið öfugt, fæturnir á undan. Nokkurri stundu síðar fékk hún blóðlát, sem þó stilltist. Og virtist henni líða vonum betur. En 3. þ.m. kom dr. J. og blóðlátið ágerðist seinni partinn, svo að hann var kallaður aftur og kom litlu eftir kl. 12 um miðnætti. Þá var henni að miklu blætt út og andaðist nálega 10 mínútum síðar. Börnin voru sofnuð uppi á lofti nema Hulda (Innsk. JÞ. dóttir Guðnýjar Jónsdóttur). Rétt áður en dr. J. kom fór ég upp á loftið að vitja um þau, því ekkert var unnt að gera og vildi ég forða henni því að síðasta hljóðið sem hún heyrði væri barnsgrátur. Norman (Innsk. JÞ. næst yngsta barn Guðnýjar) þá vaknaður þegjandi í rúminu sínu svo ég settist hjá honum. Að þessu hafði hún eins óskerta stillingu og skynsemd og hugsast gat. Talaði dálítið um það sem fram hlyti að koma. Að ég væri svo vanur þessu að ég mundi ekki sýna óstillingu. Og að ekkert væri hægt að gera fyrir sig framar nema að vera góð við börnin. Eftir að læknirinn var kominn hafði hann byrjað einhverjar tilraunir og mér heyrðist ég heyra sársaukahljóð en gat verið grátur Huldu eða annað, eyrun sljó eins og þú veist. Kristjana, systurdóttir þín (Innsk. J.Þ. Áslaug) kom þann 30. Og var til 4. Þá kom Áslaug og var þar til 12. Þær jafnöldrurnar (Inns. J.Þ. ekki vitað hvað Jón á hér við, Kristjana var 17 ára, óljóst hvort jafnaldra hennar væri á staðnum.) reyndust afbragðsvel, svo samtaka í velvild, nærgætni og stillingu. Það er góður tvinningur í Kr. úr ömmum hennar, því fleiri þátta gæti eitthvað. Auðvitað hefði verið ánægjulegra að æfð hjúkrunarkona hefði verið við hendina alltaf, en líkast hefði allt komið fyrir eitt. Hún var búin að líða og stríða svo mikið. Og hugboðið um að svona færi svo ógn ríkt. Hún vissi fleira fyrir en aðrir sem ég hefi kynnst. Að sjá að hún væri orðin vanfær var mér sönn harmsaga, því langmest nautn var mér návist hennar. Á sunnud (þ.4.) komu nokkrir sem létu sig þetta mestu skipta. Og þann 6. var drengurinn skírður Baldur Guðni og húskveðja flutt af séra H. Sigmar (innsk. J.Þ. Séra Haraldur Sigmar). Ég svo heima hjá börnunum, (nema Huldu, sem fór til Kandahar), og hjúkrunarkona frá Wynyard, miss Lory, sem kom rétt eftir andlát Guðnýjar og var það góð sending. Atkvæðakona, tilfinninga-rík og þrekmikil. Og svo ,,Lóla“ sem ég gat um fyrr (Innsk. J.Þ trúlega Sólveig ljósmóðir). Þær fóru 7. síðdegis og 10.
Hér er rétt að gera hlé og greina frá því að nýfæddur Bjarni Guðni var 11. barn Guðnýjar með Indriða Skordal, Helgu átti hún á Íslandi árið 1903 með Jóni Þorvaldssyni. Börnin voru 1. Hulda f. 1911 2. Björn Jón f. 1912 3. Haraldur Guðmundur f. 1914 4. Ásgeir Halldór f. 1916 5. Kjartan f. 1917 6. Baldur f. 1918 7. Kristjana Helga f. 1919 8. Hallgrímur Jóhann f. 1919, tvíburi 9. Njáll f. 1920 10. Jón Norman f. 1922 11. Baldur Guðni f. 1924. Hvað varð um börnin? Best að gefa Jóni aftur orðið.
,,Niðurstaðan var að tvístra öllu. Og þann 10. fóru þeir Haraldur og Kjartan með Stgr. (innsk. J.Þ. Steingrími Jónssyni) og konu hans. Sem systir þín sagði að bæri af öllum sem hún hefði kynnst að umgangast börn. Og það er rétt dæmt. Enda bera dætur þeirra af öðrum stúlkum hér að sumu, einkum sú yngri að okkur G. fannst. Kristjana fór með Hermanni (innsk. J.Þ. bróðir Guðnýjar) og hans hóp. Okkur Indriða þótti leitt að bæta á þann bagga, sem þó var of þungur. En Herm. vildi þetta endilega. Og Stgr. studdi það. Mun nafnið hafa ráðið nokkru. Og svo mun víðar vera, t.d. hjá frænku (innsk. J.Þ. Hallfríður Jónsdóttir, mágkona Jóns) – Þau Hulda og Hallgrímur fóru með Jóni B. Jónssyni (innsk. J.Þ. Jón Björnsson Jónssonar, prestur og forseti Kirkjufélagsins íslenska) ) og Fíu, eða Stefíu frænku ykkar. Það var mikilvert fyrir Indriða að þau færu þangað. Og hann hefir þat helst athvarf. Ráðinn að vera þar meðan Jón fer til Argyle á kirkjuþing í sumar, og verður sjálfsagt meira, því handhægastur var Jón honum af mönnum hér, og svo Jónassons (Þorsteins synir). Þann 11. sóttu þau Björn J. Hjálmarsson og Sigrún, dóttir Friðriks Friðrikssonar og Valgerðar Björnsdóttur, Norman, og mig með til að gera hann hagvanan. Því almennt var álitið að hann hengi við mig heldur fast. Vafasamt að um kinnar mínar hafi mjúkar verið strokið af barni, nema Siggu í apríl og maí 1900. (Innsk. J.Þ. Sigríður, dóttir Jóns eflaust huggað hann þegar Kristjana, kona hans lést). Petrea Jónasson (Innsk. J.Þ.: Dóttir Þorláks Jónassonar) kom frá Winnipeg til þess að bjóða hjálparhönd. Ég mun hafa getið þess að Fríða systir h. (Innsk. J. Þ.: Hólmfríður) fór til Winnipeg í vetur, og skal nú því bætt við að hún sýndi Guðnýju og börnunum mesta vinsemd síðustu misserin. Var búin í vetur að kaupa nokkuð af fötum (með niðursettu verði, sem hér er títt) og ætlaði að færa þeim. En þá fékk hún að vita að hún þyrfti ekki að koma vestur. Nú kom Petrea með fötin. Og óskuðu þær að sér yrði trúað fyrir þeim Njáli og Normann, sem Fríða vissi að var svo kært í milli. Njáll var óráðstafaður og hugsaði gott að finna Fríðu. En þau hér (Innsk. J.Þ. Björn Hjálmarsson og kona hans) voru búin að biðja um Normann og fremur líklega talað um að það mundi þegið, þangað gat ég fylgt honum og gert hann kunnugan, en vantaði fargjald til Winnipeg. Með Kristjönu, sem lengi hafði sofið hjá Njáli, var P. fús að fara. En það gat ekki orðið. Og þann 12. fór Njáll einn með Petreu og var sagður vel ánægður. Honum bregður mjög til beggja ætta. Vona þingeykst sólskin sigri. Áslaug var samferða til Wynyard. Sagði að hann hefði orðið því skrafhreifnari sem meir fækkaði og legið vel á honum. Tvö framboð komu um stað fyrir þann yngsta, en einhverjir höfðu mjög á móti þeim, einn þessum, annar hinum. Svo niðurstaðan var sú að Áslaug tæki hann um tíma ef betri staður kynni að bjóðast. Hann var magur og léttur, ekki hraustur hvað melting snerti, hafði niðurgang fyrst. Minnir á laglegri systkinin. Augun heldur stór og óvenjufljótt beitt eftir hljóði. Áslaug vön að fara með börn og þau öll lifað. Indriði hefir nóg að bera þó enginn gæti brugðið honum um að hann hafi valið þessum dreng óvalinn stað eða óálitlegan.“