Það er óhætt að segja að annar áratugur 20. aldar hafi verið einn sá merkasti í vesturfarasögunni því á árunum 1910 – 1920 sameinuðust íslenskir vesturfarar um gervalla Norður Ameríku um málefni sem varðaði ekki aðeins þá sjálfa heldur og íslensku þjóðina. Árið 1910 var ákveðið að minnast Jóns Sigurðssonar sérstaklega á hundrað ára fæðingarafmæli hans 17. júní, 1911. Skorað var á íslensku þjóðina að taka þátt í fjársöfnun vegna gerðar styttu af Jóni sem afhjúpuð yrði þann dag í Reykjavík. Þegar spurnir af þessu bárust vestur um haf ákváðu fáeinir einstaklingar í Winnipeg að kanna almennan áhuga í borginni og kölluðu saman fund í nóvemberbyrjun. Fundurinn var vel sóttur og var samþykkt að undirbúa fjársöfnun meðal Íslendinga í Vesturheimi. Nefnd var sett saman um málið, sem tókst einstaklega vel að undirbúa söfnunina. Ritsjórar Lögbergs og Heimskringlu samþykktu samstarf og þá kom snilldar hugmynd frá nefndinni. Var ákveðið að framlag sérhvers einstaklings næði að hámarki einum dal og skyldi gjaldkeri nefndarinnar senda vikulega lista til ritstjóranna yfir gefendur. Nú skal gera langa sögu stutta. Í öllum byggðum Íslendinga vestanhafs tóku menn þátt og voru nöfn allra birt samviskulegaí blöðunum. Upphæðin sem safnaðist nam $2.806.35 og þegar kostnaður var frádreginn nam upphæðin $2.795.27 eða 10.415 krónum. Framlag þetta vakti eðlilega mikla athygli á Íslandi, sá mikli einhugur sem skapaðist meðal Íslendinga vestanhafs sýndi sanna föðurlandsást og því afréð minnisvarðanefndin á Íslandi að láta gera afsteypu af styttu Jóns á Austurvelli. Var sú send vestur og prýðir í dag þinghúsgarð Manitoba í Winnipeg. Skammt var stórra högga á milli því 1913 var bráðabirgðafélag um kaup á gufuskipi til Íslands í sambandi við 19 einstaklinga í Winnipeg og óskaði eftir aðstoð við fjársöfnun meðal Vestur Íslendinga vegna fyrirhugaðra kaupa. Skoðum upphafið í Winnipeg.
Eimskipafélag Íslands og Vestur Íslendingar
Snemma árs 1913 sendi bráðabirgðastjórnin, sem vann að stofnun íslensks skipafélags hlutaútboðsbréf til 19 einstaklinga í Winnipeg. Þar segir m.a. ,,Vér leyfum oss nú að biðja yður, að gangast fyrir því ásamt nokkrum öðrum, sem vér höfum skrifað um sama efni, að stofnuð verði nefnd meðal Íslendinga í Winnipeg til þess að hafa forgöngu um fjársöfnun til félagsins meðal Íslendinga í Canada og Bandaríkjum Norður-Ameríku.“ Viðbrögð voru jákvæð og bæði blöðin í Winnipeg birtu hlutaútboðsbréfið og ofangreinda áskorun. Heimskringla birti svo eftirfarandi grein, Siglingamálið, þann 24. apríl. ,,Í síðasta blaði var birt áskorun til Íslenzku þjóðarinnar frá nokkrum mönnum í Reykjavík, að kaupa hluti í félagi því, sem þar um getur og ætlað er til þessað annast um alla verzlun Íslendinga við umheiminn. Enginn vafi er á því, , að þetta er jöfnum höndum þarflegasta og þjóðlegasta fyrirtækið, sem Íslendingum hefir nokkurntíma hugkvæmzt, og sem framtíðarheill allrar íslenzku þjóðarinnar krefst að sem allra fyrst komist í framkvæmd. En því miður er svo að sjá af meðfylgjandi bréfi, að Íslendingar hafa ekki von um að geta fengið nauðsynlegt stofnfé að öllu leyti frá Íslendingum á ættjörðinni og þess vegna skora þeir nú á Vestur-Íslendinga að taka hluti í þessu eimskipa fyrirtæki. Forstöðunefnd þessa málefnis á Íslandi hefir ritað ýmsum mönnum hér í borg samhljóða bréf á þessa leið:
„Háttvirti herra: –
„Nokkrir menn af ýmsum stéttum hér í Reykjavík hafa ákveðið, að gera tilraun til að stofna íslenzkt eimskipafélag. Fyrirkomulag það, sem vér höfum hugsað oss á slíkum félagsskap, sjáið þér á meðfylgjandi hluta-útboðsskjali. Félagsstofnun þessi er sprottin af þeirri mjög útbreiddu skoðun manna hér á landi, að bráðnauðsynlegt sé fyrir verzlun Íslands og viðskifti, að vér eigum sjálfir yfir skipum að ráða til flutninga að landinu og frá því, skoðun, sem á síðustu tímum hefir gagntekið svo hugi manna, að menn telja að ekki megi draga lengur tilraun þá, sem hér er getið. Með því að vér teljum hér ennfremur um að ræða fyrirtæki, sem geti orðið arðvænlegt, en hinsvegar má búast við, að erfiðlega gangi, að afla hér á landi alls hlutafjár þess, er vér teljum nauðsynlegt fyrir fyrirtækið, enda auk þess æskilegt, að sem mest fé fáist til þess að sem minst þurfi að taka að láni í útlöndum. En bankarnir hér á landi engis megnir í þessu tilliti, þá höfum vér ákveðið, að snúa oss til landa vorra vestan hafs og bjóða þeim að taka hluti í félaginu. Vér höfum ekki séð oss fært, að reyna að svo stöddu til þess að útvega meira fé en það, sem þarf til að stofna félagið með tveim skipum, þótt þau vitanlega geti hvergi fullnægt flutningaþörf landsins; en það er von manna, að vaxa svo, að vér verðum færir til, að annast einir siglingar til landsins, og því fyr, sem það getur orðið, því betra. Vér leyfum oss að biðja yður að gangast fyrir því ásamt nokkrum öðrum, sem vér höfum skrifað um sama efni, að stofnuð verði nefnd meðal Íslendinga í Winnipeg til þess að hafa forgöngu um fjársöfnunina til félagsins meðal Íslendinga í Canada og Bandaríkjum Norður-Ameríku. Hlutaboðsbréfið biðjum vér yður að prenta í heiðruðu blaði yðar, ef þess er kostur. Í öruggri von um mikilverða aðstoð yðar, Virðingarfylst, Eggert Claessen,
Sveinn Björnsson,
Thor Jensen,
Jón Gunnarsson,
Jón Björnsson,
Ó. G. Eyjólfsson.“
,,Það er ljóst af þessu bréfi, að forgöngumenn þessa máls gera sér ekki háar vonir um, að hafa svo mikið fé saman á Íslandi, að þeir fái myndað félag það, sem þeir hafa í hyggju. Þess vegna setja þeir traust sitt að miklu leyti á þær undirtektir,sem Vestur-Íslendingar veita málaleitan þeirra til hlutakaupa í hinu nýja fyrirtæki þeirra. Það þarf naumast að taka fram að Vestur-Íslendingar muni finna sér bæði ljúft og skylt, að sinna málaleitun Austur-Íslendinga að einhverju leyti, hvort sem það verður gert með beinum hlutakaupum eða á einhvern annan hátt, sem eigi veitti þeim síðri styrk, enda jafnvel meiri en um er beðið, og gerði þeim mögulegt að byrja siglingar á eigin reikning, þó sú byrjun hljóti að verða afar fátækleg í fyrstu, og til lítils annars en að sýna heiminum viljann til sjálfstæðis, jafnvel þótt máttinn vanti. Það er auðskilið í boðsbréfinu framangreinda og útreikningum þess, að Austur-Íslendingar gera sér enga von, að hafa saman nema lítið fé á Íslandi, og að þeir búast við, að byrja siglingastarf sitt með svo miklum skuldum, að nemi tugum þúsunda króna á ári, og að auki veðsetningu alls þess fjár, sem þeir sjálfir kunna að hafa saman á Íslandi til þess að byrja með siglingastarfsemina.“
Vangaveltur Heimskringlu
Áfram segir Heimskringla 24. apríl, 1913: ,,Þessir veðsölu og stórskulda ábaggar á félaginu strax í byrjun gefa litla von um gróðavænlegt starf, nema það tvennt sé trygt að framkvæmdastjóri félagsins verði afar-ötull og stjórnsamur og með fullri þekkingu á öllum hinum ýmsu greinum þess starfs, sem hann tekur að sér; og í öðru lagi, að stjórn Íslands veiti þessu félagi stórum öflugri styrk, en hún hefir áður veitt nokkru því félagi, sem halfið hefir uppi verzlunar-siglingum til landsins, enda ber henni brýn skylda til þessa, þar sem um jafn þjóðlega og ómissandi stofnun er að ræða. En merkilegt er það, að um þetta tvent er nálega alls ekkert sagt í boðsbréfinu. Að vísu er það þsr tvívegis tekið fram, að þeir, sem gangast fyrir þessari félagsmyndun, hafi trygt sér þann mann fyrir framkvæmdastjóra sem þeir beri tiltrú til, og fyrir það er þeim ekki þakkandi. En þeir forðast, að gefa væntanlegum hluthöfum nokkra hugmynd um hver sá maður sé, og fela að því leyti það ljós undir mælikeri, sem ætti að vera skært ljós á vegum væntanlegra hlutakaupenda. Ekki heldur er nein upplýsing um það gefin, að hve miklu leyti stjórn Íslandsmuni viðbúin að styrkja félag þetta. Þetta hvorttveggja hefði átt að vera skýrt og greinilega tekið fram í boðsbréfinu, þar hefði átt að segja frá, hver sé hinn væntanlegi framkvæmdar-stjóri, og að hve miklu leyti og á hvern hátt landsstjórnin ætli að styrkja félagið, hvort heldur með því að ábyrgjast sanngjarnan ársarð allra hluta, sem lagðir verða í félagið og vaxtagreiðslu á því láni, sem ráðgert er að taka til að koma fyrirtækinu á stofn, – eða með beinu árstillagi, er nemi meiru en vöxtum af höfuðstóli og veltufé. En það er skýrt tekið fram í boðsbréfinu, að eftir því sem menning landsmanna hefir vaxið og framför landsins þokast áfram og upp á við á síðari árum, eftir því hafa siglingar til landsins og umhverfis það þroskast niður á við. „Nú eru kjör vor þrengri, en vér höfum átt við að búa um langan tíma. Hamborgar ferðirnar hætta. Suðurlandsbáturinn úr sögunni. Fækkað viðkomustöðum stranferðaskipanna“, segir boðsbréfið, „og flutningsgjöld öll hækkuð upp í óeðlilegt hámark“. Það leynir sér ekki, að hér er þess full þörf, að Vestur- Íslendingar hjálpi Austur-Íslendingum og það teljum vér víst, að þeir verði fúsir að gera; að eins verður vandlega um það að hugsa, hvernig þeirri hjálp verði hagað, svo að hún verði Austur-Íslendingum að sem mestu liði. Og Heimskringla mælir með, að þeim íhugunum sé ekki um of hraðað, því vér teljum enga ástæðu til þess að flýta þessu máli, að ákvæði vort sé bundið við fyrsta júlí næstkomandi, eins og boðsbréfið tekur fram. Vestur- Íslendingar geta verið þess fullvissir, að hver sú hjálp, sem þeim eftir nákvæma íhugun kemur saman um að veita Austur-Íslendingum, verður þakksamlega þegin, þó hún komi löngu eftir 1. júlí. – Hitt er meira um vert, að hjálp Vestur-Íslendinga verði þannig vaxin, að hún verði í samræmi við efnalega möguleika vora hér og til uppörvunar þeim á ættjörðinni, að liggja ekki á liði sínu þar, – sjálfum sér til viðreisnar.“
Röng fjárhagsáætlun?
Heimskringla er ekki sátt við fjárhagsáætlun bráðabirgðastjórnar, finnur ýmislegt umhugsunarvert. Skoðum nánar:,,Tökum til dæmis, að Vestur-Íslendingar ákveði, að skjóta saman hálfri milljón króna, eða sem næst 135 þúsundum dollars, og kaupi skip fyrir þá upphæð, ekki til þess að gefa Austur-Íslendingum, heldur sé það eign Vestur-Íslendinga, en lánað Austur-Íslendingum til nota, með ákveðnum skilyrðum, svo sem viðhaldskostnaði og sanngjörnum ávöxtum af innistæðufénu. Sú upphæð, sem Austur- Íslendingar þannig greiddu fyrir not skipsins, yrði miklu minni en þeim styrk mundi nema, sem vænta mætti að landssjóður legði félaginu til árlega skipsins vegna, og væri þá um leið einnig sparað það sé, sem Austur-Íslendingar hafa í útgjaldaáætlun sinni gert fyrir vöxtum af nálega hálfrar milión króna láni. Félagið ætti þá einnig að geta komist hjá öllum veðsetningar-vanda, með því að ætla verður, með því að ætla verður, að heimaþjóðin mundi við þetta örfast til þess að hafa saman nægan fjárafla til þess að geta borgað fyrir annað skip og eiga það skuldlaust og án veðsetningar aðþrengingar. Ef að heimaþjóðin ekki sér sér fært að koma upp sæmilegu skipi á eigin reikning skuldlausu, þá er fjárhagslegur veikleiki hennar svo mikill, að vart er hugsandi, að hún fái framkvæmt þetta hafsiglingastarf, og þá yrði hjálpin héðan að vestan í hverri mynd sem hún væri, þeim að sára litlu liði. Vér sjáum ekki betur, en að heimaþjóðin ætti að geta lagt af mörkum til þessa fyrirtækis svo sem svarar 5 krónum á mann hvern í landinu og yrði þá sú peningafúlga full 400 þúsund krónur. Landssjóður ætti svo að leggja til í upphafi 100 þúsund krónur, sem styrkveiting til félagsins, og algerlega að fráskildu því tillagi, sem hann legði fram árlega til styrktar félaginu. Sýnilega er það mögulegt, að koma þessu í framkvæmd, ef hugur fylgir máli, og er landsmenn fá skilið, að þörfin er eins brýn og boðsbréfið sýnir að vera.“
Tillögur
,,Það ætti og fyrir oss Vestur-Íslendinga að vera kleyft, að hafa um hálfa milíón krónur til styrktar þessu fyrirtæki, ef vér höfum einlægan vilja til að syrkja föðurlandið, oss að skaðlausu, og með nokkurnvegin öruggri vissu þess, að hjálpin verði því að tilætluðu liði. Ef vér teljum 30 þúsund Íslendinga vestan hafs, sem hver legði $5.00 í sjóðinn, þá er fengið meir en nóg fé til þess, að vér getum lagt fram skip til nota fyrir félagið, og sú fjárupphæð ætti ekki að verða tilfinnanlegur útgjaldaliður, með því að þeir verða vafalaust margir, sem leggja miklu meira af mörkum, og þá væntanlega nokkrir, sem engan þátt bilja taka í þessu, frekar en í nokkru öðru, sem til framfara horfir. Enginn fullorðinn, vinnufær Íslendingur, karl eða kona, er svo settur, að hann ekki geti lagt til 100 króna – 27 dollara – hlut. Það væri ekki nauðsynlegt að féð væri alt borgað strax; það mætti dreifa því yfir tveggja ára borgunartíma, svo að útgjöldin yrðu ekki tilfinnanleg.Og þegar allir Vestur – Íslendingar leggja saman, þeir sem búa í Bandaríkjunum og Canada, þá ætti sjóðmyndunin að ganga greiðlega og nægilegt fá að hafast saman á skömmum tíma til þess að kaupa hafbúið gufuskip, – betra og fullkomnara en það sem boðsbréfið lýsir. Slík hjálp væri rausnarleg og í fullu samræmi við efnalegar ástæður Vestur-Íslendinga og hlýhug þeirra til föðurlandsins. Væntanlega hafa þeir menn hér í borg, sem beðnir hafa verið að gangast fyrir hlutasölu hér vestra, bráðlega fund með sér til að ræða þetta mál og taka ákvarðanir í því, og verður þá lesendum skýrt frá því.“
Fundað í Winnipeg
Vestur-Íslendingar tóku málinu vel og strax á fyrsta almenna fundinum í Winnipeg vorið 1913 kom í ljós einlægur vilji fundarmanna til að styðja málefnið. Kosinn var fimm manna nefnd sem samanstóð að þremur einstaklingum úr borginni, þeim, Jóni J. Vopna, Árna Eggertssyni og Ásmundi P. Jóhannssyni. Sveinn Þorvaldsson frá Riverton var fulltrúi byggðanna í Nýja Íslandi og Sigurður Sigurðsson úr Garðarbyggð fulltrúi byggðanna í N. Dakota. Eflaust hefur fyrirhuguð Íslandsför þeirra allra um sumarið ráðið nokkru um valið því fundarmenn sáu strax kostinn við að eiga fulltrúa á fyrirhuguðum fundi heima á Íslandi. Nefndarmenn sátu fundi með bráðabirgðarstjórn nýja skipafélagsins og skráðu sumir nefndarmenn sig fyrir 10.000 króna hlut. Á almennum fundi í Winnipeg 4. október gaf svo nefndin skýrslu um stöðu mála og lagði til ,,Að því athuguðu, sem asð framan er greint, vildum vér leggja það til, að nefndin hér boðaði til almenns fundar í Winnipeg nú þegar, og bjóði öllum Vestur-Íslendingum að sækja þangað, og áta í ljós álit sitt um málið, og að á þeim fundi sé kosin nefnd til að annast málið, og hrinda af stað framkvæmdum í því hér vestra, því vér göngum að því vísu, að þessi almenni fundur víkist þannig að málinu.“ Almennur fundur var svo boðaður 30. október og var hann vel sóttur. Á þeim fundi var nefnd kosinn sem sendi frá sér áskorun til Íslendinga í N. Ameríku sem birt var í báðum, íslensku blöðunum í Winnipeg í byrjun nóvember.
ÁVARP TIL VESTUR-ÍSLENDINGA
,,Vér undirritaðir, sem á almennum fundi hér í borg, dags. 30. okt. sl., vorum til þess kosnir, að gangast fyrir hlutasölu meðal Vestur-Íslendinga í Eimskipafélagi Íslands, leyfum oss hér með að skora á alþjóð Íslendinga vestan hafs, að bregðast drengilega við þeirri hinni einróma bæn íslenzku þjóðarinnar, til vor senda af forgöngumönnum fyrirtækisins á Íslandi, að kaupa hluti í þessu félagi. Nefndin á Íslandi hefir ákveðið, að stærð hlutanna skuli vera 25 kr., 50 kr., 100 kr., 500 kr., 1000 kr., og 5000 krónur, og eru minstu hlutirnir settir 25 krónur, $6.75, til þess að gera mögulega sem víðtækasta hluttöku, það er að segja, svo að hver einstakur Íslendingur, karl og kona, hversu fátækur, sem hann kann að vera, geti átt kost á því, að eiga hluti í félaginu. Forstöðunefnd fyrirtækisins biður oss Vestur-Íslendinga, að kaupa ekki minna en 200 þús. króna virði af hlutum í félaginu, eða þaðan af meiri upphæð, eins mikla og vér reynumst fúsir að verja til eflingar. Íslendingar hér í borg hafa þegar skrifað sig fyrir 77,500 króna virði af hlutum, og teljum vér líklegt, að þeir muni, áður en hlutasölunni er lokið, fullgera fullgera hundrað þúsund króna hlutakaup í félaginu. Fjórði partur greiðist um leið og kaup eru gerð, hitt á 6, 12, og 18 mánuðum. Vér teljum Eimskipafélagsstofnun þessa þá lang-þýðingarmestu hreyfingu, sem nokkurn tíma hefir komið á dagskrá með íslenzku þjóðinni í sögu hennar, og teljum víst, að hverjum sönnum syni landsins, beggja megin hafsins, sé það heilhuga þrá, að hún megi færa í skauti sínu blessunarríkan ávöxt, til verzlunarlegs sjálfstæðis ættjörð vorri og verða þjóð hennar til sannrar menningar. Stofnfundur félagsins verður haldinn í Reykjavík þann 17. janúar næstk. Nokkru fyrir þann tíma þyrftum vér að geta sent þangað ákveðið skeyti um það, hverrar fjárupphæðar félagsstjórnin má vænta frá Vestur- Íslendingum. Vér mælumst þess vegna til þess, að hinir mörgu menn, hvarvetna í bygðum Íslendinga hér vestra, sem vér ritum og sendum boðsbréf til viðvíkjandi hlutakaupum, vildu bregða sem fljótast við, og hafa samtök til þess, að sem allra flestir landa vorra taki þátt í þessu fyrirtæki. Einnig óskum vér, að þeir Íslendingar, sem búsettir eru utan hinna svonefndu íslenzky bygðarlaga og vér ekki getum bréflega náð til, en kunna að sjá þetta ávarp eða frétta af því, vildu gera svo vel, að senda skeyti um væntanlega hluttöku þeirra í félagsmynduninni til annars hvors íslenzku blaðanna, Lögbergs eða Heimskringlu, eins fljótt og þeir fá því viðkomið. Allar þær upplýsingar, sem óskað kann að verða um félagið, og vér eigum kost á að veita, verða fyrgreind blöð fús að birta almenningi hið fyrsta. Í öruggu trausti þess, að landar vorir verði fúsir til þess, að rétta þessu máli hjálpandi bróðurhönd, viljum vér hér með tilkynna, að hlutaborganir má senda til; „Th. E. Thorsteinsson, Manager Northern Crown Bank, Canada“.
Dagsett í Winnipeg, 1. nóv. 1913
Árni Eggertsson B. L. Baldwinson
Thos. H. Johnson J. T. Bergmann
Joseph Johnson Jónas Jóhannesson
Rögnvaldur Pétursson J. J.Vopni
John J. Bildfell Aðalsteinn Kristjánsson
F. J. Bergmann Th. E. Thorsteinsson
Sv. Thorvaldson Stefán Björnsson
Jón J. Vopni fór heim til Íslands á árslok, kom til Reykjavíkur 24. desember, 1913 og sat stofnfund félagsins laugardaginn 17. janúar, 1914. Þar greindi hann frá því að vestra hefðu safnast 160.000 kr og 200.000 kr. markinu yrði náð á næstu mánuðum. Það tókst en síðasta greiðslan barst til Íslands í september, 1916. Alls nam stofnfé um 880.000 og var framlag V. Íslendinga um fjórðungur þess. Rétt að ljúka þessum pistli með orðum Guðna Jónssonar mag. art sem birt var í ritinu Eimskipafélag Íslands 25 ára og var gefið út í Reykjavík árið 1939. ,,Þátttaka Vestur- Íslendinga í stofnun Eimskipafélagsins er fegursti og stærsti vottur um þjóðrækni þeirra og hugarþel til gamla landsins, sem enn hefur sýndur verið….Dáð þeirra og tryggð verðskuldar því það, að henni sé lengi á lofti haldið kynslóðinni til verðugs sóma.“