Jón Jónsson fæddist í Sauðanesi í Húnavatnssýslu 1. janúar, 1872. Jón J. Húnfjörð eða Jon Hunfjord vestra.
Ókvæntur og barnlaus.
Jón flutti vestur til Winnipeg árið 1887 og fór í Akrabyggð í N. Dakota. Vann þar í byggð hin ýmsu störf uns hann flutti vestur til Bresku Kólumbíu og settist að í hinum frjósama Okanagandal. Þar vann hann við skógarhögg og grænmetis- og ávaxtaræktun. Hann gekk í kanadíska herinn árið 1916, sendur til Englands árið 1917, sneri aftur til Kanada í árslok 1918 og dvaldi í Brownbyggð til vors. Dreif sig þá til Íslands og var þar fram á haust 1920. Fór þá aftur vestur og nú með bróður sinn Guðmund sem dvaldi hjá honum í Brownbyggð nokkur ár en fór svo aftur til Íslands. Jón leigði út hluta lands síns en notaði það sem eftir var í garðrækt. Reynslan frá Okanagandal kom sér nú vel, hann sneri sér að skógrækt og ófá skjólbelti í byggðinni eru hans verk.
