Marvin Guðjónsson

Vesturfarar

Eftirfarandi bréf sendi Marvin systur sinni, Sigríði frá Frakklandi.

 

A.P.O. Brulon, France

Dagsetning: 13, march, 1919

Kæra systir

Ég fékk bréfið frá þér í gær, kærar þakkir. Peningarnir voru þar með. Meðan ég er hér þarfnast ég ekki reiðufé verulega en það mun sannarlega koma sér vel þegar ég kem til baka, sem vonandi verður fljótlega. Ég held að brottför héðan verði nú í vikunni og að við verðum sendir til nærliggjandi hafnarborgar. Engin sendibréf verða póstlögð héðan eftir hádegið á morgun svo þetta kann að vera mitt síðasta bréf til þín héðan, ég vona að svo verði.

Ég fékk bréf frá Pétri í morgun. Hann greindi frá kornhlöðubrunanum og kvaðst sjálfur vera mjög veikur. Ég trúi varla að svo sé, ég sannarlega vona það og hann sé nú hress.

Ég hef engar fréttir að færa. Mér líður vel og vona að þú hafir það gott. Þakka þér fyrir sendinguna, þinn elskandi bróðir,

Marvin.

 

A.P.O. Brulon, France

Dagsetning 9. apríl, 1919

Kæra systir

Ég ætla að senda þér fáeinar línur svo þú vitir að ég hef ekki gleymt fólkinu heima. Ég hef engar nýjar fréttir að færa en þar sem ég hef nægan tíma í dag ætla ég að greina frá því að mér líður vel. Allflestir liðsmenn minnar deildar eru ekki í bænum í dag, þeir eru á æfingu einhvers staðat í grenndinni. Ég geri ekki ráð fyrir að þú vitir hvað það þýðir svo ég læt það liggja á milli hluta. Vonandi gefst mér tækifæri til að útskýra það bráðlega. Ég er svo heppinn að vera á vakt hér í dag, slapp þannig við æfinguna. Ég er nú í fríi í fjóra tíma og á eftir vakt í tvo tíma seinna í dag, losna því fyrr.

Nú hef ég setið hér í hálftíma, stöðugt leitandi eftir einhverju að segja þér en mér dettur barasta ekkert í hug. Nú slæ ég því botn í þetta, skilaðu kveðju til allra heima, þinn bróðir

Marvin.

Í lokin fylgir stúfur frá Margréti, móður hans til Sigríðar sem hún hripaði aftan á bréfið frá honum 9. apríl.