Oak Point

Vesturfarar

 

Lundarbyggð varð til á allstóru svæði kringum þorpið Lundar en Grunnavatnsbyggð náði frá Otto suður að North Shoal Lake. Íslensk pósthús boru í Otta, Marklandi og Vestfold.

Oak Point er staður við austanvert Manitobavatn. Þar myndaðist lítið þorp á árunum 1867- 1870. Svæðið umhverfis var gott fyrir bændur sem stunda vildu nautgriparækt. Þarna voru t.d. um 500 uxar í eigu Hudson´s Bay félagsins en þetta voru dráttardýr sem leigð voru út til að draga vagna og kerrur um sléttur Manitoba. Manntal frá árinu 1870 sýnir að þar bjuggu þá 150 sálir og reyndist sá fjöldi haldast nánast óbreyttur í 60 ár. Það er athyglisvert að elsti íbúi þorpsins fæddist þar á svæðinu árið 1810 en flestir íbúar voru Métis. Oak Point skólahérað varð til árið 1898 og skóli byggður í þorpinu. Canadian Northern Raiway félagið lagði járnbraut til þorpsins frá Winnipeg árið 1904 og þaðan áfram norður um Lundar, Eriksdale, alla leið til Steep Rock.

Íslendingar

Straumur Íslendinga til Vesturheims var þungur á níunda áratug 19. aldar. Flestir fóru til Winnipeg í Manitoba, dvöldu þar mislengi, sumir fóru einfaldlega aldrei þaðan. Fyrstur til að velja land við austanvert Manitobavatn var Jón Sigfússon og kona hans, Anna. Með þeim voru dæturnar Kristjana og Júlíana. Þau komu vestur árið 1883. Stór hópur kom frá Íslandi árið 1887 og sama ár fóru nokkrar fjölskyldur að dæmi Jóns og settust að við Manitobavatn. Meðal þeirra var Sigfús Sveinsson, kona hans, Ólöf svo og börnin Skúli og Sigríður.  Á næstu árum settust fjölmargir Íslendingar að í sveitum norður og austur af Oak Point. Einn sá fyrsti til að setjast að í Oak Point þorpi var Þorsteinn Þorkelsson úr Eyjafirði. Hann kom vestur árið 1890 með konu sína, Helgu Grímsdóttur úr Skagafirði. Hún lést árið 1893 í Winnipeg. Þorsteinn kvæntist Guðbjörgu Guðmundsdóttur árið 1893 og bjuggu þau í Winnipeg. Þar opnaði Þorsteinn matvöruverslun árið 1897 sem hann rak í fimm ár. Þaðan flutti þau til Oak Point árið 1902 þar sem Þorsteinn opnaði matvöruverslun en jafnframt nam hann land og hóf griparækt. Rétt að taka fram að Þorsteinn var útlærður járnsmiður á Akureyri og stundað eitthvað smíðar líka í þorpinu. Þegar járnbrautin náði til þorpsins árið 1904 komu Íslendingar reglulega með lest frá Winnipeg til Oak Point og námu land í Grunnvatnsbyggð eða Lundarbyggð. Fáeinir settust að í Oak Point og unnu við verslun eða þjónustu.

 

.