Dr P. H. Th Thorlaksson

Vesturfarar

Í Vestur-Íslenzkar Æviskrár bindi II bls. 330-332 er nokkuð ítarlega rakinn ferill Dr. Thorlaksson. ,,Dr. Thorláksson hóf nám við Manitoba Medical College haustið 1914, en gekk í hjúkrunarflokk 223. herdeildar í heimstyrjöldinni fyrri árið 1917. Var þó brátt sendur aftur til Canada til þess að ljúka námi sínu en varð jafnframt að gegna læknisstörfum eitt ár við General Hospital og annað ár við The Children´s Hospital. Lauk fullnaðarprófi í læknisfræði frá Manitoba háskóla 1919. Eftir framhaldsnám í London og á meginlandi Evrópu 1921-22, stofnaði hann í félagi við kunnan skurðlækni, Dr. Neil John Maclean, árið 1926: Maclean-Thorlakson Clinic, en árið 1940 stofnaði hann Winnipeg Clinic. Er hann forstjóri þessarar stofnunar, sem hefur til umráða 12 hæða stórhýsi, þar sem starfa 52 læknar. Hann var skipaður Associate professor í skurðlækningum við Manitobaháskóla 1946, og sama ár yfirskurðlæknir við General Hospital í Winnipeg, en hafði áður verið mörg ár skurðlæknir við þetta sjúkrahús. Professor Emeritus frá 1957. Átið 1938 var hann skipaður af National Research Council í rannsóknarnefnd, þar sem hann vann átta ár undir forsæti Sir Frederick Bantings, og var að undirlagi hans stofnað til félagsskapar milli fjögurra vesturfylkja Canada um þessi mál. Hélt þetta samband fyrsta þing sitt undir forsæti Dr. Thorlákssons í Vancouver B.C. í febrúar 1945. og síðan hvert ár til skiptis í fylkjunum, og hafa ungir vísindamenn fengið þarna tækifæri til að vekja athygli á rannsóknum sínum.“

Auknar rannsóknir

,,Árið 1943 átt Dr. Thorláksson mikinn þátt í stofnun Manitoba Institute for the Advancement of Medical Education and Research, sem endurskírnt var árið 1957 og hlaut þá nafnið Winnipeg Clinic Research Institute, sem lagt hefur stórfé af mörkum til læknisfræðilegra rannsókna. Hann var einn af stofnendum Manitoba Medical Centre 1943 og um skeið formaður stjórnarnefndar þess. Hefur þessi stofnun yfirumsjón með öllum helztu sjúkrahúsum fylkisins og byggingu nýrra sjúkrahúsa og annast þannig forystuna í heilbrigðismálum Manitoba. Auk þessa hefur hann starfað mikið í ýmsum læknafélögum, t.d. verið forseti skurðlæknafélags Vestur-Canada (Surgical Society of Western Canada) 1950. Fellow of American Surgical Association. Member of the Royal College of Surgeons, England. Fellow of the Royal College of Surgeons of Canada. Fellow of the American College of Surgeons. Forseti kanadiska krabbameinsfélagsins 1951-52, og hefur gegnt mörgum störfum í þeim fálagsskap. Hann hefur verið forseti fyrir Medical Alumni Association og var árið 1955-56 heiðursforseti fyrir university of Manitoba Alumni Association og gegndi fjöldamörgum nefndarstörfum.“

Málefni Íslendinga – Ritgerðir

Dr. Thorláksson var alla tíð trúr íslenskum upprunasínum og ungur fór hann að fylgjast með og taka þátt í viðleitni landa sinna við að varðveita uppruna sinn í fjölþjóða samfélaginu í Bandaríkjunum og Kanada. Grípum aftur niður í yfirlitið í VÍÆ II, sem vitnað er til að ofan: ,,Ekki hefur hann heldur legið á liði sínu í málefnum Íslendinga vestan hafs þegar mikið hefur þurft við. Hann var formaður fjársöfnunarnefndarinnar til að stofna kennarastól í íslenzkri tungu og bókmenntum við Manitobaháskóla. Eftirmaður Dr. Brands Brandssonar í stjórnarnefnd Ellihælisins Betel að Gimli og beitti sér þar fyrir fjársöfnun með þeim árangri, að hælið var stækkað að miklum mun og rúmar nú 100 íbúa og hefur þar að auki 24 sjúkrarúm. Yfir 20 ár í útgáfunefnd Lögbergs og lengst af formaður nefndarinnar, og nú formaður ritnefndar Lögb. – Hkr. Um 40 vísindalegar ritgerðir hefur hann ritað í ýmis læknarit í Ameríku og er nú forseti fyror Manitoba Council on Education, og var forseti á þingi þeirrar stofnunar, sem haldið var í Manitobaháskóla 1960. Honum hefur verið margvíslegur sómi sýndur : L. L. D. honoris causa Manitobaháskóla 1952. Doktor í læknisfræði honoris causa við Háskóla Íslands 1961. Riddari hinnar íslenzku Fálkaorðu 1939, Stórriddari 1951.“