Aldís J. B. Laxdal

Vesturfarar

Gönguleið Aldísar frá Winnipeg til Cavalier. Leiðin frá Gimli til Winnipeg er tæplega 80 km.

Aldís Jónasdóttir Bergmann Laxdal settist að í Nýja Íslandi haustið 1876. Ekki hafði hún dvalið þar lengi þegar bólusótt varð vart við Íslendingafljót. Veturinn 1876-1877 var landnámsmönnum erfiður þá er bólusóttin geisaði. Í VÍÆ IV er stutt frásögn um Aldísi og hennar störf við hjúkrun og fæðingar vestra. ,,Hún gat sér góðan orðstír við hjúkrunarstörf í Nýja Íslandi bóluveturinn 1876-77, þar sem hún vann af óbilandi hugrekki oft nótt með degi við að líkna sjúkum og deyjandi. Þrisvar sinnum fór hún þann vetur fótgangandi til Winnipeg, um 60 mílna veg, til að sækja meðul og hjúkrunargögn og lá úti í skógum á nóttum. Árið 1878 fluttist hún til Winnipeg, Man.,og fékkst enn við hjúkrun og nam ljósmóðurstörf, en þá var enn lítið um fæðingarhjálp þar. Tveimur árum seinna ákvað hún að flytja til Bandaríkjanna og fór enn fótgangandi með börnum sínum mestan hluta leiðarinnar til Cavalier í Norður Dakota. Hún nam land í Garðarbyggð árið 1880, en seldi það þremur árum seinna Hannesi Björnssyni, og gaf sig eftir það eingöngu við ljósmóðurstörfum. Í íslenzka grafreitnum að Mountain í Norður Dakota var henni reistur veglegur minnisvarði af fjölda þakklátra mæðra er hún hafði hjálpað. Talið er að hún hafi tekið á móti um það bil fimm hundruð börnum.“