Dr. Kristján Jónsson Austmann

Vesturfarar

Skólinn í Marshland þar sem Kristján hlaut sína grunnskólamenntun. Maður á mynd ókunnur. Mynd TLD

Kristján Jónsson ólst upp meðal íslenskra vesturfara í Manitoba. Hann fæddist í Argylebyggð en flutti með móður sinni og stjúpföður í Marshlandbyggð við vestanvert Manitobavatn og bjuggu þau á sínu landi norður af Gladstone til ársins 1912. Fjölskyldan flutti til Winnipeg þar sem Kristján lauk B.A. prófi við Manitobaháskóla árið 1914 og í læknisfræði árið 1921. Bætti við og lauk M.A. prófi í lífeðlisfræði og efnafræði sem aukagrein árið 1922. Snemma áttu læknavísindi hug hans allan því árin 1912 og 1922 hlaut hann verðlaun Manitobaháskólans fyrir rannsóknir sínar í líffræði. Loks lauk hann sérstökum prófum sem veittu honum réttindi til að stunda lækningar í öllum fylkjum Kanada.

Kennari og læknir

Kristján kenndi lífefnafræði við Manitobaháskóla fram til ársins 1916 og var aðstoðarprófessor í lífeðlisfræði og lyfjafræði við skólann árin 1924-1926. Var læknir í Wynyard í Saskatchewan í tíu ár frá 1926 til 1936, settist þá enn á skólabekk og nam eyrna-, háls-, nef-, og augnlækningar í Chicago og í Englandi í tvö ár. Læknir við Maidstone Opthalmic Hospital í Kent. Hann sneri aftur til Kanada og stundaði lækningar í Winnipeg sem sérfræðingur í þessháttar sjúkdómum. Starfaði sem læknir í Ontario í Síðari heimstyrjöldinni og var skipaður yfirlæknir háls- nef- og eyrnadeildar hersjúkrahússins í Deer Lodge. Þaðan var hann svo leystur frá störfum eftir makalausan læknisferil árið 1957.