Gísli Guðmundur Jónsson

Vesturfarar

Á upphafsárum vesturferða vissu vesturfarar ósköp lítið um hvað beið þeirra handan hafs. Oft fóru hjón með einhver börn sín, stundum myndarlegan barnahóp. Það hlýtur að hafa verið áhyggjuefni hvernig framtíð þeirra yrði, voru þau að fara úr öskunni í eldinn? Nánast frá fyrstu tíð nálguðust íslenskir vesturfarar landnám á sléttum Kanada og Bandaríkjanna á svipaðan hátt, menn völdu sér land, brutu það og hófu ræktun. Eða þeir völdu skika fyrir skepnur og öfluðu heyja. Stundum var landnámið alíslenskt þ.e.a.s. landnámsmenn voru nánast allir Íslendingar en fyrir kom að landnemar af ólíkum uppruna voru þar á meðal. Hvergi leið langur tími þar til landnámsmenn fóru að huga að æskunni og framtíð hennar því eitt af því fyrsta sem reynt var að gera var að stofna skóla. Gísli Guðmundur Jónsson úr Skagafirði var rétt sjö ára þegar hann kom í Hallsonbyggðina í N. Dakota og þar fékk hann alþýðuskólamenntun sem dugði honum til að hefja nám við Wesley-háskólann í Winnipeg. Skoðum frásögn Þórstínu Þorleifsdóttur í bók hennar ,,Saga Íslendinga í N. Dakota“ um Gísla og menntun hans:

,,Af íslenzkum landnemabörnum stendur hinn góðkunni læknir í Grand Forks, Dr. G. J. Gíslason, framarlega í flokki. Hann er sonur Jóns Gíslasonar frá Flatatungu og Sæunnar Þorsteinsdóttur frá Gilhaga. Eftir fremur takmarkaða alþýðuskólamenntun byrjaði Dr. Gíslason nám við Wesley-háskólann í Winnipeg og lauk þar öðru ári í háskóladeildinni. Læknisfræðinám sitt stundaði hann aðallega í Chicago, og tók augna-, eyrna -, háls- og nefsjúkdóma sem sérfræði. Hann hefir ferðast tvisvar til Evrópu og stundað nám við háskóla þar. Dr. Gíslason hefir rækt læknisstörf í bænum Grand Forks milli 15 og 20 ár, og aflaði hann sér brátt trausts, og sýndi með því að hann er sérstaklega hæfur sem læknir, einkum þegar tekið er tillit til þess, að hann byrjaði óþektur í borg, þar sem ekki eru nema örfáir Íslendingar. Um nokkurra ára skeið hefir hann verið forseti læknafélags Grand Fork-héraðs, er innibindur 5 norðaustursýslur Dakota. Hann er Fellow of American College of Surgeons og tilheyrir American Medical Association, American Medical Society of Vienna, meðlimur og fyrsti forseti North Dakota Academy of Ophtalmology and Otolaryngology o. s. frv. Dr. Gíslason er bókhneigður maður og ann mentum mjög mikið. Sem dæmi upp á það, er það, að þegar hann var búinn að vera læknir nokkur ár, tók hann í hjáverkum við háskóla Grand Forks þær námsgreinir, sem á vantaði að hann fengi Baccalaureatum in Artibus, og útskrifaðist hann þaðan. Hann er vel hagmæltur og hefir þýtt ýmis íslenzk kvæði á enska tungu, svo sem “Gröfin“ eftir Kristján Jónsson, og þykja þær þýðingar snildarlega vel gerðar. Hann á mikið af sönnu íslenzku þreki, og á mentabraut sinni vann hann sig áfram sjálfur og yfirbugaði fátækt og erfiðleika.“