Halldóra Guðmundsdóttir

Vesturfarar

Halldóra Guðmundsdóttir missti móður sína, Önnu Sigurðardóttur í barnsfæðingu þegar hún var á fimmta ári. Þetta var áttunda barn Guðmundar Stefánssonar og Önnu. Halldóra var sett í fóstur til frænku sinnar sem kenndi Halldóru eitt og annað um ljósmóðurstarfið. Hvort andlát móður hennar hafi eitthvað haft með þá ákvörðun hennar að verða ljósmóðir að gera skal ósagt látið en 50 árum seinna var Halldóra orðin þekktasta ljósmóðirin í Duluth í Minnesota. Þangað flutti hún um 1890 með manni sínum, Siggeiri Ólafssyni og tveimur sonum þeirra. Þau voru gefin saman síðla hausts árið 1876 og var brúðkaupið sögulegt því í miðri athöfn brast á vestan stórhríð sem linnti ekki látum fyrr en fjórum dögum síðar. Gestir komust ekki til síns heima þessa daga og æ síðan töluðu menn um Halldóru bylinn.  Árið 1891 hófst læknirinn William Mayo, ásamt hópi lögfræðinga,  að vinna reglugerð sem varðaði skráningu ljósmæðra í Minnesota. Var Halldóra með þeim fyrstu í Duluth til að skrá sig og fyrst var hún til að fá sjúkrastofu sína viðurkennda í borginni.

Heimilið í Duluth

Siggeir og Halldóra bjuggu í allstóru, tveggja hæða húsi. Þau bjuggu á neðri hæð en tíu, lítil herbergi voru á efri hæð og í einu baðkar. Ungur, íslenskur verkamaður, John Ardahl (Jón Árdal?) bjó í litlu herbergi, baka til á jarðhæð og það var hans verk að mjólka kúna á morgnana og leiða hana svo út í haga spölkorn frá húsinu á leið sinni til vinnu. Á kvöldin kom hann svo til baka með kúna. Margir viðskiptavinir Halldóru voru fátækar, einstæðar mæður sem greiddu fyrir þjónustuna með eldamennsku, ræstingu og þvotti, sumar dvöldu lengi hjá henni eftir fæðinguna. Dagblaðið Duluth News Tribune sá ástæðu árið 1907 til að fjalla um þessa merku, íslensku ljósmóður, þá elstu og virtustu í norðaustur hluta Minnesota. Fullyrti blaðið að frá því hún hóf störf í borginni hafi hún tekið á móti 1100 börnum, 112 á árinu (1907) sem var að líða. Sjúkrastofa hennar var eitthvað annað en daunillar, holur í myrkum húsasundum, hennar heimili var allt í senn sjúkrahús  heimili fyrir konurnar. Hún naut stuðnings borgarráðsmanns og þekktra fjáröflunarmanna. Segir sagan í fjölskyldu Halldóru að hún hafi hvorki misst barn né konu.

Byggt á grein í sunnudagsblaði Minnesota Metro- Star Tribune 4. janúar, 2015 eftir Curt Brown.