Oddný Magnúsdóttir

Vesturfarar

Oddný Magnúsdóttir úr Vestmannaeyjum var ásamt manni sínum, Eiríki Bjarnasyni, landnámsmaður í Kanada. Hún var ljósmóðir, hafði lært í Danmörku og starfað í Norður Múlasýslu þar til þau hjón fluttu vestur til Kanada. Þau dvöldu einhvern tíma í Manitoba en fluttu síðan í Þingvallabyggð í Saskatchewan.  Þar námu þau land og komu sér upp heimili eins og aðrir frumbýlingar. Fljótlega fór Oddný að gegna starfi sínu og fór víða við afar frumstæðar kringumstæður til að vitja íslenskra kvenna í hinum ýmsu sveitum héraðsins. Árið 1949 var hennar minnst á síðum Almanaksins:

Oddný Magnúsdóttir Bjarnason  Ljósmóðir                                                                                                                                                                                                                                                            Eftir Séra Sigurð S. Christóphersson

Ekki er það tilgangurinn með þessum línum að fara yfir æfiferil þessarar konu; það hefir verið gert af Birni Þorbergssyni vel og greinilega (Lögberg, 16. júní, 1932); hitt er þó tilgangurinn að ryfja upp ýmislegt í fari Oddnýjar, sem mætti verða til skírari myndar af persónuleika hennar og framgangsmáta. Eiginmaður Oddnýjar var Eiríkur Bjarnason, ættaður úr Austur-Skaftafellssýslu. Eiríkur var mennilegur að vallarsýn, hraustmenni til allra starfa. Hann hafði siglt um lönd og álfur, og kunni frá mörgu að segja. Hann lét lítið yfir sér og básúnaði lítt yfir eigin dyggðum, en brjóstið var hlýtt, heilt og haldgott: eirði hann því lítt, að sjá menn olnbogaða eða borna ofurliði í herferð lífsins; vildi gjarnan rétta hjálparhönd þeim, er virtust standa ver að vígi. Oddný var fædd í Vestmannaeyjum árið 1855. Lá leið hennar til Danmerkur, þá hún var á æskuskeiði, og nam hún þar ljósmóðurfræði og gegndi því starfi, þar um stund. Þar giftist hún Eiríki, og fluttust þau til Íslands. Þar stundaði hún á Seyðisfirði embætti sitt um tíma. Þau héldu vestur um haf 1888 og settust að í Þingvalla-byggðinni í Saskatchewan, sem þá var á landnámsskeiði. Brátt tók heimili þeirra Eiríks og Oddnýjar miklum framförum og varð með helstu heimilum byggðarinnar. Tók Oddný þegar að gegna starfi sínu; jókst aðsókn til hennar ár frá ári; læknar voru hvergi nærri, var hennar því leitað bæti til að setja fólki blóðhorn (“koppasetningar“) og í mörgum öðrum sjúkdóms tilfellum; þótti það gefast prýðilega.                                                                                                                 Á þeim árum voru vegir nálega engir, og ferðatæki manna svo bágborin og útbúnaður allur, svo að naumast mundi það teljast brúklegt nú á dögum. Við sem nú þjótum á ágætis ferðatækjum eftir rennisléttum vegum, minnumst þeirra sjaldan, sem gerðu sig ánægða með að halda sinn “uxagang“ um ótal hættur og torfærur, menn lögðu upp fyrir dag til þess að afla sér húsaviðar og brenni, til þess að geta náð heim að kvöldi. Það voru örlög Oddnýjar, að sæta öllum þessum óþægindum, og leitast við að liðsinna og létta undir með þátttöku í bágbornum kjörum frumbyggjara; enda var skortur á mörgum heimilunum, en Oddný bar gæfu til þess og hagsýni að bjargast við það, sem fyrir hendi var, svo að öllum farnaðist vel og heppilega. Það ræður að líkum, að ekki var mikið um peninga; ekki setti Oddný það fyrir sig, þótt misjafnt væri goldið; það varðaði mestu, að geta orðið til liðs og líknar eftir ástæðum.  Það mun sanni næst, að fæstir þeir, sem nú lifa, muni geta skilið þær mannraunir, sem Oddný varð að ganga í gegn um, en viljinn og þrekið var óbilandi, veður misjöfn og óblíð hömluðu ekki ferðalögum hennar; aldrei heyrðist þess getið, að hún neitaði að fara, þótt nær taldist ófært veður. Aðsókn til Oddnýjar jókst jafnt og stöðugt, var hennar vitjað ekki aðeins af Íslendingum heldur og af mörgum annara þjóða mönnum fjær og nær.  Svo mjög gerðist aðsókn til Oddnýjar, að hún var tímum saman frá heimili sínu vegna þess, að hennar var vitjað úr öðrum stað, áður en hún gat komist heim. Aldrei heyrðist Eiríkur mæla æðruorð, þótt hann yrði að gæta bús og barna í fjarveru konu sinnar; hitt gefur að skilja, að margt var ógert á heimilinu við fjarveru hennar. Tuttugu og tveggja ára byrjar Oddný að gegna embætti sínu, mun starfstími hennar hafa verið full fimtíu ár eða nokkuð meir. Í skýrslu ritaðri af henni sjálfri er þess getið, að hún hafi verið ljósmóðir að 840 börnum, þar af eru 611 íslenzk, og hin tilheyrandi ýmsum þjóðflokkum. Ekki eru tilgreind önnur sjúkdóms tilfelli, þegar hennar var leitað. Hefði verið fróðlegt að fá að vita um það. Oddný var ljósmóðir af Guðs náð; hún var allra vinur og öllum trú.

Oddný var tíguleg í sjón og framgangsmáta gekk hún hversdagslega í skrautlausum, en vönduðum fatnaði. Ekki lét hún mikið yfir sér, en ráðdeild hennar var ávöxtur af ágætri mentum, mikilli lífsreynslu, og af umgengni með siðfáguðu og mentuðu fólki. Minntist hún veru sinnar í Kaupmannahöfn og viðkynningar við Jón Sigurðsson með mikilli hrifningu; skapaði það glæsilega og skýra mynd af þeim dögum. Hún var haldinn mikilli meðlíðan með kjörum annara, og næmri tilfinning fyrir ðllu góðu og göfugu. Hin dýrast von í brjósti hennar var byggð á sannindum kristinnar trúar; enda varð hún til mikils stuðnings kirkju og söfnuði og unni þeim hugástum. Hún var driffjöðurin í kvenfélagi Konkordia-safnaðar, tillögur hennar sköpuðu heildaráhrif. Hún var forseti kvenfélagsins um all langa hríð og heiðurs- forseti þess til æfiloka. Kvenfélagið stofnaði til samkomu í apríl til arðs fyrir söfnuðinn; var Oddný þar viðstödd með ráðum og dáð.                                                                                                                                                                                                                                          Á þriðja degi eftir það hafði hún fótaferð, en kendi þó lasleika, svo hún lagði sig fyrir á ný, og lézt þann dag. Hjartað sem búið var að bærast lengi öðrum til lífs, líknar og blessunar, var þrotið að kröftum, og fékk ekki haldið áfram lengur. Hinn göfugi og glæsilegi æfiferill var á enda. Vil eg tileinka henni orð Matthíasar:

“Gangið að leiði göfugrar konu,
Hreinnar, hógværrar, hné beygjandi.
Liggur hér liðin laukur kvenna,
signuð Guðs lilja ljúf í dauða“

Mörg virðingar og hlýleika merki vildu menn sýna Oddnýju á meðan hún gekk óhöllum fæti. Hún var sí-ung í anda, og hélt sálarkröftum til enda: er ekki mögulegt að hugsa um hana sem konu, sem komin er á fallandi fót. Þannig er minning hennar hjá öllum, sem þekktu hana. Konur í Lögbergs- og Þingvallabyggðum öfluðu fjár, og keyptu skírnarfont , sem þær gáfu til Konkordíakirkju í minningu um Oddnýju og starf hennar. Er skírnarlaug þessi hið glæsilegasta listasmíði úr skygðum marmara; fer ekki hjá því að gersemi þessi auki vegsemd hússins, sem táknar hásæti Guðs dýrðar, og að það afli því góðhugar meðal safnaðarmanna.“