Solveig Sigríður Grímsdóttir fékk góða undirbúningsmenntun í Garðarbyggð í N. Dakota og innritaðist í kennaranám í Valley City í sama ríki og lauk þaðan kennaraprófi árið 1909. Þaðan lá leiðin til Grand Forks þar sem hún lauk B.A. prófi frá ríkisháskólanum árið 1914. Hún stundaði kennslu á árunum 1909-1911 og 1914 – 1919 en hélt þá norður til Winnipeg þar sem hún lauk M.S. prófi í læknisfræði árið 1922. Hún var fyrsta stúlkan frá íslensku nýlendunni í N. Dakota til að ljúka prófi í læknisfræðum. Hún starfaði sem læknir í bænum Marshall í Minnesota í íslensku byggðinni þar í ein fjögur ár. Hvíldi sig og kom á legg fjölskyldu en hóf aftur lækningar við State Hospital í St. Peter árið 1953. Hún lét stöðu kvenna í samfélaginu sig miklu varða og tók þátt í ótal verkefnum er urðu til að bæta hag þeirra og réttindi. Stofnaði NBBO Club for Icelandic Girls, Garðar, Aurora Club, kvenfélag sem enn starfar í Minneapolis og heitir nú Hekla Club, kvenfélag Fyrstu lúthersku kirkju í Marshall, Minn., League of Women Voters, New Ulm, Minn., College & University Women’s Club, New Ulm, Icelandic Club við University of N. Dakota Progress Club & Beans Art Club, Marshall, Minn., formaður Recreation Commission, New Ulm í 20 ár, í bókasafnsnefnd þar o.fl, o.fl. Þá lagði hún fyrir sig ritstörf og voru bæði bækur hennar og greinar gefnar út.