Gunnlaugur Bjarni Gunnlaugsson

Vesturfarar

Á síðustu áratugum 19. aldar urðu ótrúegar framfarir í framleiðslu véla hvers konar í Norður Ameríku sem gerbreyttu samgöngum, landbúnaði og alls kyns tækni. Slík tæki og tól voru flestum íslenskum vesturförum framandi í upphafi vesturferða en synir þeirra og dætur, sum hver fædd vestra, ólust upp í samfélagi sem nánast sá einhverja nýja uppgötvun verða að veruleika á hverju ári. Það var ekkert undarlegt við það að ungur piltur fór að skoða traktór eða þreskivél eða hvaðeina áhugavert í sinni sveit. Gunnlaugur Bjarni Gunnlaugsson óx úr grasi í Akrabyggð ekki langt frá þorpinu Cavalier þar sem umboðsmenn og sölumenn kynntu hvers kyns nýungar á vélum sem auðvelduðu landbúnaðarstörf og samgöngur. Snemma bar á brennandi áhuga unglingsins sem þótti einkar laghentur við vélar. Engan undraði að hann skyldi halla sér að námi er sneri að framleiðslu þeirra. Þórstína Þorleifsdóttir fylgdist með þessum unga manni sem eflaust var á sama reki og hún, ef til nokkrum árum eldri. Hún skrifaði um hann í bók sinni ,,Saga Íslendinga í N. Ameríku“ sem út kom árið 1926 og sagði:

Auglýsing frá J.I.Case á 19. öld. Alveg gæti þetta verið Eggert í Akrabyggð með soninn Gunnlaug að sýna honum hvernig vélarnar virka.

,,Margir álíta, að Íslendingum sé ýmislegt annað betur gefið yfir höfuð en að vera uppfyndingarmenn og vélfræðingar, en Dakota-Íslendingar hafa þegar sannað það, að þjóðflokkur þeirra getur staðið framarlega á því sviði, ekki síður en annarsstaðar. Gunnlaugur Bjarni Gunnlaugsson er fæddur á Akra, Norður-Dakota. Hann er sonur Eggerts Gunnlaugssonar frá Baugaseli í Eyjafjarðarsýslu og Rannveigar Rögnvaldsdóttur frá Skíðastöðum í Skagafirði. Sem drengur var Gunnlaugur sérstaklega laghentur við vélar og sýndi snemma námshæfileika á háu stigi. Mentun sína fékk hann fyrst á Akra og síðar við Grand Forks háskóla, og ýmsar aðrar mentastofnanir. Rúmlega tvítugur gerðist hann starfsmála-umboðsmaður fyrir J. I. Case vélafélagið, sem er eitt hið stærsta af sinni tegund í Ameríku, og hefir útibú víðsvegar um heim. Núverandi staða hans er uppgötvanavélfræðingur (Research Engineer) fyrir þetta félag og er hann yfirmaður  rannsókna- og uppgötvanadeildarinnar, sömuleiðis er hann formaður útsöludeildar félags þessa. Hann hefir uppgötvað margt viðvíkjandi vélum, sem álitið er mikilsvirði, einkum og sérílagi ýmislegt, er gerir vélar, sem bændur nota við landvinnu, gagnlegri, ódýrari og einfaldari. Hann hefir einnig ritað talsvert í þessu sambandi, og hafa greinar eftir hann og um hann komið út í mörgum verkfræðistímaritum víðsvegar um Ameríku.

Logo J. I. Case félagsins í Racine í Wisconsin. Þangað flutti Gunnlaugur, bjó þar og starfaði.

Gunnlaugi er mjög hlýtt til Dakotabygðarinnar og gömlu frumbýlinganna. Í bréfi til þeirrar, er þetta ritar, sagði hann nýlega:“Ekkert myndi mér líka betur, ef eg hefði tíma og tækifæri til, en að rita um hreystiverk íslenzku frumbýlingana í Dakota.“