Helgi Ásmundur Sveinsson

Vesturfarar

Helgi Ásmundur Sveinsson flutti vestur aðeins 12 ára og kom fyrst til Winnipeg.  Áhugi hans á hvers kyns vélum vaknaði nánast strax við komuna og hagur hans vankaðist þegar honum var komið í vist þar í borg. Í afmælisritinu ,,Lundar Diamond Jubilee, “ sem gefið var út í Manitoba árið 1948, er þetta um hann sagt:

Winnipeg og útlönd: ,,Hann fór senmma að vinna fyrir sér, var hann þá tekinn til aðhlynningar af skozkum hjónum, Mr. og Mrs. Pennwarden í Winnipeg. Reyndust þau honum sem beztu foreldrar. Er þau greindu hæfileika hans komu þau honum til náms í vélafræði. Útskrifaðist hann sem vélameistari á skipum (Marine Engineering). Vann hann nú allmörg ár sem vélameistari á vatnaskipunum. Var hann meðeigandi í gufubátnum Ida ásamt J. H. Johnson og Kjartani Johnson kapteini. Hann stundaði ennfremur innlagningu frárensla í húsum með Stefáni Davíðssyni í Selkirk. Höfðu þeir félagar verkstæði þeirrar tegundar í bænum. Á vetrum var hann vélstjóri við hvítfiskaklakið í Selkirk. Síðar flutti hann til Minneapolis og vann nokkuð lengi hjá Moline akuryrkju verkfærafélaginu. Slíka tiltrú hafði félagið á hæfileikum hans, að það sendi hann umboðsmann sinn til Argentínu í Suður-Ameríku. Átti hann þar að sjá um uppsetningu vélanna, einkum þreskivéla, og leiðbeina innlendum um meðferð þeirra. Hann mun hafa dvalið í Argentínu í tvö ár. Var gaman að eiga samræður við Helga sál.  um veru hans þar syðra. Hann var greindur maður og kunni vel að segja frá um lífið og ástandið í hinni fríðu og auðugu Argentínu.“

Heim til Kanada: ,, Eftir að Helgi kom til baka frá Suður Ameríku setti hann upp bifreiða viðgerðaverkstæði á Lundar, einnig rak hann þar sögunar myllu í félagi við aðra. Varð hann fyrsti maðurinn til þess að setja á fót ljósastöð í þorpinu og reka hana í nokkur ár. Má óhætt fullyrða, að honum léki alt í höndum. Hann var líka hugvitsmaður hinn mesti og fann upp margskonar verkfæri til smíða. Það kom upp er verkfæri hans voru seld á uppboði, að honum látnum, að þar var ýmislegt er menn höfðu ekki áður séð en reyndust handhægir hlutir til ýmsra smíða. Helgi gerði margar uppfyndingar en áreiðanlegar sagnir um það er nú ekki unt að fá. Auðvitað voru erfiðleikar frumbyggjanna margir og ekki hvað sízt í því að hreinsa og brjóta skóglandið til ræktunar. Fyrst þurfti að grafa fyrir rætur trjánna og síðan höggva þær til að losa þær upp úr jarðveginum. Þetta var afar seinlegt verk og erfitt. Svo þurfti að plægja landið með sérstökum brotplóg sem uxar gengu oftast fyrir á fyrstu árum. Uxar voru afar hentugir til þessara plæginga þótt seinfærir þættu. Þeir voru nógu sterkir til að draga hina þungu plóga og stilltir og jafndrægir oftast. Þess utan voru þeir miklu léttari á fóðrum en hestar, sem þó var farið að nota alment undir eins og efnahagurinn fór batnandi. En hestarnir urðu að vera þungir og þeir kröfðust meira kjarnfóðurs en uxarnir. Síðar komu dráttvélar (tractors) til sögunar og höfðu þeir langtum meira afl en dráttar dýrin. Tóku nú margir að hugsa sér að alt þetta vélaafl mætti nota til þess að plægja upp ræturnar. Vandinn var að koma því svo fyrir að ræturnar rækjust ekki upp undir máttarslána og spenti þar með plóginn upp úr plógfarinu. Helgi sál. fann upp slíkan plóg og þótti hann svo ágætur að verkfærafélag í Winnipeg ætlaði að kaupa einkarétt á smíðinu fyrir fimtíu þúsund dollara borgun til uppfyndingarmannsins 1914. Þá skall fyrra veraldarstríðið yfir og varð því ekki af framkvæmdum.“

(Höfundar greinarinnar um Helga voru John Sigurjónsson og H. E. Johnson: innskot JÞ)