Björg J. Thorkelson

Vesturfarar

Rannveig Björnsdóttir Fór vestur um haf ársgömul með foreldrum sínum, Birni Þorsteinssyni og Þuríði Hjálmsdóttur árið 1887. Þau bjuggu í Lundarbyggð þar sem Rannveig ólst upp. Hún giftist Björgvini Guðmundssyni og skrifaði sig eftir það Gudmundson. Hún skrifaði þátt um Björgu Jónsdóttur, kennslukonu, sem birt var í ritinu Lundar Diamond Jubelee  og prentað í Winnipeg árið 1947. Þar segir hún:

Franklinskóli  Mynd WtW

,,Björg J. Thorkelson kenslukona var fædd 3. nóv. 1868 á Íslandi. Foreldrar hennar voru  þau Jón Jónatansson Thorkelsonar, og kona hans Guðrún Sveinungadóttir. Björg kom vestur um haf árið 1883. Sýnir það bezt hæfileika hennar, að hún braust í gegnum skólanám, og var henni veitt kennaraleyfi 1890, sjö árum eftir að hún kom vestur um haf. Var hún því fyrsti Íslendingurinn sem útskrifaðist frá kennaraskólanum í Winnipeg. Stundaði hún kenslu í Manitoba og Saskatchewan yfir 30 ár, en heimili hennar var ávalt hjá systur hennar, Guðleifu Johnson, í Grunnavatnsbygðinni og hjá henni var hún eftir að hún hætti kenslu. Hún kendi á Franklin skóla í Álftavatnsbygõinni 1893 og var því ein af fyrstu kennurum í þeirri bygð, og á Markland skóla 1899 og 1900. Flestir land skólar á þeim tímum voru starfandi aðeins yfir sumar mánuðina. En Björg hafði ætíð skóla í heimahúsum yfir vetrarmánuðina, oftast á heimili systur sinnar, og kendi hún þar þeim börnum, sem ekki áttu kost á annari skólagöngu, og margir voru þeir unglingarnir sem fengu sína fyrstu tilsögn hjá henni, og sumir fengu aldrei aðra skólafræðslu en það sem hún kendi þeim í heimahúsum á vetrum. Hún var framúrskarandi samvizkusöm, og hafdi yndi af því að fæða aðra á því sem hún kunni, og væri hún með börnum eða unglingum var hún æfinlega að fræða þau um eitthvað.                                                                                                                                                            Eg hefi aldrei þekt neinn, sem kunni eins mikið af sögum fyrir börn, eða gat sagt þær eins við hæfi barna. Hún elskaði blómin og fuglana og alt sem fallegt var í náttúrunni, og ef hún kom því ekki inn hjá börnunum að meta dýrð náttúrunnar þá var það ekki hægt. Hún var mjög fróðleiksfús, og er það þess vert að þess sé minst, að á síðustu árum æfi sinnar, lærði hún frönsku svo vel tilsagnarlaust að hún gat lesið hana sér til gagns og gamans. Einnig var hún að læra spönsku, og  fanst hún mjög létt, er þetta merkilegt fyrirbrigði um konu á áttræðis aldri.  Sig. J. Jóhannessyni farast þannig orð í æfiminningu hennar: Björg andaðist 15. marz 1948, að heimili systur sinnar. Kvaddi þar einn vorra andlegu landnema, hún nam land í sálum íslenzkra barna og ræktaði það og bIómgaði. Það verður aldrei sýnt með tölum né reikningi hversu miklu var til leiðar komið í því landnámi á frumbýlings árum vorum hér. Það verk fór fam hljótt og hávaðalaust eins og líf þessarar göfugu systur vorrar.“