Dr. Baldur H Kristjánson

Vesturfarar

University of Manitoba Mynd JT

Hannes Kristjánsson, kaupmaður á Gimli, lagði mikla áherslu á að börn hans færu menntaveginn. Synir hans Baldur, Kristján, Albert, Luther, Ragnar og Leó Frímann luku allir doktorsprófi frá bandarískum háskólum. Baldur, þeirra elstur, ruddi brautina og varð nokkurs konar fyrirmynd. Hann lauk sínu doktorsprófi í hagfræði frá University of Wisconsin árið 1949. Ágæt lýsing á lífshlaupi hans er að finna í VÍÆ IV bls. 173-75. Þar segir að árið 1941 hafi hann fengið stöðu við landbúnaðarráðuneyti Kanada og var vinna hans að rannsaka og gera áætlanir að áveituframkvæmdum og akuryrkju í Alberta í Kanada en skoðum nú framhaldið eins og því er lýst í áðurnefndri grein:,, Gerðist 1945 kennari í búnaðarhagfræði við Saskatchewan-háskóla, en ári seinna fyrirlesari við Wisconsin-háskóla, lauk þar Ph.D prófi í hagfræði 16. júní 1949. Prófessor í landbúnaðarhagfræði við háskóla Norður Dakota 1948-56. Forstjóri fyrir samvinnufélaga- og sameignarbankadeild landbúnaðarráðuneytis Canadastjórnar í Ottawa. Fulltrúi Canada í fimm þjóða nefnd 1958 á vegum Harvard háskóla til að skipuleggja framleiðslu og atvinnuvegi í Íran. Dvaldist þar hálft annað ár og hafði umsjón með landbúnaðardeild þessa starfs.  Ráðinn 1959 til að vera ritari fyrir Resources for Tomorrow Conference, sem var ráðstefna til að rannsaka og gera áætlanir um framtíðarnotkun auðlinda Canada. Hafði hann yfirumsjón með þessari ráðstefnu og gaf úr þriggja binda skýrslu um hana er henni var lokið. Í framhaldi af þessu starfi kom ARDA (Agricultural and Rehabilitation Development Act) löggjöfin, sem miðar að aukinni framleiðslu og bættum kjörum manna í fátækari landshlutum Canada, og var hann einn þeirra, sem lögðu hönd að samningu hennar. Skipaður 1963 aðstoðarráðherra í landbúnaðarráðuneyti Canada, en flutti sama ár til Manitoba og var skipaður forstjóri fyrir Manitoba Economic Consultative Board, en síðar varaforstjóri og svo forseti. Einnig var hann skipaður forstjóri og síðar aðstoðarráðgjafi fyrir Manitoba Development Authority, en hvort tveggja stofnunin miðar að því, að auka atvinnuvegi og efla hag Manitobafylkis. Árið 1969 var hann fenginn sem hagfræðilegur ráðunautur fyrir stjórn Tanzaníu í Afríku, þar sem hann vann að skipulagningu atvinnumála. Er hann kom til baka í nóv. 1969 tók hann aftur við starfi sínu sem hagfræðilegur ráðunautur stjórnar Manitobafylkis. Hann er meðlimur fjölda nefnda og félaga, aðallega þeirra, sem bundin eru við landbúnað. Sæmdur Þjóðhátíðarmedalíu Canadastjórnar 1967, og heiðursprófessor í búfræði frá Manitobaháskóla.“