Jóhannes Sigurgeirsson

Vesturfarar

Séra Kristinn K. Ólafsson var mágur Jóhannesar Sigurgeirssonar og skrifaði grein um lífshlaup hans að honum látnum.  Árið 1946 var sú grein birt í Almanaki Ólafs Þorgeirssonar og fylgir hér á eftir. Hún er athyglisvert dæmi um landnemason, fæddan í ungri, íslenskri nýlendu í Kanada árið 1880 og elst upp meðal íslenskra frumbyggja í Norður Dakota, ekki aðeins um nám hans og lífsstarf heldur og hvernig hann ræktaði íslenskan uppruna sinn alla tíð.:

,,Íslendingar í Ameríku hafa lagt sig mjög eftir kennarastarfi. Þeir hafa eflaust tekið meiri þátt í þjóðlífinu á þessu sviði en búast hefði mátt við eftir fólksfjölda. Kensla og nám hafa auðkent mjög mörg íslenzk heimili. Eitthvað af þeim áhrifum virðist hafa beint merkilega mörgum að því hér á vesturslóðum að gerast kennarar. Frá barna skólanum upp að völdustu sessum við háskólana verður fyrir manni urmull kennara af íslenzkri ætt. Það, sem mest er um vert, er að yfirleitt hafa þessir kennarar getið sér hinn bezta orðstýr. Margir verið yfirburða kennarar. Einn þeirra er langan og merkilegan feril átti og bar merki stöðu sinnar hátt var Jóhannes (John) S. Björnson, er lézt í Chicago 25. september 1944. Það var sem tákn þess hve kennarastarfið var honum samgróið, að hann kendi sínar venjulegu kenslustundir síðasta daginn sem hann lifði. Hann lifði allur í starfinu. Jóhannes var, er hann endaði skeið sitt, yfirkennari í sögudeild Steinmetz miðskólans (High School) í Chicago. En auk þess átti hann að baki sér mikinn og góðan þátt í félagslífi Íslendinga í Chicago um tvo tugi ára. Forysta hans í þeim efnum var kunn og metin af öllum er til þektu. Hann var hafinn yfir meðalmensku í öllu er hann tók sér fyrir hendur. “

Gustavus Adolphus College Mynd St. Peters Archives

Æskan og ferillinn: ,,Foreldrar Jóhannesar voru þau hjónin Sigurgeir Björnsson og Guðfinna Jóhannesdóttir. Þau fluttust til Ameríku frá Haga í Vopnafirði árið 1876, en voru Þingeyingar að ætt og höfðu alið mestan aldur sinn í Mývatnssveit. Þau lentu með stóra hópnum til Gimli og bjuggu þar í grend um fjöra ára skeið. Það fæddist Jóhannes 15. febrúar 1880. Á því ári flutti fjölskyldan til Dakota og bjó þar ætíð síðan, fyrst í Garðarbygð og síðan í Víkurbygð útfrá Mountain og í þorpinu sjálfu. Frá barnæsku sýndi Jóhannes sterka hneigð til náms. Auk venjulegrar barnaskóla mentunar naut hann þeirrar verðmætu heimakenslu sem auðkendi beztu íslenzk sveitaheimili. Faðir hans var lengi bókavörður í lestrarfélagi nágrennisins. Það var fengur fyrir bókhneigðan ungling að bergja þar af brunni íslenzkra bókmenta og seilast um leið eftir getu til alls þess er hann gat komist yfir af amerískum og enskum bókmentum. Honum reyndist eins og fleirum að heimakensla og heilbrigð lestrarfýsn eru haldgóður grundvöllur til áframhalds á mentaleiðinni. Barnaskólanámi lauk hinn bráðþroska unglingur mjög ungur. Þá voru miðskólar óvíða á þessum slóðum og skortur á efnum að kosta unglinga að heiman. Varð hann fyrir því láni eins og margir fleiri að séra Friðrik J. Bergmann tók að sér að undirbúa hann undir mentaskóla. Það var hvortveggja að séra Friðrik var frábær kennari og líka hitt að heimakensla sú er hann veitti opnaði mörgum efnilegum ungling tækifæri til náms, sem annars hefði farið þess á mis. Þegar góð byrjun var fengin og öflug hvatning, snéru fáir aftur nema einskis annars væri kostur. Jóhannes bar gæfu til þess að vera studdur til náms áfram af foreldrum sínum. Sókti hann Gustavus Adolphus College í St. Peter, Minnesota, og útskrifaðist þaðan með B.A. mentastigi vorið 1901. – Samhliða námi hafði hann af og til frá því hann var sextán ára gamall fengist við kenslu við barnaskóla í heimabygð sinni. Féll honum starfið mjög vel og naut hylli sem kennari. Að loknu námi var því lífsstaðan sem sjálfkjörin. Gerðist hann skólastjóri að Mountain og hélt þeirri stöðu  við bezta orðstýr. Hann hafði frábært lag á því að glæða áhuga og mentafýsn hjá æskulýðnum, og urðu þeir margir er töldu það hið mesta lán sitt að hafa notið hans sem kennara. Tók hann einnig mjög tilþrifamikinn þátt í félagslífi bygðarinnar. Hann hafði áreiðanlega lent á réttri hyllu í lífinu. Hann var vígður starfinu til lífstíðar. 

Steinmetz High School

Á framandi slóðir: Eftir að hann hvarf úr heimabygð sinni veitti hann forstöðu skólum í Inkster og LaMoure í Norður Dakota og í háskólabænum Vermillion í Suður Dakota. Auk þess var hann um hríð aðstoðar eftirlitsmaður skóla (Deputy County Superintendent) í Grand Forks sveit (County) í Norður Dakota. Stundaði hann jafnhliða áframhaldsnám  við ríkisháskólann þar og tók meistarapróf (M.A.) í sögu. Hann tók ástfóstri við þá námsgrein og kendi á því sviði ætíð síðan. Hann kaus að hverfa frá skólastjórn til þess að gefa sig óskiptan að kenslu. Það leiddi til þess að árið 1923 færði hann sig til Chicago. Var hann þar kennari fyrst um langt skeið við Harrison Technical High School og síðan við Steinmetz High School. Við síðari skólann, sem er einn af stærstu miðskólum borgarinnar, skipaði hann forstöðu í sögudeild skólans (Head of the Social Science Department). Varð hann skjótt í miklu áliti bæði hjá meðkennurum sínum og nemendum. Prívat bókasafn hans var orðlagt, og jók hann sífelt við það. Fylgdist hann með afbrigðum vel með öllum markverðustu ritum er snertu sögu Badnaríkjanna, svo fáir stóðu honum þar á sporði. Jós hann sífelt af ferskum brunni víðtækrar þekkingar við kensluna, og hélt þannig athygli og áhuga nemendanna langt fram yfir það venjulega. Dæmafátt mun vera hve margir af nemendum hans tóku ástfóstri við hann og töldu hann sinn ágætasta kennara. Er það þó sízt talið auðvelt hlutverk að ná tökum á æskulýð stórborganna. Ekkert ár leið svo hjá að hann fengi ekki ítrekaðan vitnisburð um trygð nemenda sinna og kærleika. Það auðnast einungis kennurum af Guðs náð. 

Íslenskur félagsskapur: Frá barnæsku hafði Jóhannes tekið ástfóstri við íslenzkt mál og menningu. Þó hann um langt skeið væri fjarlægur Íslendingum var trygð hans í þessu efni óbreytt. Einar Kvaran sagði um hann er hann kyntist honum að hann talaði gullaldar íslenzku. Eðlilega hafði hann hug á öllu íslenzku og vildi liðsinna öllum íslenzkum velferðamálum. Þegar hann kom til Chicago mátti heita að Íslendingar þar vissu varla hver af öðrum, og um félagsleg samtök var ekki að ræða. Átti hann með öðrum góðum mönnum mikinn þátt í því að stofna Íslendingafélagið “Vísir“, sem nú er deild í Þjóðræknisfélagi Vestur-Íslendinga. Í þrettán ár var hann forseti þess félagsskapar, og ber það vott um þann hlut er hann átti að máli um velferð þessara íslenzku samtaka. Félagið var óskabarn hans, og persónulegar vinsældar hans voru því að miklu liði, auk þeirra stöku alúðar er hann lagði við starfið. Annað Íslendingafélag átti hann þátt í að stofna í Chicago. Mun það félag einstakt í sinni röð í sögu vestur Íslendinga. Ber það hið einkennilega nafn “T.N.T. & Company“. Oftast eru um tólf meðlimir í félaginu. Fundir eru haldnir einu sinni í mánuði árið um kring. Njóta meðlimirnir á undan kvöldverðar saman í norska klúbbi borgarinnar. Á hverjum fundi flytur kjörinn meðlimur erindi um efni er hann hefir tilkynt á næsta fundi á undan. Röðin kemur að hverjum meðlimi sem næst einu sinni á ári. Erindið og efni þess er svo rætt af fundarmönnum. Mannval er hið mesta í hópnum, svo mörg hugðnæm erindi eru flutt og umræður fjörugar og vekjandi. Ekki er neitt jábræðrasnið á því sem fram fer. Það eru óskrifuð lög að allir tali fullum hálsi, og að enginn liggi á skoðun sinni. Mjög frábreyttar skoðanir um mörg efni ríkja meðal meðlimanna, svo oft verða allsnarpar deilur. Ber það við að menn ganga í skrokk hver á öðrum all-óþyrmilega, en alt þó í mesta bróðerni. Má telja það holla reynslu að eiga hlutdeild í slíku. Allir meðlimir klúbbsins eru íslenzkir, en erindin og umræður yfirleitt á ensku. Fundir eru sóktir af stakri reglusemi.- Jóhannes var máttarstólpi þessa félags frá byrjun og átti mikinn þátt í að marka feril þess. Það er áreiðanlega markvert fyrirbrigði í sögu vestur-íslenzkrar menningar. Síðustu sjö árin var Jóhannes mjög farin að heilsu. Hann varð fyrir slag og náð sér aldrei til fulls. Eftir sex mánaða uppihald tók hann aftur að kenna. Einnig hélt hann áfram rækt sinni við félögin íslenzku, en nú varð hann að halda aftur af sér og gæta kraftanna. Auróra systir hans hélt heimili með honum og hennar frábæra ræktarsemi var honum hin mesta hjálparhella. Hún vakti yfir velferð hans og lét ekkert á vanta að þjóna hverri hans þörf. Hún er áfram til heimilis í Chicago. Einn bróðir er á lífi, Aðalsteinn gullsmiður í Devils Lake, North Dakota. Systur hans nú látnar, Petrína kona Jóns Thorlakssonar um eitt skeið í Winnipeg, og Friðrika kona séra Kristins K. Ólafssonar. Með Jóhannesi Björnson er fallinn atkvæðamikill kennari, ötull forystimaður í félagsmálum, sannur Íslendingur og drengur bezti.