Magnús Magnússon

Vesturfarar

Magnús Magnússon var sonur Magnúsar Magnússonar og Sigríðar Jónsdóttur. Föðurbróðir Magnúsar yngra var Eiríkur Magnússon, fræðimaður í Cambridge og til hans fór hann árið 1884.  Þar ólst hann upp, gekk í skóla og las einhver ár latínu og grísku í Cambridge háskólanum. Hann þótti vel heima í bókmenntum og norrænum fræðum. Hann fór heim til Íslands árið 1898 og fékk kennarastarf í Reykjavík. Þar kynntist hann Ásthildi. Skömmu eftir aldamótin var ný kennarastaða í íslenskum fræðum og íslenskri tungu stofnuð við Gustavus Adolphus háskólann í St. Peter í Minnesota. Hann var upphaflega stofnaður af sænskum innflytjendum og á síðustu áratugum 19. aldar sóttu þangað í nám íslensk ungmenni frá Íslendinga-byggðunum í Minnesota, N. Dakota og Manitoba. Sennilega hefur það ráðið úrslitum með stofnun kennarastöðunnar í íslensku og íslenskum fræðum. Magnús var ráðinn og hélt utan árið 1905. Nokkurrar bjartsýni gætti hjá norrænum innflytjendum í Ameríku með þessa nýju stöðu. Sænskir, norskir og danskir fræðimenn vestra þekktu vel til íslensks menningararfs og hafa eflaust vonað að glæða mætti áhuga, ekki aðeins íslenskar námsmanna vestra, heldur og margra af öðru ætterni. En sú varð ekki raunin og eftir einhver ár var þetta embætti lagt niður við skólann.

Svona leit Gustavus Adolphus skólinn út þegar Magnús kom þar fyrst.