Skúli Sigfússon

Vesturfarar

Skúli Sigfússon vann hin ýmsu landbúnaðarstörf eftir að hann kom frá Íslandi í Lundarbyggð árið 1887. Hann vann hjá íslenskum og enskum bændum fyrstu árin enda á táningsaldri og reynslulítill. Mest vann hann hjá Jóni bróður sínum sem snemma tók þá ákvörðun að nautgriparækt var öruggari atvinnugrein en akuryrkja vegna þess að dæmi voru um miklar frostskemmdir á hveitiökrum bænda í Manitoba og vestur á sléttunni á landnámsárum þeirra um 1890.

Landbúnaður í Norður Ameríku á Vesturfaratímabilinu 1870-1914 snerist fyrst og fremst um framleiðslu á markað, þörfin á hvers kyns matvælum á þessum árum þegar milljónir fluttu árlega vestur til Bandaríkjanna og Kanada var gríðarleg. Borgir risu í öllum ríkjum Bandaríkjanna og fylkjum Kanada og þangað urðu bændur að koma framleiðslu sinni á markað. Stjórnvöld unnu mikið verk við skipulagningu flutningaleiða og treystu mest á járnbrautafyrirtæki. Bæði í Kanada og Bandaríkjunum þurfti að koma innflytjendum í vestur á slétturnar og þegar árin liðu og bændur höfðu náð tökum á akuryrkju og nautgriparækt fluttu sömu járnbrautafyrirtæki afurði á markað í stórborgunum í austri.  Járnbrautafyrirtækin fengu ekki mikið fé frá stjórnvöldum fyrir brautalagningu, greiðslan til þeirra voru löndin sem lágu að járnbrautinni sem eðlilega voru verðmætust og seldust strax á háu verði. Bændur næst járnbrautinni áttu greiðustu leið á markað.

Árið 1886 lá fyrir ákvörðun í Manitoba að járnbraut yrði lögð frá Winnipeg austan við Manitobavatn og alla leið norður til Hudson Bay. Þessi ákvörðun  skipti landnámsmenn miklu máli og réði ákvörðun Jóns Sigfússonar að nema land á svæði þar sem fyrirhuguð járnbraut yrði lögð. Vinna hófst við járnbrautarlagninguna frá Winnipeg en árið 1888 var henni hætt og lagningu brautarinnar frestað um óákveðinn tíma.  Oak Point við Manitobavatn kom snemma við sögu skinnaverslunarinnar í Vestur Kanada. Þar hafði Hudson’s Bay félagið komið sér fyrir snemma á 19. öld. Í manntal í Manitoba árið 1870 er greint frá fólki í Oak Point sem þar fæddist árið 1810. Fyrirtækið undirbjó skinnaverslunina og reisti verslunarstað. Þar voru fyrstu nautgripir ræktaðir og um miðja öld voru þar eitt sinn 500 uxar. Uxar þessir voru notaðir til flutninga á skinnum alla leið suður til St. Paul við Mississippiána í Minnesota.  Norður við Hudson Bay flóa var annar verslunarstaður, York Factory, en þangað voru skinn flutt á bátum eftir Winnipegvatni og niður Nelson ána sem þótti ætíð afar varhugaverð vegna flúða. Canadian Northern Railway lauk loks við járnbrautarlagninguna til Oak Point árið 1904 og til Lundar náði brautin loks árið 1911.  Slóði lá frá Winnipeg norðvestur að Manitobavatni og meðfram vatninu norður eftir. Þetta car svokölluð Colonization Road sem var mikið notuð.

Skúli Sigfússon sá snemma tækifæri í nautgriparækt og verslun með gripi. Hann byrjaði sjálfur með 42 skepnur en þegar mest var hafði hann um 230. Hann lagði mikla áherslu á kynbætur og prófaði sig áfram með ýmsar tegundir eins og Herford, Gallaway, Short Horn og Aberdeen Angus. Hann rak sjálfur sína gripi til Winnipeg og seldi þar. Margir íslenskir landnámsmenn sem voru með griparækt nýttu sér rekstur Skúla og seldu honum umfram gripi svo árlega rak hann myndarlega hjörð suður á bóginn og hafði sér til aðstoðar kúasmala og minnti reksturinn oft á viðlíka rekstur í hinu svokallaða ,,Villta vestri“ með tilheyrandi köllum og hundagá. Athafnasamir aðilar vestur á sléttunni fréttu af þessu fyrirtæki Skúla og leituðu til hans með kaup á gripum. Skúli dró úr eigin framleiðslu snemma á 20.öld og 1908 hóf hann stórfellda gripaverslun. Bændur langt norður í byggðir við Manitobavatn þótti gott að eiga viðskipti við Skúla því hann þótti sanngjarn og tilhliðrunarsamur í viðskiptum.