Eiríkur Jónsson Scheving fór 14 ára gamall vestur til Winnipeg í Manitoba og hafðist við hjá bróður sínum, Stefáni skósmið, sem þangað fór árið 1887. Eiríkur fæddist sjóndapur og vonaðist til að finna lækningu vestra. Hún fannst ekki og snemma á fyrsta áratug 20. aldar var hann blindur. Frændur hans tveir, Högni og Eiríkur Guðmundssynir voru honum samferða vestur árið 1889 og settust þeir báðir að í Lundarbyggð. Dóttir Högna, Björg, f. 22. júlí 1890 giftist Birni Björnssyni úr N. Múlasýslu árið 1910 og hét það Laufás þar sem þau bjuggu í Lundarbyggð. Þau veittu Eiríki húsaskjól og þar naut hann sín alla tíð. Hann var listrænn og vann hluti úr horni, málm og tré. Hlutir eftir hann fengu viðurkenningu á ýmsum sýningum í Kanada. Þá var hann tónlistarmaður og lék prýðilega á fiðlu, orgel og flautu. Hann hafði gaman af ljóðagerð, orti talvert sjálfur og birtust vísur og kvæði eftir hann í íslenskum blöðum og tímaritum vestra. Hann tók virkan þátt í félagsmálum í Lundarbyggð, var í Þjóðræknisfélaginu og söng í kirkjukór. Sigurður Baldvinsson* kynntist Eiríki og skrifaði um hann í Almanakið 1944. Þar segir:
,,Eiríkur Jónsson Scheving Einarssonar Stefánssonar prests á Presthólum Lárussonar Klausturhaldara, Hannessonar sýslumanns, Lavrenssonar sýslumanns í Eyjafirði, frá Scheving á Jótlandi, er fæddur á Hólalandi í Borgarfirði eystra 11. nóvember, 1874. Móðir hans er Guðný Eiríksdóttir, Jónssonar frá Hleinargerði í Eyðaþinghá. Hann ólst upp með foreldrum sínum til 14 ára aldurs, þá fór hann til Ameríku og leitaði á fund Stefáns bróður síns, sem hingað var fluttur fáum árum áður, og búsettur í Winnipeg.
Eiríkur varð fyrir því mótlæti, að missa sjón á báðum augum tveggja ára gamall, en sá þó ofurlitla glætu til 30 ára aldurs. Þá varð hann stein blindur og ástæðan fyrir því, að hann fór svo ungur til Ameríku, var sú, að hann bjóst við að hérlendir læknar gætu bætt sér sjónleysið. En þrátt fyrir margar tilraunir þeirra, varð enginn árangur af því, til gagns. Þegar Eiríkur sá að engin von var um bata við sjónleysi sínu, leitaði hann til frænda sinna, Eiríks og Högna, bænda í Laufási við Lundar. Fékk hann bestu viðtökur og lifði í skjóli þeirra bræðra, þangað til að þeir báðir voru látnir, og síðan hefir hann dvalið hjá Björgu, dóttur Högna, konu Björns Björnssonar bónda í Laufási, ætíð vel og virðulega haldinn, sem væri hann af fjölskyldunni. Eiríkur hefir unnið mikið og margt á heimili sínu því hann er dverg-hagur, bæði á tré, horn og málm. Að mínu áliti er Eiríkur flug-gáfaður maður, sem hinir eldri forfeður hans. Les t.a.m. með fingurgómunum upphleypt rúnaletur blindra manna eins fljótt og meðal maður venjulegt letur, og getur því numið fróðleik mikinn í myrkrinu við borð sitt. Hann spilar dável á fiðlu og orgel og syngur í kirkjunni á Lundar við messugerðir, með fullum rómi.
Eiríkur hefir smíðað marga húsmuni, og alla með snilldarbragði, og nokkra göngustafi úr stáli og horni, svo haglega, að eg hefi aldrei séð slíkt listaverk, af því tagi, og borgað hefir verið fyrir þá eins hátt og $50.00. Stafur sá, er hann gengur við daglega, ætti að vera á þjóðminjasafni Íslands, svo er hann haglega greyptur saman af svörtu Buffaló horni og ljósgráðu nauts horni. Nú er Eiríkur 65 ára, en hraustlegur og ern, og gengur teinréttur um strætin á Lundar, við stafinn sinn, eins ratvís og þeir, sem fulla sjón hafa. Hann er fróður um margt og sannorður. Eg hefi fjölyrt um Scheving af því, að ég álít hann sé aðdáanlega vel gefinn maður. Hann ber mótlæti sitt vel, og hefir sýnt oss, að hann hefir sigrast á því, en það ekki sveigt hann. Nefnilega, hann hefir unnið þau verk sjónlaus, sem fáir hefðu getað með fullri sjón.“
*Sigurður Baldvinsson fór vestur til Winnipeg í Manitoba árið 1902 og nam land við norðanvert Manitobavatn.