Emile Walters

Vesturfarar

Winnipeg, höfuðból Íslendinga í Norður Ameríku, stærir sig stundum af því að fjölmargir, heimsfrægir listamenn eigi rætur sínar þar í borg. Frá 1875 lá þangað straumur Íslendinga sem freista vildu gæfunnar í Vesturheimi, skapa sér og sínum betra lífsviðurværi en blasti við á Fróni. Fólk þetta staldraði sumt við í borginni einhvern tíma, sumir fóru strax til ættingja og vina einhvers staðar í Vestur Kanada eða N. Dakota í Bandaríkjunum, aðrir hugsuðu ráð sitt áður en framtíðin var ákveðin og stefna tekin á landnám. Sumir fóru aldrei lengra og bjuggu sitt ból í borginni og lifðu þar alla ævi. Þar fæddust íslensk börn, sum slitu þar barnskónum önnur hurfu út í íslenskar sveitir í nærliggjandi fylkjum Kanada eða ríkja Bandaríkjanna. Þannig var um Emile Walters, listamann sem átti eftir að öðlast frægð og frama vegna listaverka sinna. Þórstína Þorleifsdóttir skrifar um hann í bók sinni ,,Saga Íslendinga í N. Dakota“ sem út kom árið 1926. Af öllu því fólki sem hún fjallar um er minnst fjallað um æsku Walters. Hún rekur hins vegar ættir hans nokkuð. Hvergi nefnir hún þá staðreynd að hann var eiginmaður hennar eða hvaða ár hann var fæddur. Faðir hans lést 1891 í Winnipeg en þangað kom hann 1877. Ekki greinir hún frá því hvort foreldrar hans hafi verið hjón, ljóst að þau fóru vestur til Winnipeg sama ár á sama skipi frá Sauðárkrók. Sú staðreynd að Emile var tekinn í fóstur barnungur af Guðlaugi Kristjánssyni og konu hans, Önnu Þorleifsdóttur kann að vera skýringin. Þórstína skrifar:

Roosevelt’s Haunts, Early Autumn      Málverk eftir Emile Walters    Courtesy of the National Gallery, Washington, D. C.

Uppruni: ,,Skagafjörður hefir ætíð þótt atkvæðamikil sveit, og meðal annara stórmenna, ættaðra þaðan er myndhöggvarinn heimsfrægi, Albert Thorvaldsen. Fyrir nokkrum árum var íslenzkur drengur af skagfirskum ættum að vinna fyrir sér með því að mála hús í Garðarbyggð í Norður-Dakota. Þegar tóm gafst frá vinnunni, stytti hann sér stundir með því að mála myndir á botnana og lokin á könnunum. Fáir myndu víst hafa spáð því , að ekki mörgum árum seinna yrði málverk eftir hann valið til þess að skreyta þjóðlistasafn Bandaríkjanna í Washington, og að hann yrði sá yngsti listamaður, þannig heiðraður. Sömuleiðis að sú mynd yrði valin sem ein af þrjátíu myndum eftir ameríska listamenn, til þess að vera sýnd á öllum helztu listasöfnum landsins. Ekki hefðu menn heldur tekið það í mál, að mynd þessi yrði máluð á búgarði Theodore Roosevelts, fyrrum Bandaríkjaforseta, og að hinn ungi listamaður yrði handgenginn Roosevelt-fjölskyldunni. (Gaman að geta þess hér að þessi forseti gaf íslenskum landnemum leyfi til búsetu á Point Roberts í Washingtonríki vestur við Kyrrahaf árið 1907: Innskot Jónas Þór) Emile Walters er fæddur í Winnipeg, en fluttist fárra ára gamall til íslenzku bygðarinnar í Norður-Dakota. Faðir hans var Páll Valtýr Eiríksson (Páll Valdimar Eiríksson í manntali Þjóðskjalasafns Íslands frá 1880: innskot Jónas Þór) frá Bakka í Viðvíkursveit í Skagafirði. Faðir Páls var Eiríkur Bjarnason, Eiríkssonar prests í Blönduhlíð, Bjarnasonar, Eiríkssonar hins ríka, sem eitt sinn bjó í Djúpadal. Móðir Páls var Hólmfríður Gísladóttir frá Lóni. Móðir Hólmfríðar var Anna Halldórsdóttir, Brynjólfssonar, Halldórssonar biskups á Hólum í Hjaltadal. Móðir Emile’s er Björg Jónsdóttir frá Reykjum á Reykjaströnd. Móðir hennar var Guðrún Steinsdóttir frá Barkarstöðum í Svartárdal. Kona Steins, móðir Guðrúnar, var Björg Pétursdóttir frá Geirmundarstöðum í Sæmundarhlíð í Skagafirði. Kona Bjarna á Bakka, langamma Emile’s var Dýrleif systir Önnu í Flatatungu, ömmu dr. Gíslasonar í Grand Forks og þeirra systkina. Föður sinn misti Emile ungur, og átti ekki neitt verulegt heimili í nokkur ár, þar til Guðlaugur Kristjánsson, nú búsettur í Wynyard, og kona hans tóku hann til fósturs, og reyndust honum sem ástríkir foreldrar. Þegar hann stálpaðist, starfaði hann að því að mála hús, fyrst í Dakota og síðar í Vestur-Kanada.“

Listmálari: ,,Eftir því sem hann eltist, óx sú þrá, að fara í listaskóla, meir og meir. Ýmsir af þeim, sem hann trúði fyrir þessari löngun sinni, réðu honum frá því, sögðu að það væri mesta fásinna, nærri því ískyggilegt að hugsa til þess. Þrátt fyrir allsleysið, tæpa heilsu um tíma og ýmsa aðra erfiðleika, tókst honum að vinna sig gegnum listaskólann í Chicago (The Art Institute of Chicago); og skömmu síðar fór hann til New York, og þar fékk hann að ganga ´´’i gegnum þann hreinsunareld, sem borg sú krefst vanalega af ókunnum hæfileikamönnum, áður en hún álítur þá þess verða, að rísa upp úr miljóna mannstraumnum á einu eða öðru sviði. Í New York hitti Emile íslenzka myndhöggvarann fræga, Einar Jónsson, og tókst brátt með þeim vinskapur. Hvatti Einar hinn unga listamann til þess að afla sér meiri mentunar, og skömmu seinna byrjaði hann nám við Pennsylvania Academy of Fine Arts í Philadelphia. Nokkru þar á eftir voru auðmanninum og listavininum Louis C. Tiffany sýnd verk eftir hann. Tiffany var þá rétt í þann veginn að koma á fót stofnun til styrktar listamönnum og list, og veitti hann Emile $2000 styrk. Eftir það fór róðurinn að verða léttari. Litlu seinna málaði hann á óðalsetri Roosevelts forseta “Roosevelt´s Haunts, Early Autumn“ er vakti ekki einu sinni eftirtekt í Bandaríkjunum, heldur og líka í öðrum löndum. Hlaut hún verðlaun, bæði í New York og Chicago, og er nú eign Þjóðlistasafnsins í Washington. Margar fleiri af myndum Emile´s hafa hlotið verðlaun, og málverk eru eftir hann á tuttugu listasöfnum, einnig á prívat- söfnum og skólum og háskólum. Meðal vel-þektra máverka hans eru: “Morning Light“, eign háskóla Saskatchewan-fylkis í Canada: ,,Early Spring“, keypt af nokkrum auðmönnum fyrir skólana í Pittsburgh; “Birches in Winter“, Museum of Fine Arts, Houston, Texas;“Depths of Winter“ Heckschser Museum, Huntington, Long Island, o.fl. “Blossom Time in Canada“ hefir nýlega verið til sýnis á Tate Gallery, þjóðlistasafni Englands, og hlotið mikið hrós. Tvær myndir, “Winter“ og “Storm“ voru keyptar af miðskóla Saskatoonborgar í Canada, til minningar um tvo íslenzka pilta, sem féllu í stríðinu, Jakob og Skúla Líndal. “April Snow“ er í listasafni Norman McKenzie, Regina, Canada, stjórnanefndarmanns þjóðlistasafnsins í Ottawa í Canada. Nýlega var honum boðið að senda mynd á sýningar í Mið – og Suður Ameríku, og var hann einn af fáeinum amerískum listamönnum, sem sá heiður hlotnaðist. Hann sýnir árlega málverk á alheims-listasýningu Carnegie Institute í Pittsburgh. Mörg tímarit, er aðallega fjalla um listir, hafa lokið miklu lofsorði á málverk Emile’s. Meðal þeirra er American Art News, New York; International Studio, London og New York; Parísar-tímaritið “La Reuve Moderne “ o.fl. Stórblaðið New York Times kallaði nýlega verðlaunamynd hans,“Full Bloom“, skáldlegan vordraum, sem sýndi skýra og sterka drætti í gegnum blámóðu vorloftsins og litfegurð blómanna. Mörg listamannafélög hafa heiðrað Emile. Er hann meðlimur ýmsra markverðra klúbba, svo sem Salmagundi Club í New York, Art Club of Philadelphia, Boston Art Club og fleiri.

Manngerðin: Í framkomu er Emile hægur og blátt áfram. Hann er bjartsýnn og getur verið fyndinn þegar svo við horfir. Hann finnur mikla nautn í því að lesa góðar bækur og hlusta á fagra sönglist. Ein af bókum þeim, sem hann heldur mikið upp á, og ferðast hefir með honum víða, er Grettis saga, sem K.N. gaf honum á Garðar, og mun það hafa verið einhver sú fyrsta bók, sem hann eignaðist. Hann kýs að mála náttúruna með friðsömum blæ, og virðist vera heima í hverri helzt árstíð sem er. Þegar hann leiðir mannlífið fram á sjónarsviðið, er það laust við öldurót óeirða og erfiðleika. Öll líkindi eru til þess að listamaður þessi muni um langt skeið enn vefa skáldskapardrauma síns íslenzka eðlis inn í ameríska náttúru, og draga athygli umheimsins að fegurð og aðdráttarafli Vínlands forfeðra sinna“.

Á ferðum mínum um íslenskar byggðir í Norður Ameríku hef ég margsinnis rekið augun í myndir eftir Walters. Bæði fundið þær á einkaheimilum t.d. í Minneapolis, Washingtoneyju í Wisconsin, Utah og Seattle. Á dvalarheimilinu Skálholt í Blaine í Washington hanga nokkrar svo og á sams konar heimili, Borg, í Mountain í N. Dakota. Emile Walters fór nokkrum sinnum til Íslands og málaði þar talsvert. Jónas Þór