Steingrímur Jónasson Hall

Vesturfarar

Kirkjan í Winnipeg sem reist var 1904 og stóð til ársins 1921. Séra Jón Bjarnason var þá prestur safnaðarins en því embætti gengdi hann til dauðadags 1914. Mynd af honum fylgir. Mynd FLK

Steingrímur ólst upp í Garðarbyggð í N. Dakota og þótt landnemar kepptust við að brjóta landið, byggja yfir sig og sína hús þá gafst samt tími til að sinna börnum og þeirra námi. Ekki fara sögur af mikilli hljóðfæraeign frumbýlinga í nýju byggðinni í N. Dakota en það kom ekki í veg fyrir söng í ungum barnaskóla í Garðarbyggð. Steingrímur litli hefur trúlega orðið að láta sönginn duga fyrst um sinn en árin liðu og þegar hann var á 19. ári var ljóst hvert hugur hans stefndi. Hann var bersýnilega gæddur góðum tónlistarhæfileikum, svo góðum að rétt þótti að senda hann í tónlistardeild Gustavus Adolphus háskólann í St. Peter í Minnesota. Hann lauk þaðan B.A. prófi árið 1899 og dvaldi áfram næstu þrjú árin við framhaldsnám í Minneapolis og Chicago Musical College. Á þessum árum gafst honum tími til að skjótast til Winnipeg til að kvænast Sigríði Önnu Hördal, söngkonu. Hann var ráðinn kennari í tónlistardeild Gustavus Adolphus árið 1902 þar sem hann kenndi á píanó og orgel til ársins 1905. Það ár var hann ráðinn kennari til St. John´s College í Winnipeg þar sem hann kenndi á píanó.  Hann var ráðinn organisti við Fyrstu lúthersku kirkju í Winnipeg árið 1907 og sinnti því til ársins 1935.  Steingrímur tók virkan þátt í tónlistarlífinu í Kanada og kom víða við sögu. Hann var félagi í Manitoba Music Teacher Association frá stofnun og félagi í nokkur ár í The Imperial Academy of Music. Hann lék opinberlega einleik á píanó við góðan orðstír og hlaut lof tónlistargagnrýnenda fyrir tónlist sína. Hann var heiðursfélagi í The Icelandic Canadian Club. Heilmikið liggur eftir hann og má nefna Icelandic Song Miniatures with English translations, Toronto, 1924; Songs of Iceland with English Texts, Toronto, 1936; Songs of the North with English Textes 1954 og My God, why hast thou forsaken me, Winnipeg, 1924. Hann gaf Manitobaháskóla árið 1954 ein 40 bindi af íslenskum tónverkum, þ.á.m. óprentuð tónlagahandrit sín, til minningar um konu sína.

Þórstína Þorleifsdóttir skrifar um þau hjón í bók sinni ,,Saga Íslendinga í N. Dakota“ og segir m.a.

,,Í þau rúmu tuttugu ár, sem Steingrímur og Sigríður hafa verið í hjónabandi, hafa þau lagt saman krafta, til þess að músíkhæfileika þeirra nyti sem allra bezt. Steingrímur Hall hefir verið organisti Fyrstu lút kirkjunni í Winnipeg, og stjórnað þar söngflokknum svo árum skiftir. Kona hans hefir stöðugt sungið þar. Einnig hafa þau ferðast um hinar ýmsu bygðir Íslendinga og þannig gefið löndum sínum tækifæri til að heyra list þeirra. Báðum hefir þeim skilist, að listin er húsbóndi, sem heimtar, að þeir, sem hana stunda, slái ekki slöku við, ef vel á að fara og framfara er óskað. Þrátt fyrir heimilisstörf sín, hefir Sigríður haldið við sig því, sem hún lærði, og bætt við víðtækari þekkingu í list sinni. Nýlega var hún við nám í borginni New York, hjá kennara, sem álitinn er einhver sá frægasti í Ameríku, og hrósaði hann mikið söngrödd hennar og skilningi á því, að vefja sig með lífi og sál inn í efni þess, sem hún syngur. Hún hefir talsvert gert að því að syngja íslenzka söngva meðal innlends fólks og fengið mikið hrós. Markverðir söngfræðingar eru á þeirri skoðun, að Sigríður Hall hafi haft hæfileika frá náttúrunnar hendi, sem hefðu  getað gert hana að stjörnu  í óperum þessa lands, svo sem Metropolitan í New York, en hlutskifti hennar hefir orðið að starfa að mestu meðal Íslendinga og gleðja þá og hugga með sínum fagra söng, og reynast góð kona og móðir, og sönn hjálp í íslenzkum félagsskap. Þegar alt kemur til alls, er óvíst, hvor lífsbrautin er ákjósanlegri. Steingrímur er ekki einasta þektur sem snillingur á forte-piano og orgel, heldur hefir hann einnig gefið sig talsvert við að frumsemja lög. Þar á meðal má telja lagið við “Þótt þú langförull legðir“, og annað við Passíusálma-versið “Vertu guð faðir faðir minn“. Nýlega gaf hann út safn af frumsömdum lögum með enskum textum , þýddum úr íslenzku, og hafa þeir í sér fólgna marga gimsteina í íslenzkum skáldskap. Hefti þetta er nefnt “Icelandic Song Miniatures“, og var gefið út í Chicago. Í lögum sínum hallast hann að klassískri Músík, og eru lög hans þýð, hljómfögur og tilfinningunum stilt í hóf. Fyrir utan frumsamin lög, hefir Steingrímur einnig hjálpað til með prentun ýmsra músík-bóka, svo sem Söngbók íslenzku bandalaganna. Hann hefir einnig afrekað miklu í starfi sem kennari. Í framkomu er Steingrímur Hall mesta prúðmenni, gætinn og réttsýnn í dómum. Hann er maður vel lesinn og hefi áhuga fyrir öllum þörfum framförum“