Barði flutti til Mountain í N. Dakota frá Nýja Íslandi árið 1880. Þar gekk hann í skóla sem Steingrímur Þorláksson, bróðir sér Páls og þeirra sona Þorláks Jónssonar frá Stórutjörnum í S. Þingeyjarsýslu lét reisa. Bændur á bæjum í nærliggjandi sveitum sáu um að koma börnum sínum í skólann á hverjum morgni sem gat verið erfitt um hávetur, oftast urðu þau að ganga yfir nóttina. Séra Rögnvaldur Pétursson lýsir fyrstu skólum í íslensku nýlendunni í N. Dakota í jólablaði Heimskringlu árið 1923: ,,Eftir að skólar voru settir, jókst ágangur á bæjum, er næstir voru skólunum. Ef vont var veður um það leyti, er skóla var sagt upp að kvöldi, voru yngri börnin, er langt áttu að fara, eigi látin fara en hýst. Var þá stundum þröngt í rúmi, er 4-5 voru komin í eina sæng. En áhyggjur héldu sjaldnast fyrir þeim vöku; sofnuðu þau oftast vært undir húslestri, því þá máttu þau ekki lengur buldra saman, en urðu að hafa hægt um sig meðan á lestrinum stóð.“
Framhaldsnám og störf í N. Dakota: Barði hóf nám við ríkisháskólann í Grand Forks árið 1890 og vann jafnframt fyrir sér með kennslu árin 1888 – 1895 í íslensku byggðinni m.a. í Akra, Eyford, Mountain og víðar í N. Dakota. Hann B.A. prófi árið 1895, fyrstur Íslendinga í N. Dakota og tók jafnframt kennarapróf. Hann fékk vinnu á lögmannsskrifstofu í Grand Forks og hóf nám í lögum. Vann á skrifstofu Tempeltons dómara og Tracy R. Bangs lögmans þar í Grand Forks. Árið 1897 fékk hann málflutningsleyfi í N. Dakota, var kennari við lagadeild háskólans í Grand Forks á árunum 1900-1909. Hann stundaði jafnframt málafærslustörf í félagi við O. B. Burtness nokkurn en sá varð seinna héraðsdómari í ríkinu. Saman ráku þeir skrifstofuna Skulason & Burtness. Hann lauk prófi í hæstaréttarmálaflutningi árið 1907 og varð aðstoðarlögmaður Grand Forks County. Barði hafði alla tíð áhuga á stjórnmálum og svo kom árið 1908 að hann var kosinn þingmaður Rebúblikanaflokksins til ríkisþingsins og gengdi því í rúmt ár.
Portland í Oregon: Árið 1911 var Barði kominn með fjölskyldu og flutti með hana til Portland í Oregon þar sem hann bjó framvegis. Fljótlega eftir komuna þangað hóf hann samstarf við lögmanninn Guy C. H. Corliss en seinna í félagi við Alfred E. Clark og Malcom H. Clark og var skrifstofa þeirra kölluð Clark, Skulason $ Clark en Barði rak jafnframt eigin lögmannsstofu um árabil. Líkt og margir landar hans í Bandaríkjunum gegndi Barði herþjónusut í fyrri heimstyrjöldinni frá 1917 til 1919. Starfaði við herflutninga- og vistadeild hersins í Flórída. Hann lét margt gott af sér leiða t.a.m. stofnaði hann sjóð árið 1924 við ríkisháskólann í Grand Forks í N. Dakota til að styrkja fátæka nemendur. Hann varð vararæðismaður Íslands í Portland í Oregon árið 1942 og ræðismaður árið 1952. Hann var sæmdur stórriddarakrossi íslensku Fálkaorðunnar árið 1932 og hlotnast ýmsar sæmdir vestra enda talinn einn af frægustu lögmönnunum Bandaríkjanna síns tíma.