Gunnlaugur Vigfússon

Vesturfarar

Gunnlaugur Vigfússon  Mynd SÍND

Æskuárin heima:  Vigfús Pétursson, faðir Gunnlaugs byggði bæ sinn Grund í landi Hákonarstaða á Jökudal og þar sleit Gunnlaugur fyrstu barnsskónum. Hann var á þriðja ári þegar hann missti föður sinn sem drukknaði í Jökulsá á Dal sumarið 1862. Einar, móðurbróðir hans keypti mest af búinu til að hjálpa systur sinni og flutti síðan þangað sjálfur til að annast búskapinn. Hann kvæntist seinna, keypti Einarsstaði í Vopnafirði og flutti þangað. Jón nokkur Þorsteinsson kom þá á Grund með sinn bústofn og leigði Halldóra honum land sitt að hluta.  Alveg ljóst að Einar bjargaði fjölskyldunni frá að fara á sveitina.  Gunnlaugur var tíu ára þegar hann fór að Hákonarstöðum til Gunnlaugs, föðurbróður síns og var þar eitthvað en flutti svo aftur á Grund og gerðist smali hjá Jóni Þorsteinssyni.  Tólf ára fór hann úr móðurhúsum fyrir fullt og allt og var þrjú ár hjá Einari, móðurbróður sínum á Einarsstöðum. Þaðan lá leið hans til Magnúsar Mikkaelssonar á Fossi í Fossdal en þar voru þá móðir hans og bróðir komin. Þetta var árið 1875 þar sem þau voru fram á næsta ár. Þessi uppvaxtarár Gunnlaugs gáfu honum ekki tækifæri til mikillar skólagöngu en hann varð snemma læs og las allt sem hann komst yfir. Hann var tíu ára þegar hann byrjaði að læra dönsku, mest af eigin dugnaði en naut þó tilsagnar Páls bónda Jónssonar á Merki í Jökuldal í tvær vikur. Námskeiðið var ekki langt en dugði til að koma honum af stað og fékk hann lánað efni á dönsku og las t.a.m. tvær skáldsögur og til að létta honum lesturinn fékk hann lánaða litla orðabók hjá Jóni Gunnlaugssyni á Eiríksstöðum. Tólf ára gat hann bjargað sér munnlega en þá tók við nám, undirbúningur fyrir fermingu hjá Vigfúsi Sigurðssyni á Vopnafirði.  Samtals dvaldi hann hjá Vigfúsi í þrjá mánuði næstu tvö árin sem nýttust honum vel. Dönskukunnáttan átti eftir að borga sig í Vesturheimi. 

Vesturheimur: Gunnlaugur Pétursson frændi hans kvaddi Ísland árið 1873 og fór vestur um haf til Wisconsin. Hann var hjá norskum bónda næstu tvö árin en flutti þá með honum og fáeinum, norskum fjölskyldum vestur til Minnesota þar sem Norðmennirnir höfðu fregnað af góðu land í suðvestur hluta þess ríkis. Þar hét Norland sem Gunnlaugur nam land og nefndi Hákonarstaði en hann var fyrsti, íslenski landnámsmaðurinn í Minnesota. Honum og Norðmönnunum vegnaði vel og skrifaði Gunnlaugur vinum og vandamönnum á Íslandi og greindi frá kostum landnámsins þar. Á Jökuldal fóru menn að hugleiða vesturför og heyrði Halldóra af þessu og gaf því gaum. Um þær mundir var fólk víða um land að skrá sig til vesturfarar því Sigtryggur Jónasson var á Íslandi og greindi frá stofnun Nýja Íslands og hvatti sæmilega stönduga menn og konur að fara þangað vestur. Halldóru tókst, með hjálp Einars bróður síns að selja Grund og dugði andvirðið fyrir farbréfum vestur fyrir hana og bræðurna Gunnlaug og Pétur.  Vesturförum var skipt í tvo hópa og lentu Halldóra og synir hennar í seinni hópnum sem taldi 700 manns.  Einar náði tali af Halldóri Briem, fararstjóra hópsins og bað hann annast systur sína sem ætlaði til Gunnlaugs í Norland í Minnesota. Ferðin vestur yfir hafið gekk vel, slysalaust og taflítið, þar til komið var til Duluth í Minnesota. Þar var tafið í þrjá daga en hópurinn hafðist við í stórum innflytjendaskála þar sem mikið landakort hékk á vegg sem táningurinn Gunnlaugur skoðaði sér til gamans. Kortið sýndi Minnesota og svæði vestur og norður af. Eftir nokkra leit fann Gunnlaugur Norland (nafni seinna breytt í Minneota) og sá fljótlega að það var ekki í leiðinni til Winnipeg en þangað var hópurinn að fara. Hann náði í Halldór Briem, sýndi honum kortið og bað hann nú um að aðstoða þau við að finna hentuga og ódýra leið þangað frá Duluth, þau séu nánast félaus. Halldór kvaðst ekkert geta sinnt þessu því farbréf allra væru til Winnipeg og þaðan áfram til Nýja Íslands. Gunnlaugur var ósáttur við svar fararstjórans og fer að skoða kortið nánar, finnur Rauðá og Winnipeg og Winnipegvatn. Hann sýnir Halldóri og bendir á hversu fáránlegt það sé fyrir þau að fara 500 mílna leið í öfuga átt frá ákvörðunarstað þeirra. Enn bregst Halldór fálega við, segir að engu verði breytt, farbréfin séu til Nýja Íslands og auk þess sé farangur hópsins farinn með lest vestur á bóginn til þorpsins Fishers Landing þar sem fljótabátur bíður hópsins. Kvaðst Halldór hafa annað að gera en að sinna kenjum og málæði unglinga. ,,Reiddist Gunnlaugur þessu  kæruleysislega svari leiðbeiningarmannsins, og heimtaði af honum farbréf þeirra mæðgina, og segir Halldóri að hafa skömm fyrir alla frammistöðuna, því lakari leiðbeiningu hefði hann ekki getað í té látið, en að ætla að flæma mæðgin mállaus og allslaus 500 mílur þvert úr átt, norður í óbygðir Canada. Spyr hann jafnframt hvort þetta sé leiðbeiningin, er hann hafi lofað Einari móðurbróður sínum að veita systur hans og sonum hennar. Og svo framarlega sem þau séu komin í frjálst land fari hann ekki annað en þangað sem ferðinni hafi verið heitið, hvað sem móðir hans og bróðir geri. Og þó flutningurinn sé farinn, geri minst til, hann sé ekki mikils virði, hvar sem hann sé. Út í eyðiskóga Canada láti hann ekki teyma sig.“  (Almanak 1921, bls.71) Löndum Gunnlaugs þótti fararstjóri bregðast klaufalega við og voru allir sem tileyrðu sammála Gunnlaugi. Það varð til happs á þessari ögurstundu að hópur Norðmanna kom í heimsókn. Þeir höfðu frétt af Íslendingum í bænum og voru komir til að heimsækja þá. Gunnlaugur gerð sér lítið fyrir og ávarpaði þann sem fyrir hópnum fór á dönsku. Nú kom dönskukunnáttan sér vel því honum tókst að útskýra málið. Þeir tóku Halldór tali og lét hann þá umsvifalaust farbréf þeirra þriggja af hendi. Tveimur dögum seinna kom þar séra Páll Þorláksson og leitaði að Gunnlaugi. Hann greindi svo frá því að vel mætti breyta farbréfunum og nota þau til að komast til Norland. Það var gert og  tekist hafði að fá farangur þeirra sendan til baka með lest og skildu þau við hópinn og héldu suður á boginn. Þau voru viku á leiðinni, fóru um Minneapolis og Ulm áður en þau komu á Hákonarstaði að endingu og segir sagan að peningaforði þeirra þá  hafi verið verið $1.08.

Kortið sýnir Hákonarstaði við Yellow Medecine ána. þorpið Marshall og bæinn Granite Falls.

Menntun og störf: Það var ljóst fljótlega eftir komuna til Ameríku að Gunnlaugur vildi mennta sig og var fús til að leggja mikið á sig. Hann réði sig í vist hjá norskum bónda í héraðinu þar sem hann dvaldi til vors árið 1877. Þaðan fór hann í sáningarvinnu hjá öðrum norskum bónda við Yellow Medecine ána og vann við það í tvær vikur en nú vildi hann hugsa ráð sitt, vildi ná tökum á ensku. Þess vegna leitaði hann uppi enskumælandi bændur og fann einn sem bjó á landi nærri Marshall bænum og það var gæfuspor. Starfið var að gæta natgripahjarðar í 5 mánuði og fékk Gunnlaugur greitt 8 dali á mánuði. Honum áskotnaðist þannig svolítið fé og réði sig á veitingahús í Marshall um haustið. Hann gat þá sótt skóla í bænum fram að jólum en í ársbyrjun 1878 réðist hann til M. O. Hall, ritstjóra fréttablaðsins ,,Granite Falls Journal“ í bænum Granite Falls rúmlega 60 km norðuraustur af Hákonarstöðum. Hann setti þá skilmála að hann fengi að ganga á skóla í að minnta kosti þrjá mánuði á ári. Hann lauk skólanáminu í Granite Falls og fékk vinnu í ríkisþinginu í höfuðborginni St. Paul veturinn 1879 sem reyndist happafengur því vinnan var skapandi og vellaunuð. Hann tók kennarapróf vorið 1880 og kenndi það sumar hjá bændum en veturinn 1881 var hann í Decorah í Iowa þar sem hann stundaði gagnfræðanám. Þar hóf hann háskólanám sem hann stundaði til ársins 1886 en hætti þá námi við þann skóla. Átti þá eftir tvö og hálft ár af því námi. Hann flutti í Garðarbyggð í N. Dakota árið 1886 þar sem hann gekk í hjónaband og stofnaði fjölskyldu. Hann stundaði kennslu í byggðinni jafnframt búskap til ársins 1899 en þá fékk hann aðstoðarritarastöðu við héraðsréttinn (District Court) í Pembina héraði og settist hann því að í Pembina þar sem hann bjó lengi. Um þetta leyti byrjaði hann að lesa lög og tók próf árið 1902. Hóf því næst lögfræðistörf en vann jafnframt við hæstarétt ríkisins. Hann var kosinn ritari héraðsdómstólsins í Pembina árið 1906 og endurkosinn árið 1908. Síðan 1910 hefur hann einvörðunga stundað málfærslustörf bæði í Pembina og Cavalier.  Gunnlaugur tók að sér alls kyns verkefni og störf þar sem hann bjó bæði í Garðarbyggð og Pembina héraði. Hann varð fyrir því að skrifstofa hans eyðilagðist í miklum bruna í Pembina árið 1917 og missti hann þar öll skjöl sín og hvaðeina sem tengdist starfi hans sem lögmanns. Kunningi hans spurði hann hvort skaðinn hafi ekki verið tilfinnanlegur og þá sýndi Gunnlaugur Íslendinginn í sér því hann svaraði með vísu í anda Káins:

Eldurinn mitt ,,Office“ tók,
Alt varð þar að brenna
Nú á eg hvorki blað né bók
blýant eða penna.