Valdimar Jakobsson

Vesturfarar

Wesley College varð seinna United College og svo University of Winnipeg

Valdimar ólst upp í íslensku bændasamfélagi í Saskatchewan þar sem daglegt líf snerist um skepnur og akra. Bændurnir gáfu sér alltaf tíma til að lesa bækur og tímarit, lestrarfélög voru stofnuð í nánast hverri íslenskri sveit í Ameríku og mörg hver tengdust bókasafni. Það er næsta víst að þótt Valdimar hafi ungur unnið með föður sínum við skepnuhald í Þingvallabyggð í Saskatchewan, akuryrkju í Manitoba og fiskveiðar í Winnipegosis þá hefur hann fljótlega ákveðið einhvers konar framhaldsmenntun. Snemma komu góðar gáfur hans í ljós, hann þótti skynsamur og rökvís. Hann kaus að nema stærðfræði við Wesley College í Winnipeg og lauk þaðan BA prófi í greininni árið 1911. Hann hlaut árlega styrk til námsins vegna framúrskarandi árangurs og á lokaprófi hlaut hann hæstu einkunn sem gefin hafði verið í skólanum fram til þessa. Hann beið ekki boðanna, lögfræði átti hug hans allan og innritaðist hann í lagadeild University of Saskatchewan og lauk þaðan prófi í lögum árið 1914.

Lögfræðistörf: Hann hóf farsælan feril sem lögmaður í Saskatoon þar sem hann vann til ársloka 1915. Innritaðist þá í kanadíska herinn og varð þar yfirmaður, þjónaði bæði í Frakklandi og Belgíu. Þar varð hann fyrir gaseitrun 6. nóvember, 1917 og sendur heim til Kanada í maí, 1918. Hann náði fullum bata og ákvað að hressa aðeins upp á þekkingu sína á kanadískum lögum, innritaðist í lagadeild University of Manitoba í Winnipeg og lauk þaðan prófi vorið 1919. Sama ár opnaði hann í félagi við eiginkonu sína, Jórunni Magnúsdóttur lögmannsstofu í Winnipeg en hún lauk prófi í lögum frá háskólanum í Winnipeg árið 1919. Var hún ein af fyrstu konum í fylkinu til að ljúka því námi. Meðfram starfinu á lögmannsstofunni tók hann að sér kennslu við lagadeild University of Manitoba og starfaði við deildina í fimm ár. Hann var lögmaður í Winnipeg til ársins 1941 en síðan  dómari frá 1942. Hann var settur dómari yfir Héraðsdómi  í Minnedosa þar sem hann starfaði til ársins 1972.

Íslenskur uppruni: Valdimar varð snemma afar hrifinn af fjölþjóðamenningu Kanada, þar sem sérhvert þjóðarbrot miðlaði af arleifð sinni. Hann var ekki hrifinn af ,,melting pot“ stefnunni í Bandaríkjunum þar sem þegnar ríkisins voru fyrst og fremst Bandaríkjamenn, sem sjaldan kenndu sig við ættjörðina. Íslenskan uppruna sinn varðveitti hann alla tíð og tók virkan þátt í félagsstarfi landa sinna í Kanada. Hann fékk fáeina í lið með sér árið 1942 og hóf útgáfu á fjórðungsriti á ensku sem nefnt var The Icelandic Canadian. Þeir áttuðu sig á þörfinni á málgagni á ensku fyrir íslenska samfélagið í landinu.  Valdimar sat í útgáfustjórn í 23 ár, var sjálfur aðalritstjóri þess í 15 ár. Hann var sískrifandi greinar sem ekki aðeins birtust í hans tímariti heldur og öðrum sem helguðu sig fjölþjóðamenningunni.  Hann skrifaði tvær bækur um Íslendinga í Kanada. Á 50 ára afmæli Saskatchewan kom út bókin The Saskatchewan Icelanders; A Strand of the Canadian Fabric og á hundrað ára afmæli Kanada árið 1967 var gefin út bók hans The History of the Icelanders of Canada. Að endingu má greina frá því að Valdimar var einn þeirra Íslendinga í Kanada sem stuðluðu að stofnun Íslenskudeildar Manitobaháskóla.