Friðrik Jónsson Bergmann: Hann nam guðfræði í St. Louis í Missouri, í Osló í Noregi og Philadelphia þar sem hann var vígður prestur um vorið 1886. Sama ár tók hann kalli frá Íslendingum í Norður Dakota og starfaði þar til ársins 1902. Þá flutti hann til Winnipeg og gerðist kennari við Wesley College og varð prestur Íslendinga í svonefndum Tjaldbúðarsöfnuði í borginni. Hann varð varaforseti Hins evangeliska lútherska kirkjufélags Íslendinga í Vesturheimi en sagði sig úr félaginu árið 1909 vegna skoðanaágreinings. Eftir hann liggja fjölmörg rit og greinar því hann var alla tíð afar afkastamikill rithöfundur. Hann ritstýrði tímaritunum Aldamót 1891-1903 og Breiðablik 1906 til 1914. Þá kom hann á einn eða annan hátt að útgáfu Eina Lífið 1899, Ísland um aldamótin Reykjavík, 1901, Ísland hið unga, Winnipeg 1903, Vafurlogar 1906, Treginn og tárin, Reykjavík 1911, Hvert stefnir, Winnipeg 1916, Tvær prédikanir (ásamt séra Jóni Bjarnasyni) Reykjavík, 1891. Fyrirlestrar (lúthersa kirkjufélagsins) 1899 og Sögur Breiðablika, Winnipeg, 1919. Þórstína Þorleifsdóttir var nemandi séra Friðriks í N. Dakota og minntist hans í bók sinni ,,Saga Íslendinga í N. Dakota“ sem út kom í Winnipeg árið 1926.
Séra Friðrik J. Bergmann:,, 1886 tók séra Hans Thorgrimsen köllun frá Norðmönnum í S. Dakota: en það ár hafði Friðrik J. Bergmann frá Syðra-Laugalandi í Eyjafirði, sonur Jóns Jónassonar, Sigfússonar Bergmann frá Garðsvík á Svalbarðsströnd og halldóru Bessadóttur frá Gautastöðum í sömu sveit, útskrifast frá prestaskólanum í Philadelphia. Var hann kallaður í stað séra Hansar, og tók hann að sér söfnuði hans, og þar að auki aðra nýja. Alls þjónaði hann 8 söfnuðum frá 1886 til 1893, og í einum þeirra, Vídalíns-söfnuði, prédikaði hann á tveimur stöðum. Frá heimili hans voru 36 mílur til Grafton, 55 til Pembina, norður að Tunguá og uppá Fjöll voru 20 mílur. Alt fór hann þetta í opnum vagni, hvernig sem veður var. Starf séra Friðriks sem leiðtoga er því nær ómetanlegt. Ungur og fullur af andlegu og líkamlegu fjöri kom hann til nýlendumanna, eftir að hafa drukkið djúpt af lindum menningarinnar austur í Bandaríkjunum og um tvö ár í Noregi. Hann var starfsmaður með afbrigðum og áhrifamikill, ekki einasta sem prédikari og félagslífs-frumkvöðull, heldur líka sem kennari og rithöfundur. Í framgangi var hann hið mesta prúðmenni, ávalt þýður í viðmóti, góðglaður og sífelt með brennandi áhuga fyrir velferðamálum þjóðflokks síns. Árið 1902 hvarf séra Friðrik frá Dakota og gerðist kennari í íslenzku við Wesley-skólann í Winnipeg, og stóðst íslenzka kirkjufélagið kostnaðinn af því embætti í 8 ár. Þeirri er þetta ritar, er séra Friðrik sérstaklega kær sem kennari. Með framúrskarandi lipurð og lempi tókst honum að vekja aðdáun og áhuga lærisveina sinna á þeim fagra og göfuga þjóðararfi, sem felzt í íslenzkum bókmenntum, og glæða virðing og skilning á sérkennum þeim í íslenzku þjóðerni, sem þörf er að varðveita. Sérstaklega viðkvæman streng snertir æfiferill séra Friðriks í hjörtum aldurhniginna frumbýlinganna, sem minnast þess, hvap hann lagði á sig á fyrstu árunum. Eftirfylgjandi úrdráttur úr fundargerningum Vídalíns-safnaðar, frá 15. janúar, 1893 þegar nýlega var búið að kalla séra Jónas S. Sigurðsson fyrir prest, gefur hugmynd um það, hve ósérplæginn séra Friðrik var.“Næst var gerð fyrirspurn til séra Friðriks, hvað hann setti upp fyrir alla sína fyrirhöfn. Svaraði hann því þannig, að hann hugsaði ekki til neinnar borgunar fyrir sína fyrirhöfn; ap hún væri engin; sagði, að menn þyrftu að gefa sig alla við því, sem menn væru búnir að takast á hendur, og ef það væri vel gert, væri hann hjartanlega ánægður. Hann óskaði með nokkrum orðum, að samvinna mkilli safnaða og prests mætti blessast. Forseti þakkaði séra Friðrik með nokkrum orðum hans mikla og góða starf söfnuðinum til handa, bæði fyrrverandi og eins í þessu málefni. Pétur Pálmason, skrifari“.“
Séra Friðrik J. Bergmann á Íslandi árið 1899: Hann var samtímamaður Stephans G. Stephanssonar og höfðu þeir talvert saman að sælda þótt eigi væru ávallt samstíga, vegna skoðanamunar í trúar- og menningarmálum. Stephan semur minningarljóð um séra Friðrik látinn árið 1918. Í skýringum til útgefanda ljóða sinna segir Stephan: „Hann [séra Friðrik] og höf. [Stephan]kynntust ögn á Íslandi, unglingar þá. Vóru „sveitungar“ vestan hafs í Wisconsin og Norður-Dakota og ætíð kunningjar, en andstæðingar í ýmsum efnum, framan af. En það eltist þó mjög af.“ Og í ljóðinu sjálfu kveður við líkan tón þar sem segir: „Á allt sem áttum, sundurleitt og saman, er sætzt og þakkað – alvöruna og gaman!“. Séra Friðrik heimsótti ættjörðina árið 1899 ásamt kollega sínum séra Jóni Bjarnasyni, sem einnig var prestur vestanhafs. Þeir félagar ferðuðust víða um land. Þeir fóru sjóleiðis frá Reykjavík austur um land til Akureyrar. Þaðan riðu þeir byggðir suður til Reykjavíkur og komu víða við á þeirri leið. Eftir fárra daga dvöl í Reykjavík lögðu þeir svo, í byrjun september, upp í vikulanga ferð um Suðurland ogvar þá eitt aðal markmiðið þeirra að heimsækja prestinn og sálmaskáldið séra Valdemar Briem á Stóra-Núpi.Þeim félögum var allstaðar tekið opnum örmum á Íslandi, ekki hvað síst af prestastéttinni. Víða predikaði sr. Friðrik í kirkjum og tekur þá gjarnan fram að svo og svo margir prestar hafi verið viðstaddir guðsþjónustuna. Séra Friðrik lítur íslensk málefni, bæði andleg og veraldleg, föðurlegum gagnrýnisaugum og ber þá hlutina gjarnan saman við það sem hann þekkir frá Ameríku. Og hann er siðavandur. Á einum stað segir hann til dæmis: ,, Það þarf ekki glöggt auga til að sjá, að kirkjurækni á Íslandi hefur farið stórhnignandi síðastliðin 25-30 ár. Hún er því miður ekki bezt í kauptúnunum, þar sem fólkið á þó langbezt með að sækja kirkju. Því að þar eru sífelldar útreiðar á sunnudögum í allar áttir og þá reyna menn að taka daginn eins snemma og þeim er unnt.“ Þótt prestur hafi sitthvað við samgöngumál Íslendinga að athuga og liggi ekki á þeirri skoðun sinni að þeir ættu að nota vagna meira en þeir gera, kann hann vel að meta kosti íslenska reiðhestsins. Þegar hann er staddur á Skagaströnd, þar sem prestar í „því prýðis fallega héraði“ bera hann á höndum sér, ritar hann svo: ,,Síra Hallgrímur Thorlacius er mesti hestamaður og á sjálfur ljómandi hesta; naut ég þess og hafði nú hvern hestinn öðrum betri, svo ég fór ekki varhluta af þeim fögnuði,sem fyllir hjarta allra góðra Íslendinga, þegar þeir eru komnir á hestbak. Enda eru íslenzku hestarnir alveg aðdáanlegar skepnur. Þeir eru eins og skapaðir fyrir landið. Þar væri alveg óverandi, ef ekki væru hestarnir til að setja líf og fjör í fólkið. Dr. Frþ. Nansen, heimskautsfarinn frægi, segir, að íslenzku hestarnir séu lang beztu fjallahestarnir í heimi, og er það sjálfsagt hverju orði sannara, þó mikið sé með því sagt. Ef allir landarnir gjörðu eins vel skyldu sína og þeir, væri sannarlega vel yfir að láta. En skagfirzku hestarnir eru öllum hestum þýðari, sem ég kom á bak; það er eins og að sitja í mjúkum hægindastól, að vera á bakinu á þeim, en naumast fundust mér þeir að sama skapi endingargóðir, enda ekki mikið fyrir þeim haft í uppvextinum.“
Segja má að prestur geri nokkra úttekt á menningu og högum landa sinna hér heima og er það fróðleg lesning út af fyrir sig. Lítum aðeins á hvernig hann fjallar um og lýsir skoðun sinni á vega- og samgöngumálum okkar árið 1899, réttum fimm árum áður en hjól Thomsens bílsins snertu íslenska jörð:,, Vegurinn frá Reykjavík og austur yfir Hellisheiði liggur nú óslitinn alla leið ofan á Eyrarbakka og austur að Þjórsá og er hið mesta mannvirki, ljómandi akvegur, sem unun væri að aka eftir í góðum vagni með vönum hestum. Þetta er lang lengsti vegurinn, sem lagður hefur verið á Íslandi, enda er hann landinu til hins mesta sóma, og vonandi, að svona vegir verði komnir um þvert og endilangt landið áður en næsti aldarfjórðungur er liðinn. Annar vegur liggur frá Reykjavík að Þingvöllum yfir Mosfellsheiði. En fyrir utan þessa tvo vegi mega það heita að eins vegarspottar, sem lagðir hafa verið hingað og þangað um landið. Fyrir utan Reykjavík eru vegarspjöld með fram þessum vegi, sem minna menn á að vatna hestunum; það mun vera Tryggvi Gunnarsson, sem fundið hefur upp á því, og er það fagur vottur um vaxandi mannúðartilfinning gagnvart skepnunum. Vestan í heiðinni nokkuð ofarlega er áningarstaður sem heitir Kolviðarhóll. Það er nýbýli og hefur verið komið upp að nokkru leyti á kostnað landssjóðs, og bóndinn, sem þar býr, hefur ofurlítinn styrk á hverju ári, því þetta er nokkuð langt fyrir ofan mannabygðir og grasnytjar litlar. Þarna er ferðamönnum ætlað að nema staðar, láta hestana bíta og fá sér sjálfum ofurlitla hressing. Við höfðum heyrt í Reykjavík, að nýju vegunum fylgdu ýmsir annmarkar, sem væru ótrúlegir, það meðal annars, að maður yrði miklu lúnari að ríða eftir þeim en öðrum vegum. Þessu höfðum við nú ekki meir en svo trúað og talið það íslenzkar kenjar, því löndum vorum hættir svo til að verða sáróánægðir með það, sem þeir eru lengi búnir að þrá og berjast fyrir, um leið og þeir hafa veitt sér það. En þaðfundum við að þetta eru alls ekki tómar kenjar. Nýju vegirnir eru harðir eins og kletturinn og það þurfa þeir líka að vera til þess að endast. Þess vegna tekur jafn-hart á móti og stigið væri á klett í hvert skifti, er hesturinn stígur fæti niður, svo að manni finnst sami hesturinn miklu hastari, er hann rennur eftir nýju vegunum, en gömlu vegleysunum. Þess vegna er enginn vafi á því, að maður verður lúnari. Sumir segja líka að hestarnir endist ekki jafn-lengi með því að fara eftir þeim. Þeir verði fótaveikir miklu fyr en áður. Allir góðir hlutir hafa einhvern annmarka. Þetta ætti að flýta fyrir því, að farið verði að aka á vögnum eftir þessum ágætu akbrautum, eins ogalstaðar er gjört annarsstaðar í heimi, þar sem vegirnir leyfa. Annars svarar naumast kostnaði að leggja slíka akvegi. En þá má ekki hrúga svo sem tólf manns upp í vagn og láta hina smávöxnu hesta draga, eins og ég heyrði að eitt sinn hefði verið gjört, og svo uppgáfust þeir á miðri leið, eins og við var að búast. En létta, ameríska vagna fyrir tvo menn myndu þeir hæglega draga langar dagleiðir með viturlegri keyrslu; myndu menn fljótt finna, hve miklu betur slíkt ferðalag fer meðmanninn og hve miklu þokkalegra það er, þarsem maður situr tárhreinn í vagninum eins og í hægindastól heima í stofu sinni. En það er ekki mikil tilfinning, sem vöknuð er enn fyrir þess háttar ferðalagi á Íslandi.“ Síðasta ferðadaginn á Íslandi ríður prestur frá Þingvöllum til Reykjavíkur í stórum hópi vina og kunningja, sem þangað hafði komið á móti honum og haldið honum veglegt samsæti í Valhöll. Þetta er sunnudaginn 10. september og . . .,, Þegar kom heim undir höfuðstaðinn, fórum við að verða vör við hinn mesta aragrúa af útreiðarfólki og voru þar margir nokkuð ölvaðir. Kringum Reykjavík eru einlæg smákot, þar sem selt er vín, og er einna mest af því gjört á sunnudögum. En í sjálfum bænum ber mjög lítið á drykkjuskap og er það tvent ólíkt eða áður var, þegar enginn var til að sporna á móti og frægð þótti að því að vera sem mestur brennivínsberserkur.“
Ísland um aldamótin. Ferðasaga, sumarið 1899, eftir Friðrik J. Bergmann. Reykjavík.
Ísafoldarprentsmiðja 1901. Samantekt; Óttar Kjartansson.