Hans B Thorgrimsen

Vesturfarar

Séra Hans B. Thorgrimsen Mynd BÁ

Séra Hans B Thorgrimsen þjónaði söfnuðum í Norður og Suður Dakota og var farsæll prestur. Hann kom í íslensku byggðina í N. Dakota árið 1883 og þjónaði þar söfnuðum til ársins 1886. Fór þá til S.Dakota og gerðist prestur norsks safnaðar en tengsl hans við norska kirkjufélagið, Norwegian Synod voru nokkur því líkt og séra Páll Þorláksson, gekk hann á norska skóla kirkjufélagsins í Decorah í Iowa og lauk guðfræðinámi á vegum kirkjufélagsins. Báðir nefndir prestar voru umdeildir í íslenska samfélaginu vestra, séra Páll lendi í deilu við séra Jón Bjarnason og íslenskir prestar vestra áttu alla tíð erfitt með að vinna með séra Hans. Séra Friðrik Bergmann kynntist séra Hans ágætlega og sagði í bréfi til Einars Hjörleifssonar Kvaran dagsett í Garðar 16. júlí, 1902:,, Nú er séra Hans Thorgrimsen kominn í hans stað (séra Jónas A. Sigurðsson) og allt sýnist nú ganga vel enn sem komið er. Hann er nú í rauninni vandaður maður að upplagi nema hvað honum gengur illa að borga skuldir, hann er einlægur maður oh það er margt gott við hann, myndarlegur mjög í framkomu sinni að mörgu leyti oh hefir tekið hugi manna með stormi. En andlega talað er styrkurinn í honum frekar lítill. Öll guðfræði hans og kirkjulegt ,,standpunkt“ ekki annað en ,,eftersnak“. Norska sýnódan er hans kirkjulega ideal. Álítur þá ,,posotion“ sem ég hefi tekið í umræðum um Biblíuna óskaplega hættulega. Og svo er menn í söfnuðinum hans ósjálfstæðir að þeir dæma þar nú um allt þetta nákvæmlega eins og hann og látast vera orðnir hlægilega ,,orthodox“ að ég gæti rifnað af hlátri yfir þeim ef ég sæti ekki á strák mínum. Stígur Þorvaldsson er hér um bil sá eini sem maldar í móinn. Því gæti ég nú trúað samt að þetta stæði ekki um aldur og ævi. Séra Hans hræðist ég nú ekki. Hann er svo góður og almennilegur maður að upplagi að þótt höfuðið sé ekki sem áreiðanlegast er þó hjartað einlægt og gott og það er ávallt góðra gjalda vert.“ Þórstína Þorleifsdóttir þekkti vel til Hans  og segir um hann á einum stað í bók sinni,,Saga Íslendinga í N. Dakota“ :,, Árið 1900 lét séra Jónas af prestskap í Dakota og tók séra Hans Thorgrimsen að sér prestakall hans í norðurhluta bygðarinnar, og var hann þar prestur frá 1901-1912. Starf séra Hansar, bæði á frumbýlingsárunum og svo aftur eftir aldamótin, er markverður þáttur í sögu Vestur-Íslendinga. Honum ber heiðurinn fyrir að hafa fyrstur vakið máls á því að stofna eitt allsherjar kirkjufélag. Hans sérstöku sönghæfileikar vekja gleði og aðdáun hjá öllum þeim, sem á hann hlusta, og hefir hann gert mikið til að glæða áhuga fyrir þeirri list, einkum hjá ungmennum. Þrátt fyrir það, að hann hefir dvalið fjarri Íslendingum mikinn hluta ævi sinnar, hefir hann brennandi áhuga á öllu því bezta, sem einkennir íslenzka menning.“