Jónas A Sigurðsson

Vesturfarar

Jónas Ari Sigurðsson fór til Vesturheims árið 1887 og settist að í Norður Dakota. Var fyrst um sinn í þorpinu Hamilton en fór þaðan til Pembina. Þar mun hann hafa hugsað framtíðina, hann var útskrifaður búfræðingur  frá skólanum í Ólafsdal en meðan hann undirbjó það nám hjá séra Jóni Þorlákssyni að Tjörn í Vatnsdal er hugsanlegt að þeir hafi rætt guðfræði, að Jónas hafi hugleitt nám í þeim fræðum. Hann var ekki lengi að taka ákvörðun um framtíðina í Pembina því hann slæst í för með Birni B. Jónssyni árið 1891 og innritar sig í nýjan prestaskóla í Chicago. Þeim félögum gekk vel, þeir ljóka námi um vorið 1893 og eru báðir vígðir prestar á kirkjuþingi í Winnipeg af séra Friðriki J Bergmann 25. júní, 1893. Jónasi beið staða sóknarprests í N. Dakota og fór suður þangað nývígður. Þar þjónaði hann söfnuðum í Akra, Pembina, Hallson og Grafton til ársins 1901. Ýmislegt gekk á í persónulífi prests, hann felldi hug til annarrar konu, skildi við Oddrúnu Frímannsdóttur og fluttu vestur að Kyrrahafi um aldamótin. Kirkjunnar menn áttu bágt með sig vegna þessa t.d. skrifar séra Friðrik J Bergmann vini sínum Einari Hjörleifssyni Kvaran um málið  í bréfi dagsettu í Garðar 16. júlí, 1902 og segir:,,Við höfum annars verið ljótlega óheppnir upp á síðkastið. Séra Jónas fór eins herfilega að ráði sínu eins og þér víst hafið heyrt. Stúlkan sem hann hefir verið orðaður af í mörg ár fór í vor vestur til hans til Ballard og þau giftust sama dag og hún kom þangað, báðu Gen(eral) Council prest sem þar er að gifta sig. En þegar hann hafði kynnt sér alla málavöxtu neitaði hann að gjöra það. Það er ein óskapleg “ruin“ sem hann hefir látið eftir sig svo að allir hafa sannfærst um að hann hefir verið algjörlega siðlaus maður, sleppt sér algjörlega og misst allt vald yfir ástríðum sínum um leið og sú ákvörðun varð föst í huga hans að skilja við konuna.“ (BVÍ) Árið 1918 fékk Jónas kall frá Konkordia söfnuði í Þingvallabyggð í Saskatchewan og flutti þá sama ár í bæinn Churchbridge í Saskatchewan. Þar þjónaði hann til ársins 1927 en flutti þá austur til Selkirk í Manitoba þar sem hann þjónaði til dauðadags.

Churchbridge, Saskatchewan árið 1909. Mynd PP

Félags- og ritstörf: Séra Jónas var ágætlega ritfær, orti mikið og skrifaði. Hann var áhugasamur um félagsstarf í íslenska samfélaginu vestra og studdi hvar sem hann gat komið því við. Hann var bæði forseti og varaforseti Þjóðræknisfélags Íslendinga ári 1921-1933. Hann sótti Alþingishátíðina á Íslandi árið 1930 og mælti þar fyrir löndum sínum vestra. Hann var ritari íslenska kirkjufélagsins frá 1895-1900 og vararitari 1929-1933. Ljóð hans og ritgerðir bárust víða og birtust  oft í blöðum og tímaritum vestra t.a.m. Tímariti Þjóðræknisfélagsins og Sameiningunni, tímariti kirkjufélagsins.

Norður Dakota: Þórstína Þorleifsdóttir skráð í bók sína ,,Saga Íslendinga í N. Dakota“ sem kom út í Winnipeg árið 1926 stutta umsögn um séra Jónas Ara Sigurðsson. Eflaust studdist hún nokkuð við samantekt föður síns, Þorleifs Jóakimssonar, sem árum saman safnaði efni um Íslendinga í Norður Dakota. Hann féll frá áður en því verki var lokið  en dóttir hans lauk því eins og fram hefur komið. Um séra Jónas er þetta sagt:,,Árið 1893 vígðist séra Jónas Sigurðsson frá Gröf í Víðidal í Húnaþingi til prests við Vídalíns-, Hallson-, Pembina-, og Grafton – safnaða. Nýjan söfnuð stofnaði hann vestur af Hallson, er nefndist Péturs-söfnuður. Séra Jónas rækti víðtækt og vel unnið starf á þessu svæði í átta ár. Hann var sérstaklega vel til þess fallinn að laða þá, sem utan safnaða höfðu staðið, inn í söfnuð, og efldi hann áhrif kirkjunnar með því, að veita sunnudagaskólum og ungmennafélagsskap öflugt fylgi.  Dakotabúar fundu hann ekki einasta áhrifamikinn prédikara, heldur líka persónulega sívakandi fyrir öllu, sem styrkti kirkjulegan og borgaralegan félagsskap. Að margra áliti er hann sá skarpgáfaðasti prestur meðal Vestur-Íslendinga.“